1999-06-10 15:24:30# 124. lþ. 2.2 fundur 2. mál: #A samningur milli Íslands, Noregs og Rússlands um þætti í samstarfi á sviði sjávarútvegs# þál., utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 2. fundur, 124. lþ.

[15:24]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég get aðeins staðfest að ekkert lá fyrir um hugsanlegt markaðsverð þessara veiðiheimilda í samningaviðræðunum. Það var aldrei uppi á borðinu. Fyrst og fremst var rætt um magn. Sú niðurstaðan að Íslendingum beri að greiða fyrir 37,5% veiðiheimildanna er einungis samningsniðurstaða. Við hefðum viljað sjá þetta hlutfall lægra, kröfur okkar gengu út á það en samningsniðurstaðan var þessi.

Hvað afsal veiðiheimilda í íslenskri lögsögu varðar þá liggur skýrt fyrir að það stendur ekki til að gera þeim, sem þarna fá heimildir, að afsala sér öðrum veiðiheimildum sem þeir kunna að hafa í íslenskri lögsögu. Þarna verður deilt út veiðiheimildum á grundvelli þeirrar aflareynslu sem viðkomandi skip hafa á þessari veiðislóð.

Hins vegar er það rétt að gagngjald er m.a. í loðnu og þá halda ýmsir því fram að þá beri að bæta loðnuflotanum það upp. Ég bendi hins vegar á að við höfum ekki veitt allan loðnukvóta okkar á undanförnum árum og þannig mjög erfitt að halda því fram. Því er og haldið fram að þetta kunni að koma við ákveðin línuskip. Það má vel vera að svo sé en ég ætla ekki að meta það á þessu stigi. Það er ekki gert ráð fyrir því að þau skip sem fá veiðiheimildir á grundvelli þessara samningi afsali sér öðrum veiðiheimildum. Hvort mönnum finnst þetta vera ranglátt eða réttlátt er annað mál en þetta er alveg skýrt og hefur alltaf verið í þessu máli.