1999-06-10 15:26:35# 124. lþ. 2.2 fundur 2. mál: #A samningur milli Íslands, Noregs og Rússlands um þætti í samstarfi á sviði sjávarútvegs# þál., SvanJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 2. fundur, 124. lþ.

[15:26]

Svanfríður Jónasdóttir (andsvar):

Herra forseti. Það er áhugavert að fá að heyra það hér að þessi tala skuli vera samningsniðurstaða án þess að fyrir henni séu nokkrar forsendur. Út af fyrir sig er fróðlegt að vera upplýstur um það hvernig kaupin gerast á þeirri eyrinni.

Herra forseti. Hér kemur fram í máli hæstv. utanrrh. að um það muni ekki verða að ræða að íslenskar útgerðir afsali sér veiðiheimildum innan lögsögu til þess að fá veiðiheimildir í lögsögu Noregs eða Rússlands samkvæmt þessum samningi. Hins vegar er ljóst að þar mun borgað fyrir. Það er alveg ljóst.

Þar með er alveg ljóst að þetta kemur við einhvern. Sú loðna og aðrar tegundir sem við leyfum að séu veiddar innan okkar lögsögu verða væntanlega, auk þess að verða teknar úr sjónum, teknar af einhverjum. Væntanlega verður skorið niður hjá einhverjum öðrum sem þýðir að það eru einhverjir sem gjalda fyrir. Ef ekki þeir sem fá að veiða þá einhverjir aðrir. Út af fyrir sig er það líka merkileg niðurstaða, sú yfirlýsing hér var gefin.

Ég harma að ráðherrann sem hér er í forsvari skuli ekki geta sagt til um hvers virði þær veiðiheimildir eru sem hér er verið að leggja fram sem gagngjald í þessum viðskiptum. Eins og ég sagði áðan, er heppilegra fyrir umræðuna og framvindu málsins að fyrir liggi þær upplýsingar sem hv. þingmenn vilja fá og þurfa á að halda til þess að geta glöggvað sig á málinu áður en það kemur hér til afgreiðslu.