1999-06-10 15:28:35# 124. lþ. 2.2 fundur 2. mál: #A samningur milli Íslands, Noregs og Rússlands um þætti í samstarfi á sviði sjávarútvegs# þál., GAK
[prenta uppsett í dálka] 2. fundur, 124. lþ.

[15:28]

Guðjón A. Kristjánsson:

Hæstv. forseti. Hér erum við að ræða mál sem mér finnst nokkurt nýmæli og rétt að vekja athygli á því. Við erum að ræða þríhliða samning milli Íslands, Noregs og Rússlands sem byggir á því að við hættum veiðum á alþjóðlegu hafsvæði, hættum þeim veiðum sem við höfum haldið uppi á þessu alþjóðlega hafsvæði. Það hefur m.a. verið ein af þeim röksemdum sem við höfum haldið fram, um að okkur væri algjörlega heimilt að vera í Smugunni og færa þær veiðar inn í lögsögu ríkjanna Noregs og Rússlands.

Þeir aðrir samningar sem Ísland hefur gert um veiðiheimildir utan lögsögu eru ekki svona til komnir. Í engum öðrum samningi höfum við afsalað okkur veiðum á alþjóðlegu hafsvæði á tilteknum tegundum, farið með það inn í lögsögu viðkomandi ríkja og síðan lýst því yfir að við munum gera allt sem við getum til að veiða ekki á alþjóðlegu hafsvæði.

[15:30]

Í því sambandi mætti velta fyrir sér hvort sú staða gæti komið upp að Norðmenn sæktust eftir því að ná samningi um veiðar sínar á Reykjaneshrygg og vildu gera samkomulag um að færa þær inn fyrir lögsögu hjá okkur. Þeir eru þar að veiða á alþjóðlegu hafsvæði, úr stofnum sem eru bæði innan og utan lögsögu Íslands.

Það sem við stöndum frammi fyrir er samningur um veiðar sem er mjög frábrugðinn þeim öðrum samningum sem við höfum gert þar sem hann er byggður á alveg nýjum prinsippaðferðum. Aðrir samningar sem við höfum gert eru t.d. samningurinn um veiðar á rækju á Flæmingjagrunni og samningurinn um veiðar á Reykjaneshrygg, sem er um veiðar á aðlægum stofni, þ.e. stofni sem er bæði innan og utan okkar lögsögu. Jafnframt gerðum við síldveiðisamninginn við Norðmenn, Rússa, Færeyinga og Efnahagsbandalagið, um stofn sem bæði er innan og utan okkar lögsögu.

Hér afsölum við okkur veiðum á alþjóðlegu hafsvæði og samþykkjum að þar munum við ekki stunda veiðar á þessum tegundum í framtíðinni. Við getum auðvitað sagt þessum samningi upp eins og öðrum milliríkjasamningum en þarna erum við alla vega að búa til nokkur prinsipp, nokkur nýmæli. Spurningin er: Hvernig mun þetta líta út frá sjónarmiðum annarra ríkja sem veiða hér á lögsögumörkum okkar og munu því geta nýtt sér þessa stöðu með einhverjum hætti? Þetta vildi ég draga fram hér í upphafi.

Í þeim samningum sem við höfum gert á Reykjaneshrygg og á Flæmingjagrunni hefur verið greitt svokallað ,,innskilagjald`` til annarra skipa í íslenskri lögsögu. Í úthafsveiðilögunum, í 5. gr. segir :

,,Ráðherra getur bundið úthlutun skv. 2. og 6. mgr. því skilyrði að skip afsali sér aflaheimildum innan lögsögu Íslands er nemi, reiknað í þorskígildum, allt að 15% af þeim aflaheimildum sem ákveðnar eru á grundvelli þeirra málsgreina.``

Þessari reglu var beitt við veiðarnar þegar úthlutað var karfa á Reykjaneshrygg og þar var ákveðið að skila skyldi 8% ef ég man þá tölu rétt. Þegar rækjunni á Flæmingjagrunni var úthlutað var skert um 4% en skv. 6. gr. laga um fiskveiðar utan lögsögu má þar skerða um 7%.

Samkvæmt því sem hæstv. ráðherra sagði áðan þá stendur ekki til að neitt skilagjald komi fyrir þær veiðiheimildir sem menn fá í norsku og rússnesku lögsögunni. Mér finnst það nokkur tíðindi að hér skuli upplýst að um slíkt skilagjald verði ekki að ræða, ekki síst fyrir þá sem taka eiga þátt í að borga fyrir þessar heimildir, þ.e. mega eiga von á því að fá minna til að veiða af fisktegundum sem þeir hafa veitt en ella, þ.e. á löngu, keilu og blálöngu. Þetta mun bitna á íslenskum línuveiðiskipum sem stunda þessar veiðar. Þau skip fá hins vegar ekki úthlutanir í norsku og rússnesku lögsögunni, það er fyrst og fremst togaraflotinn sem fær þær. Mér finnst nýmæli að ekki skuli vera um neitt innskilagjald að ræða, ekki síst í ljósi þess að við beittum innskilagjaldinu á Flæmingjagrunni. Það er nefnilega mun lengri sigling á Flæmingjagrunn heldur en upp í norsku lögsöguna og því finn ég ekki nein rök fyrir því að ekki skuli sett á innskilaregla varðandi þær veiðiheimildir sem við eigum að fá í norsku og rússnesku lögsögunni. Ég held að það sé ekki gott veganesti að sleppa slíku gjaldi. Ég tel að það hefði átt að vera innskilaregla og það hefði jafnvel átt að merkja hana til þeirra útgerða sem einhverju fórna í staðinn að einhverju leyti. Það hefði verið ákveðin sanngirni í því.

Í þessum samningi er vert að huga að öðru atriði sem gerir það að verkum að ég tel hann óásættanlegan. Það er ákvæðið um að við skulum hverfa út úr veiðum í norsku lögsögunni og þeirri rússnesku ef ákveðið verður að heildaraflinn í Barentshafi verði fyrir neðan 350 þús. tonn. Þetta þak tel ég einfaldlega of hátt. Það hefði verið ásættanlegt að hafa þetta í kringum 250 þús. tonnin en þetta þak er mjög hátt og gæti hreinlega orðið til þess að á næsta ári ættu Íslendingar ekki rétt á að veiða í lögsögu Noregs eða Rússlands vegna þess að aflakvótinn hefði þá verið skorinn niður úr 480 þús. tonnum niður í 350 þús. tonn af þorski.