1999-06-10 15:37:15# 124. lþ. 2.2 fundur 2. mál: #A samningur milli Íslands, Noregs og Rússlands um þætti í samstarfi á sviði sjávarútvegs# þál., SJS
[prenta uppsett í dálka] 2. fundur, 124. lþ.

[15:37]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það sem mér kemur fyrst í hug þegar við ræðum þennan samning til lausnar á hinum svonefndu Smugudeilum og hlutdeild Íslendinga í veiðum í Barentshafi er sú staðreynd að ef ekki hefði verið farið þangað til veiða, af íslenskum útgerðum síðsumars 1993, þá værum við ekki hér að ræða yfir höfuð eitt einasta kíló til handa íslenskum útgerðum á þessu hafsvæði. Ég tel ástæðu til að rifja þessa staðreynd upp og halda til haga, m.a. í ljósi þess að meðal íslenskra stjórnvalda voru tilburðir til að stöðvar för íslenskra skipa til veiða á alþjóðlegu hafsvæði í Barentshafi og koma í veg fyrir að íslenskir sjómenn og útgerðarmenn gætu nýtt þjóðrétt sinn til veiða á opnu hafsvæði.

Mér er ljóst að samningurinn er lakari en hefði getað orðið, t.d. ef heppnin hefði verið með okkur Íslendingum og við náð samningum um lausn á deilunni þegar vígstaða okkar til samninga var sterkust, t.d. á síðari hluta þess árs að veiðin var í hámarki. Að sjálfsögðu verður að skoða hlutina í ljósi þeirra aðstæðna sem uppi eru á hverjum tíma og láta menn njóta sannmælis. Vígstaða Íslands til samninga er veikari nú eftir litlar veiðar og einnig í ljósi lélegra ástands þorskstofnsins í Barentshafi.

Ef litið er til veiðanna undangengin sex ár, frá 1993 til og með 1998, þá er aflinn misjafn, allgóður framan af tímanum en fór síðan mjög niður á við. Meðaltalið er þó upp á rúm 17.400 tonn á þessum sex árum ef mér hefur reiknast rétt til, þ.e. þessi 104.600 tonn af þorski deilt niður á tímabilið. Því er ljóst að að brúttóupphæðin sem hér hefur samist um upp á 8.900 tonn er alllangt frá því að vera meðaltalið og mjög langt frá því að endurspegla veiðina þegar best lét sem var 32--34 þús. tonn.

En 8.900 tonn hljóma nú kannski ekki svo illa og líta ekki út fyrir að vera svo slök niðurstaða fyrr en kemur að frádráttarliðunum eða mínusunum í dæminu. Þeir eru líka allverulegir. Í fyrsta lagi er verið að opna Norðmönnum leið inn í íslensku landhelgina á nýjum sviðum. Þeim viðskiptum lauk áður svo að þeir hurfu út úr íslensku landhelginni með veiðar á bolfiski fyrir nokkrum árum síðan en koma nú þangað inn á nýjan leik. Þeir fá auk þess verulegt endurgjald í línuveiðum á bolfiski og umtalsvert magn af loðnu, sem Norðmönnum hefur gengið vel að nýta undanfarin ár, þ.e. sinn hluta af úthlutuðum loðnukvóta. Þar við bætist að af þeim 4.450 lestum sem við fáum í rússnesku lögsögunni er um endurgjald að ræða í formi kaupa á talsverðum hlut.

Þegar upp er staðið er nettó hlutur Íslendinga án endurgjalds mun minni heldur en margir, og þar á meðal sá sem hér talar, höfðu gert sér vonir um.

Það jákvæða er hins vegar að deilurnar eru leiddar til lykta og ýmsir samstarfsmöguleikar opnast sem kunna að hafa verið mjög torveldaðir eða jafnvel ómögulegir á meðan deilurnar stóðu yfir --- ég er þá sérstaklega að hugsa um mögulegt samstarf Íslendinga og Rússa á sviði sjávarútvegs.

Að sjálfsögðu er jákvætt að fá það magn sem þarna er í boði þó vissulega megi um það deila hvort það sé réttarafsalsins virði sem þarna fer fram því við afsölum okkur veiðiréttinum á hinu alþjóðlega hafsvæði og reyndar með vissum hætti kröfugerðarrétti einnig. Ég bendi t.d. á að við afsölum okkur rétti til veiða á loðnu í Barentshafi í leiðinni.

Það má líka spyrja sig hvort ekki sé líklegt að lyktir þessa máls dragi úr líkunum þess að Íslendingar láti reyna á rétt sinn á Svalbarðasvæðinu og fylgi fast eftir rétti sínum á þessu hafsvæði að öðru leyti.

Síðan, herra forseti, vil ég nota þann stutta tíma sem ég hef hér til að ræða um framkvæmd samningsins af Íslands hálfu ef af verður. Í fyrsta lagi vil ég ræða þá undarlegu niðurstöðu, sem hér var reyndar komið inn á áðan að hluta til af hv. þm. Guðjóni A. Kristjánssyni, að það er horfið frá því fordæmi sem hafði verið skapað með samningum og úthlutun veiðiheimilda bæði á Flæmska hattinum og sérstaklega á Reykjaneshryggnum. Þar var beitt bæði svonefndri frumherjareglu í úthafsveiðilögunum og þá var einnig um endurgjald að ræða þegar kom til úthlutunar á varanlegum veiðirétti.

Í úthafsveiðilögunum er gert ráð fyrir hvoru tveggja og ég hafði gefið mér það í ljósi framkvæmdar að hefð væri að skapast fyrir því að báðum heimildunum væri beitt. Annars vegar þeirri að láta þá sem fyrstir fara til veiða og afla veiðireynslunnar á tilteknum fjarlægum miðum, taka á sig þann kostnað og þá áhættu sem því er samfara, njóta þess í nokkru með svonefndri frumherjareglu. Sú varð niðurstaðan þegar varanlega var úthlutað veiðiréttindum á Reykjaneshrygg í kjölfar samninga um þá skiptingu, þá var heimildinni beitt til fulls. 5% af varanlegum veiðiheimildum voru tekin frá, þeim haldið eftir og úthlutað til þeirra skipa sem þar hófu veiðar á fyrstu árum veiða Íslendinga þar.

Þá var einnig beitt heimild 5. gr. úthafsveiðilaganna um deilistofna til að reikna svonefnt endurgjald upp á 8% eða ríflega helming af því sem greinin gerir ráð fyrir að heimilt sé að gera. En 5. gr. um deilistofna gerir ráð fyrir því að allt að 15% endurgjald geti komið fyrir varanlega úthlutun. 6. gr. um fjarlægari stofna, hreina úthafsstofna, gerir ráð fyrir því að heimilt sé að reikna allt að 7% að endurgjaldi.

Ég sé engin rök standa til þess að beita ekki frumherjareglunni þegar úthlutað er varanlegum veiðiréttindum í Smugunni, sérstaklega vegna þess að öll veiðireynslan þar, hvert einasta kíló, er vegna veiða Íslendinga. Þar kemur ekki til neinn strandríkjaréttur eins og átti við á Reykjanesi og færði Íslendingum líklega 35--40% af þeim veiðiréttindum sem við fengum í samningum þar án þess að nokkur veiðireynsla hefði þurft að koma til.

Þar af leiðandi held ég að það sé mjög misráðið ef hvorugt á að gera. Veruleg rök standa til að reikna endurgjald samanber það að afgangur flotans leggur af mörkum til þess að þessir samningar náist með endurgjaldinu í loðnu og línuveiðum. Frumherjareglan var hins vegar hugsuð þannig af hálfu þeirra sem sátu í úthafsveiðinefndinni á sínum tíma og sömdu frv. um úthafsveiðar, að verka hvetjandi til þess að sækja í nýja stofna. Nákvæmlega þær aðstæður eru uppi núna, Íslendingar eru loksins, þó seint sé, að afla sér veiðireynslu í kolmunna á Hatton-Rockall svæðinu og í túnfiski. Í öllum þessum tilvikum er mikilvægt að Íslendingar nái fljótt eins mikilli veiðireynslu og kostur er. Það dregur að varanlegum samningum og uppskiptum á þessum tegundum. Það er því hörmulega misráðið að beita ekki frumherjareglunni og ég spyr hæstv. utanrrh. og hæstv. starfandi sjútvrh. um rök. Eru þau einhver fyrir því að brjóta báðar þessar hefðir sem þarna voru að skapast, að reikna endurgjald og beita frumherjareglunni? Ég sé þau ekki og tel að menn séu hér á villigötum. Það ber vel í veiði á vissan hátt að hæstv. fjmrh. er hæstv. núv. starfandi sjútvrh., því sá sami maður var jafnframt formaður úthafsveiðinefndarinnar sem samdi lögin og setti umræddar heimildir ekki inn án tilefnis.