1999-06-10 15:48:18# 124. lþ. 2.2 fundur 2. mál: #A samningur milli Íslands, Noregs og Rússlands um þætti í samstarfi á sviði sjávarútvegs# þál., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 2. fundur, 124. lþ.

[15:48]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég er í sjálfu sér litlu nær og út af fyrir sig skil ég að það er ekki kannski beinlínis í valdi eða á færi hæstv. utanrrh. að svara þessum spurningum því að þær snúa fyrst og fremst að framkvæmdinni hér heima. Sú framkvæmd er að öllu leyti í höndum sjútvrh., því að það er sjútvrh. sem fer með framkvæmd úthafsveiðilaganna og það er sjútvrh. sem tekur hina pólitísku ákvörðun um hvort beitt sé heimildum til að reikna endurgjald eða hvort beitt sé svonefndri frumherjareglu.

Nú kann að vera að það hafi verið rætt á sínum tíma og utanrrh. hafi gengið úr skugga um hvernig menn hugsuðu sér þessa framkvæmd áður en samningarnir voru gerðir. En það getur varla verið svo, herra forseti, að það bindi þannig hendur nýs sjútvrh. að honum væri ekki leyfilegt að hugsa sjálfstæðar hugsanir í þessum efnum.

Svo vill til að ég þykist vita nokkuð um afstöðu hæstv. núv. sjútvrh. af þeirri einföldu ástæðu að ég man hvaða afstöðu hann hafði til þess hvort beita ætti t.d. svonefndri frumherjareglu þegar Reykjaneshryggurinn átti hlut. Svo vill til að þá var hæstv. sjútvrh., Árni M. Mathiesen, mikill stuðningsmaður þess. Það kann að hafa staðið í einhverju samhengi við það að skip úr Hafnarfirði voru mjög framarlega í röð þeirra sem öfluðu fyrstu veiðireynslunnar á Reykjanesi en þó er ég alls ekki að segja að svo þurfi að vera heldur gæti þetta verið prinsippafstaða hjá hæstv. sjútvrh.

Fyrir mér er þetta fyrst og fremst prinsipp. Þetta er fyrst og fremst spurning um hvort við ætlum að reyna að skapa einhverja festu í framkvæmd þessara laga eða ekki. Eða á þetta að vera þannig að það sé hringlað með þetta að geðþótta og duttlungum eftir samningum hverju sinni? Þá er það mjög slæm niðurstaða. Ég leyfi mér að fullyrða að það verkar letjandi og eru vonbrigði fyrir þá sem eru einmitt þessi missirin að leggja í mikinn kostnað við að hefja nýtingu á stofnum sem við Íslendingar höfum ekki nýtt eins og að fjárfesta í túnfiskskipum, læra á kolmunnaveiðar eða læra á miðin á Hatton-Rockall, ef þau skilaboð verða send héðan að frumherjareglunni verði ekki beitt. Menn fái það í engu metið að ríða á vaðið og taka á sig það sem því fylgir.

Herra forseti. Þar sem þetta er reglugerðarákvæði fer ég fram á að í þingnefndum, sjútvn. og utanrmn., verði farið yfir þetta mál, sjútvrh. kvaddur til viðræðna og reynt að fá botn í hvort ekki sé hægt að standa öðruvísi að framkvæmdinni en núna liggur fyrir.

Að lokum spyr ég um það: Hvers vegna í ósköpunum var þessi reglugerð um skiptingu veiðiheimildanna í Barentshafi gefin út fyrir fram?