1999-06-10 16:08:12# 124. lþ. 2.2 fundur 2. mál: #A samningur milli Íslands, Noregs og Rússlands um þætti í samstarfi á sviði sjávarútvegs# þál., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 2. fundur, 124. lþ.

[16:08]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Það er ljóst að heimildin í 5. og 6. gr. úthafsveiðilaganna um svokallaðan frumherjakvóta er nákvæmlega það sem ég sagði --- heimild. Hún er engin skylda til að nýta þennan möguleika og sjútvrh. á þeim tíma ákvað að gera það ekki. Ég býst við því að hann hafi haft góð og gild rök fyrir því. Ég er ekki hér til svara um hver þau voru.

Að því er varðar hinar tvær spurningarnar þá get ég heldur ekkert fullyrt um það hvort þeim aðilum sem verða fyrir barðinu á gagngjaldinu, þ.e. þeim sem ella hefðu veitt keilu, löngu og blálöngu, 500 tonn, verður þetta bætt á einhvern hátt. Ég get ekki svarað því.

Að því er varðar fiskstofnana, ástand þeirra og hvort þeir þoli þetta þá hygg ég náttúrlega að fyrirspyrjandinn geri sér grein fyrir því að ég er heldur ekki í stakk búinn til að svara þeirri spurningu algjörlega undirbúningslaust. En ég geri nú ráð fyrir að menn hafi ekki verið að kasta fiski sem er í hættu inn í þennan samning, ef um slíkt hefði verið að ræða. Ég geri ráð fyrir að þeir menn sem undirbjuggu þennan samning af hálfu sjútvrn. og utanrrn. hafi haft eitthvað fyrir sér í því að þeir stofnar mundu þola þau viðbótar 500 tonn sem hér er um að tefla.

Vissulega er það þannig að hagnýting heimilda, eins og er að finna í úthafsveiðilögunum um frumherjaréttinn og endurgjaldið sem hér hefur ítrekað komið til umræðu, orkar tvímælis. Það þarf að vega og meta í hvert skipti hvort á að hagnýta slíkar heimildir. Það eru rök bæði með og á móti býst ég við. Það eru rök fyrir því að hafa þessa heimild inni, þess vegna var hún sett inn að frumkvæði okkar hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar á sínum tíma. Og hún hefur verið notuð áður. Hún var ekki notuð í þessu tilfelli, en ég er ekki til svara um rökin fyrir því hver vegna það var ekki gert.

Aðalatriðið á þessu stigi er að samþykkja samninginn. Síðan geta menn tekist á um framkvæmdina hér innan lands eins og þá lystir. Reglugerðin er gefin út 10. maí á grundvelli þess að þá var búið að setja stafi embættismanna undir samningsdrögin, þó að utanrrh. hafi ekki verið búinn að skrifa undir það sjálfur persónulega. Það lá því fyrir hvert efni málsins var.