1999-06-10 16:19:12# 124. lþ. 2.2 fundur 2. mál: #A samningur milli Íslands, Noregs og Rússlands um þætti í samstarfi á sviði sjávarútvegs# þál., GAK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 2. fundur, 124. lþ.

[16:19]

Guðjón A. Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Nú er það einfaldlega svo að það kerfi framseljanlegra aflaheimilda sem við erum með býður upp á þá verslunar- og braskleið sem hefur verið í gangi. Það er ekkert launungarmál að kvótar á Reykjaneshrygg, sem eru aðallega kvótar utan lögsögu en þó má veiða úthafskarfann inn að 150 mílum innan íslensku lögsögunnar og líka í grænlensku lögsögunni eins og menn vita, eru framseljanlegir og hafa gengið kaupum og sölum. Sama má segja um rækjukvótana á Flæmingjagrunni. Þar hafa menn verið að selja frá sér þann rétt og allt er þetta gert í krafti þess að menn hafa kvótasett þessar tegundir og gert þær að beinni verslunarvöru.

Íslenska kvótakerfið er beinlínis þannig hannað og þar til að okkur tekst að breyta því kerfi sem við erum með verður sjálfsagt um úthlutanir að ræða í einhverja svipaða veru. Vissulega má velta því fyrir sér hvort eðlilegt hefði verið að setja einhvers konar leigugjald fyrir þorskinn uppi í Smugu. En þá spyr ég: Hvað hefði átt að gera við síldina? Við erum nefnilega að tala um fjórar mismunandi aðferðir við að úthluta aflaheimildum. Við erum að tala um Flæmingjagrunn þar sem við notum 4% regluna til innskila á rækju, við erum að tala um Reykjaneshrygg þar sem mátti skila í þorskígildum 8% af því sem menn fengu úthlutað og þar skiluðu þá allir í ufsa sem þá var pappírsfiskur af því að það var frelsi í þorskígildum að skila inn þannig að menn fengu ekki bara úthlutað heldur borguðu ekkert fyrir það, ekki þá. Síðan er það síldin þar sem menn fengu úthlutað síldarkvóta og fá að veiða hana á hverju ári. Þar hefur ekki verið nein innskilaregla enda eru þar mismunandi reglur sem hafa verið með mismunandi útfærslur á milli ára. Núna er Smugan að koma með þriðju útfærsluna. (Forseti hringir.) Þetta er m.a. það sem við erum að gagnrýna. Það er að samræmið í þessu íslenska kvótakerfi er fyrst og fremst byggt á braski og engu öðru.