1999-06-10 16:28:21# 124. lþ. 2.2 fundur 2. mál: #A samningur milli Íslands, Noregs og Rússlands um þætti í samstarfi á sviði sjávarútvegs# þál., ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 2. fundur, 124. lþ.

[16:28]

Árni Steinar Jóhannsson:

Hæstv. forseti. Í sambandi við svokallaðan Smugusamning sakna ég eins í umræðunni. Mér finnst að þingmenn tali allt of lítið um þá heimspólitík varðandi fiskveiðar sem við höfum verið þátttakendur í að móta og ræða um. Við höfum mótað þá stefnu að miða að strandveiðum þannig að aflinn sé tekinn eins nálægt landi og hægt er með sem minnstum tilkostnaði.

Ég geri mér grein fyrir því að við höfum haft samráð og samvinnu við nágranna okkar eins og Grænlendinga og Færeyinga en það gildir öðru máli vegna þess að þar er um að ræða sameiginlega stofna. Þess vegna spyr ég hæstv. utanrrh. hvort það hafi e.t.v. verið haft að leiðarljósi að gera samninga á þá lund að Norðmenn og Rússar dragi sig þá t.d. út úr veiðum að einhverju leyti á Reykjaneshrygg sem er nær landi okkar og heppilegra fyrir allra hluta sakir að séu nýttir frá Íslandi og kannski að gefa eftir í staðinn Smuguveiðar. Ég tel að það sé allt of lítil umræða um málin út frá þessum sjónarhóli. Eins og svo oft áður gagnrýni ég marga hv. þm. fyrir að hella sér út í umræður um, við skulum bara segja viðskiptahlið málanna, fara út í tonn og kvóta, kostnað og þess háttar án þess að hafa þessa heildarsýn að leiðarljósi. Hvar eiga slíkir samningar að enda? Má t.d. búast við því að slíkir samningar verði fordæmi fyrir einhvers konar hliðstæða samninga varðandi samskipti okkar í fiskveiðum við t.d. Íra út af kolmunna o.s.frv.?

Ég er á móti því út frá náttúruverndarsjónarmiðum og nýtingu á auðlindum hafsins að menn fari út í viðskipti af þessu tagi í grundvallaratriðum. En ég geri mér þó grein fyrir því til þess að vera sanngjarn að lausn Smugudeilunnar var alger nauðsyn, og nauðsyn út frá því að ég tel að við höfum orðið fyrir miklu viðskiptalegu tapi vegna stöðu okkar í þessum málum út frá rússneskum/íslenskum sjónarhóli séð. Það er alveg ljóst að Norðmenn hafa kannski ekki verið mjög áfram um það að leysa deiluna vegna þess að með því að hafa deiluna óleysta bjuggu þeir næstum því eða sátu næstum því að því að hafa viðskipti við Rússa á Barentshafssvæðinu og höfðu af því mjög miklar tekjur, svo tugum milljarða skipti. Maður hefur því tilfinningu fyrir því að Norðmönnum hafi ekki leiðst drátturinn á málinu út frá viðskiptalegum sjónarmiðum.

En ég vil enn og aftur spyrja hæstv. sjútvrh. og hæstv. utanrrh.: Voru svona sjónarmið höfð að leiðarljósi? Var samningamönnum okkar gefinn sá tónn að semja þannig að við gætum nýtt auðlindirnar sem nær okkur eru út frá þeirri hugsun að við eigum að vera með strandveiðar að svo miklu leyti sem hægt er á heimsgrundvelli og að semja þá við viðkomandi aðila um að draga sig t.d. frá á Reykjaneshrygg?

Ég mun í haust leggja fram tillögu um aukin viðskipti við Múrmansk-svæðið. Ég tel að þar séu mjög miklir möguleikar. Eins og menn vita hafa verið höfð töluverð viðskipti við Rússa, viðskipti við Múrmansk t.d. á sviði skipaviðgerða, og e.t.v. opnast möguleikar með þessum samningi varðandi fiskveiðar og fiskvinnslu. Ég tel mjög mikilvægt að opinberir aðilar komi að þessu máli vegna þess að venjulegar viðskiptaleiðir hafa verið mjög erfiðar. Það vita þeir sem hafa þjónustað Rússa t.d. varðandi skipaviðgerðir og líka varðandi fiskkaup og fiskvinnslu og þess vegna er mjög mikilvægt að Alþingi Íslendinga og ríkisstjórn og samningamenn okkar komi að málinu til þess að liðka fyrir og ég árétta að ég geri mér grein fyrir að samningurinn opnar á þessa möguleika. Hann leysir vissan hnút sem við vorum komnir í. En enn og aftur: Ég vil fá svör við því frá hæstv. utanrrh. hvort þessi heimspólitík fiskveiðanna hafi verð höfð að leiðarljósi við samningsgerð af þessu tagi.