1999-06-10 16:35:55# 124. lþ. 2.2 fundur 2. mál: #A samningur milli Íslands, Noregs og Rússlands um þætti í samstarfi á sviði sjávarútvegs# þál., ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 2. fundur, 124. lþ.

[16:35]

Árni Steinar Jóhannsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég fagna því að hæstv. utanrrh. tekur undir þau sjónarmið að það væri gott að fara þessa leið. En við Íslendingar erum í þeirri stöðu að þetta er okkar stærsta atvinnumál. Við höfum viljað gefa okkur út fyrir að vera til fyrirmyndar í stjórn fiskveiða og ég held að undir öllum kringumstæðum ættum við að leggja megináherslu á það í öllum svona samningaviðræðum, hvort sem tekst að koma málinu í höfn eða ekki, að við förum þessa heimsleið um náttúruvernd, þ.e. verndun fiskstofna út frá heimspólitískum hagsmunum. Ég fagna því að vísu og geri mér reyndar grein fyrir því að möguleikar eru í samningnum til þess að skipta yfir o.s.frv. og ég vonast til þess að það verði þá gert og þeir möguleikar nýttir. En ég hef grun um það og þykist finna það, líka á málflutningi þingmanna hér í þinginu, að varðandi þessa leið, að setja fram skýra og klára stefnu sem miðar að því að samningarnir leiði til þess að hagkvæmni verði meiri, að verndun fiskstofna verði í auknum mæli höfð að leiðarljósi og að meira verði hugsað um að taka aflann frá ströndinni á sem hagkvæmastan hátt fyrir heiminn allan, hafi menn gleymt sér dálítið í praktískum kvótamálum og praktískum peningamálum í umræðunni. Ég ætlast til þess og vona að við getum opnað augu okkar æðstu ráðamanna fyrir því að sendinefndir af því tagi sem semja t.d. um Smuguveiðar haldi þessum málum mjög á lofti hvort sem við náum síðan árangri eða ekki. En ég tel að það hafi e.t.v. ekki verið gert í nógu ríkum mæli.