Aðgerðir vegna stríðsátakanna í Kosovo

Fimmtudaginn 10. júní 1999, kl. 17:33:02 (128)

1999-06-10 17:33:02# 124. lþ. 3.1 fundur 4. mál: #A aðgerðir vegna stríðsátakanna í Kosovo# þál., Flm. SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 124. lþ.

[17:33]

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon) (andsvar):

Herra forseti. Það sem er sennilega að er það að ég hef aðrar skoðanir í verulegum atriðum á þessum málum en hæstv. utanrrh. Það fer jafnan mjög í skapið á hæstv. utanrrh. að menn hafi aðrar skoðanir en þær sem eru löggiltar réttar að mati þeirra sem styðja NATO og ekki bara styðja það að við séum í því heldur styðja allt sem NATO gerir gagnrýnislaust. Það skulu vera lög, það skal vera hin eina rétta skoðun í utanríkismálum sem NATO ákveður að gera gegnum ráðandi áhrif Bandaríkjamanna. Þetta er svona.

Hæstv. utanrrh. Halldór Ásgrímsson hefur gengið fram fyrir skjöldu í því á Íslandi á undanförnum missirum að innleiða gagnrýnislausari mærð og dýrkun á NATO og hermálastefnu Bandaríkjanna en nokkur annar utanrrh. á undan honum að ég held. Er þá mjög mikið sagt því að löngum þóttu ýmsir íslenskir utanríkisráðherrar tiltölulega leiðitamir í þessum efnum.

Þegar kemur að hermálastefnunni þá felur hin nýja hermálastefna NATO sem ég kalla svo --- það má kalla hana eitthvað annað, öryggisstefnu eða eitthvað því um líkt --- í sér ákvörðun NATO-ríkjanna um að túlka hlutina þannig og ganga þannig fram að þeir geti farið í árásaraðgerðir út fyrir bandalagssvæðin. Það var það sem var samþykkt í Washington. Það var það sem olli vandræðunum í Þýskalandi. Eða hvað? Var það ekki það sem stóð í græningjunum? Ég veit ekki betur þannig að ég ætti ekki að þurfa að segja mönnum neinar fréttir hér, allra síst þeim sem voru í Washington sjálfir.

Vegna þess að hæstv. utanrrh. kvartar undan því að greinargerðin sé ekki sanngjörn og ekki í jafnvægi þá bendi ég honum á að ekki er farið dult með það hver ber ábyrgðina á því að flóttamannastraumurinn hófst út úr Kosovo. Það segir beinlínis að átökin hafi harðnað í febrúarmánuði á síðasta ári og þá hafi hersveitum Serba og Júgóslavíu tekist með stórskotaliðsárásum að reka Kosovo-Albana á burt. Er ekki verið að segja nákvæmlega hver ber ábyrgð á hverju?

Mér finnst röksemdafærslan hér vera sú sama og gagnvart Írak. Vegna þess að þetta er Saddam að kenna þá er í lagi að börnin deyi og við getum haldið þessu viðskiptabanni áfram endalaust af því að það er Saddam að kenna. (Forseti hringir.) Ég held, af því að hæstv. ráðherra spurði um úrræði, að fleiri Kosovo-Albanar væru á lífi og heima hjá sér ef öryggisgæslusveitir ÖSE hefðu verið áfram inni í Kosovo og ég tala nú ekki um ef ÖSE hefði fengið peninga til að sinna hlutverki sínu. Það var haft í fjársvelti en á hinn bóginn eru til nógir peningar til að henda sprengjum.