Aðgerðir vegna stríðsátakanna í Kosovo

Fimmtudaginn 10. júní 1999, kl. 17:35:53 (129)

1999-06-10 17:35:53# 124. lþ. 3.1 fundur 4. mál: #A aðgerðir vegna stríðsátakanna í Kosovo# þál., utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 124. lþ.

[17:35]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. gerir mikið úr því að ég þoli ekki að hlutirnir séu gagnrýndir. Ég þoli það afar vel. En ég hef bara fullt leyfi til þess að gagnrýna það sem hv. þm. er að segja. (Gripið fram í.) Það virðist nú vera. Hann virðist vera afar viðkvæmur fyrir því að verið sé að ræða það að svo kunni að vera að málflutningur hans mundi hafa getað orðið til að þessar hörmungar hefðu leitt til þess að Milosevic hefði getað farið sínu fram.

Það liggur fyrir að haustið 1998 --- ég er hér með skýrslu frá öryggisráðinu --- eru 280 þúsund manns frá Kosovo á vergangi. Ég get útvegað hv. þm. margar hlutlausar skýrslur um þennan vanda þannig að þetta var allt saman komið í gang löngu áður. Ég mótmæli því að menn skuli ekki getað sett þetta þannig fram að sannleikurinn sé sagður, en láti eins og þetta hafi hafist með loftárásum Atlantshafsbandalagsins. Atlantshafsbandalagið var að reyna að stöðva ósköpin og það hefur tekist að stöðva ósköpin. Ætli það sé ekki best að fólkið í Kosovo og íbúarnir þar dæmi fyrst og fremst um það hvaða var rétt að gera í þessu máli? Ætli það liggi ekki alveg ljóst fyrir að fólkið í Kosovo, sem er fyrir utan landamærin, vill ekki fara þarna inn nema það hafi einhvern með sér sem það getur treyst? Hverjir eru það? Ætli það séu ekki ríki Atlantshafsbandalagsins sem þetta fólk treystir? Ætli það sé ekki best að þetta fólk sé æðsti dómari um það hvað hafi verið rétt í þessum máli en ekki við hv. þingmenn á Alþingi Íslendinga?