Aðgerðir vegna stríðsátakanna í Kosovo

Fimmtudaginn 10. júní 1999, kl. 17:38:03 (130)

1999-06-10 17:38:03# 124. lþ. 3.1 fundur 4. mál: #A aðgerðir vegna stríðsátakanna í Kosovo# þál., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 124. lþ.

[17:38]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Það er ekkert undarlegt að hæstv. utanrrh. skuli vera heitt í hamsi eða öðrum ráðherrum í ríkisstjórn Íslands eða hverjum þeim sem bera ábyrgð á stríðsrekstrinum á Balkanskaga vegna þess að íslensk stjórnvöld, við erum ábyrg fyrir því sem þar er að gerast. Við eigum aðild að NATO og NATO er þarna árásaraðili þannig að við berum ábyrgð og það er ekkert undarlegt að mönnum verði heitt í hamsi.

Hitt er verra að umræða um þessi mál og þær ákvarðanir sem hafa verið teknar fyrir okkar hönd hafa aldrei verið ræddar hér. Þegar óskað var eftir því að utanrmn. Alþingis kæmi saman þegar árásirnar voru í þann mund að hefjast, þá var ekki orðið við þeirri beiðni. Það er m.a. í þessum anda að við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs á Alþingi leggjum til í þáltill. að skipuð verði nefnd fulltrúa allra þingflokka sem fari í samráði við stjórnvöld yfir fjóra meginþætti.

Leggi í fyrsta lagi mat á eðli NATO í samhengi við nýja hermálastefnu bandalagsins. NATO fylgir núna annarri stefnu en gert var fyrr á tíð að því leyti að ákvörðun er tekin um það að ráðast á ríki utan bandalagsins án þess að bandalaginu sjálfu hafi verið ógnað. Þar er hin nýja stefna. ,,Hvar er plaggið?``, spyrja menn. Hvar er pappírinn? Þessi stefna er í framkvæmd og við höfum orðið vitni að þeirri framkvæmd á liðnum vikum.

Í öðru lagi viljum við gera úttekt á lögmæti hernaðaraðgerða NATO í Júgóslavíu. Við lítum svo á að þessi hernaðarstefna eins og hún birtist okkur í verki stríði gegn anda sáttmála Sameinuðu þjóðanna enda er öryggisráð Sameinuðu þjóðanna virt að vettugi; stríði gegn Helsinki-sáttmálanum þar sem kveðið er á um að ríki skuli ekki ógna öðrum ríkjum, hvað þá ráðast á þau. Og þessi stefna og þessi hernaður stríðir gegn Genfarsáttmálanum, brýtur í bága við hann. Þar er kveðið á um að óheimilt sé samkvæmt alþjóðalögum að ráðast á óbreytta borgara eða mannvirki sem hafa ekki hernaðarlegt gildi. Nú hafa fulltrúar NATO sagt sem svo að í þeim tilvikum þegar ráðist hefur verið á slík mannvirki, sjúkrahús, brýr, elliheimili, skóla og járnbrautarlestir, hafi verið um slys að ræða. En það er óvefengjanlegt að það var ekki af slysni að ráðist var á sjónvarpsstöðvar og fjölmiðla. Það var ekki slys. Það var gert af yfirveguðu ráði.

Þriðja atriðið sem við viljum láta gera úttekt á eru umhverfisáhrifin af þessum hernaði. Ábyrgir aðilar úr röðum umhverfissinna innan Sameinuðu þjóðanna og á vegum annarra stofnana hafa lýst yfir áhyggjum og haft í frammi mótmæli, bent m.a. á að þarna sé að finna einhverjar stærstu og mestu grunnvatnslindir á þessum slóðum, í þessum heimshluta, og að þær hafi orðið fyrir varanlegu tjóni sem muni segja til sín um ókomin ár. Síðan hefur verið bent á að mengunin sem hlýst af sprengjuregninu á verksmiðjur, efnaverksmiðjur og aðrar verksmiðjur, muni segja til sín á komandi árum jafnvel áratugum að ekki sé minnst á sprengjurnar sjálfar. Þar hefur verið vísað til úransprengna sem sannanlega hafa valdið hvítblæði í kjölfar Flóabardaga þar sem vopnum af þessu tagi var beitt og menn óttast að hið sama muni verða uppi á teningnum hér. Sérfræðingar hafa bent á að eiturgufur, díoxíneiturefni í loftinu, hafi margfaldast á þessum slóðum.

Einnig viljum við marka stefnu í þátttöku Íslands í uppbyggingarstarfi á Balkanskaga. Reiknað er með því að uppbyggingin komi til með að kosta yfir 31 milljarð Bandaríkjadala, þ.e. 3.200 milljarða íslenskra króna. Við erum að tala um stjarnfræðilegar upphæðir. Júgóslavar hafa haldið enn hærri upphæðum fram. Menn hafa bent á að á fyrsta kvöldi loftárásanna hafi NATO kostað eins miklu til og Bandaríkjamenn vörðu til uppbyggingarstarfs í kjölfar náttúruhamfaranna í Mið-Ameríku fyrir fáeinum missirum. Þetta eru upphæðirnar sem við erum að tala um.

Nú geri ég mér grein fyrir því að menn reyna að bregða réttlætingarskildi yfir gerðir sínar og spyrja með þjósti: ,,Hvað vilduð þið gera?`` Við vildum að við Íslendingar færum fram með allt öðrum hætti, þ.e. á vettvangi Sameinuðu þjóðanna í stað þess að hunsa þann vettvang. Það var það sem við vildum gera. Þótt við kunnum ekki lausnirnar þá vitum við að þessi aðferð var ekki rétt. Það er hollt fyrir okkur þegar við hyggjum að þeim hörmungum sem fórnarlömb Serba hafa sannanlega orðið fyrir að hyggja líka að fórnarlömbum okkar, fórnarlömbum NATO.

[17:45]

Það er umhugsunarefni að lesa í fjölmiðlum hvernig fjallað er um þessi mál á vettvangi Atlantshafsbandalagsins. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon vitnaði í árás sem var gerð á júgóslavneska hermenn í upphafi vikunnar, þar sem þeir voru komnir saman 800--1.200 talsins. Það var gerð á þá sprengjuárás með B-52 sprengjuflugvél og haft eftir talsmanni NATO í Morgunblaðinu, með leyfi forseta:

,,Árásin hlýtur að hafa komið þeim algerlega í opna skjöldu,`` sagði embættismaður bandalagsins í viðtali við Washington Post í gær. ,,Það leikur enginn vafi á að þarna varð mikið mannfall. [Serbarnir] voru gjörsamlega malaðir.``

Og varðandi réttlætingarhjúpinn sem menn tala um þá langar mig undir lokin, hæstv. forseti, að vitna í hæstv. forsrh. íslensku þjóðarinnar, sem sagði í útvarpsviðtali fyrr í vor:

,,NATO bregður sínum varnarskildi fyrir þetta fólk sem er Evrópufólk.``

Og fréttamaðurinn spurði hæstv. forsrh. um aðra þjóð sem á í erfiðleikum, (Forseti hringir.) Kúrda í Tyrklandi. Íslenska forsrh. varð ekki svarafátt:

,,Þú ert nú reyndar þar kominn út fyrir það svæði sem NATO tekur til,`` --- svaraði hann fréttamanninum, --- ,,auk þess sem vandamálið er að hluta til gagnvart Kúrdum að hluti þess vandamáls er innan eins ríkis sem á aðild að NATO (Forseti hringir.) og það er ljóst að NATO gerir ekki loftárásir á sjálft sig.``

Hæstv. forseti. Skilaboðin eru skýr: Svo lengi sem ofbeldið er að finna innan NATO eða á meðal skjólstæðinga hernaðarveldanna, hvort sem er í Tyrklandi eða öðrum löndum sem ríkustu iðnaðarherveldum heimsins eru þóknanleg, þá geta hinir varnarlausu ekki átt von á því að NATO bregði fyrir þá varnarskildi.