Aðgerðir vegna stríðsátakanna í Kosovo

Fimmtudaginn 10. júní 1999, kl. 17:57:17 (133)

1999-06-10 17:57:17# 124. lþ. 3.1 fundur 4. mál: #A aðgerðir vegna stríðsátakanna í Kosovo# þál., forsrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 124. lþ.

[17:57]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég veit satt best að segja ekki, meðan svona mikil blinda ríkir, hvort það hefur eitthvað upp á sig að vera í þessum umræðum, þegar sagt er að ofbeldi NATO, að ofbeldisverk NATO séu hér til umræðu, annað ekki. Á okkur ekki að leyfast að lýsa því hver staðan var þegar NATO greip inn í og reyna kannski að gera sér í hugarlund hver staðan væri ef NATO hefði ekki gripið inn í?

Þá væru tvær milljónir manna á vergangi sem kæmust ekki heim. Þá yrði aldrei upplýst um þau fjöldamorð öll sem þarna áttu sér stað. Þá væri grænt ljós gefið á framhald ofbeldis af þessu tagi í veröldinni.

Eins og hv. þm. sagði eru hér nákvæmlega til umræðu þeir atburðir sem áttu sér stað í Kosovo, og ég ræddi þá. Ég skal gjarnan ræða við þingmanninn um aðra hluti síðar meir. En við skulum halda okkur við þetta á þeim skamma tíma sem við þingmenn höfum hér.

Þingmaðurinn segir að við horfumst ekki í augu við afleiðingar verka okkar. Ég gerði það nákvæmlega eins og hæstv. utanrrh. hefur gert. Afleiðingar aðgerða Atlantshafsbandalagsins eru þær að Milosevic hefur verið stöðvaður, skilyrði þess að fólkið fái að snúa heim eru að skapast. Það snýr ekki heim ef ÖSE er þar eitt og sér. Það hefur sagt það sjálft. Það snýr eingöngu heim, eins og hæstv. utanrrh. benti á, ef ríkin sem sýnt hafa styrk og þrautseigju og bilað hvergi, NATO-ríkin, verða þeim til halds og trausts. Ella fer það hvergi. Svo hrakið og þjáð er þetta fólk.