Tillögur um aðgerðir vegna fíkniefnavandans

Mánudaginn 14. júní 1999, kl. 13:36:51 (142)

1999-06-14 13:36:51# 124. lþ. 4.1 fundur 46#B tillögur um aðgerðir vegna fíkniefnavandans# (óundirbúin fsp.), RG
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 124. lþ.

[13:36]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Herra forseti. Þetta er orðinn nokkuð langur tími. Það er ekki nóg að hafa brennandi áhuga á að leysa fíkniefnavandann í kosningabaráttunni en gleyma því um leið og sest er í ráðherrastólana. Var ekki talað um milljarð í fíkniefnavarnir á fjölmörgum sviðum?

Hér á borðum þingmanna liggur fyrirspurn frá Svanfríði Jónasdóttur um samþykktir ríkisstjórnarinnar og útgjöld sem hún hefur stofnað til eða kynnt áform um utan fjárlaga. Ég hefði viljað sjá tillögur ríkisstjórnarinnar í þessum málaflokki efst á þeim lista, herra forseti, en áherslur ríkisstjórnarinnar hafa, a.m.k. fram að þessu, legið annars staðar. Við munum fylgjast vel með aðgerðum ríkisstjórnarinnar. Það er ekki nóg að tala um þessi mál en aðhafast ekkert af því að aðgerðir eru fjárfrekar. Ég hvet til þess að fólkið sem hafði mjög hátt um þessi mál í kosningabaráttunni standi við áformin sín góðu.