Uppsagnir grunnskólakennara

Mánudaginn 14. júní 1999, kl. 13:55:09 (156)

1999-06-14 13:55:09# 124. lþ. 4.1 fundur 51#B uppsagnir grunnskólakennara# (óundirbúin fsp.), ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 124. lþ.

[13:55]

Þuríður Backman:

Hæstv. forseti. Fyrir liggur að nú þegar hafa fjölmargir grunnskólakennarar sagt upp störfum og margir eru að íhuga uppsagnir. Laun og kjör kennara er ástæða þessara uppsagna. Þó að nú sé hásumar þá líður tíminn hratt og fyrr en varir verður komið haust og fyrirsjáanlegt er að skólahaldi í mörgum grunnskólum er stefnt í hættu.

Því beini ég þeirri fyrirspurn til hæstv. menntmrh.:

Hvernig hyggst ráðherra bregðast við þeirri stöðu sem blasir við skólahaldi í grunnskólum landsins næsta vetur ef uppsagnir kennara standa þá?