Uppsagnir grunnskólakennara

Mánudaginn 14. júní 1999, kl. 13:57:28 (159)

1999-06-14 13:57:28# 124. lþ. 4.1 fundur 51#B uppsagnir grunnskólakennara# (óundirbúin fsp.), menntmrh.
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 124. lþ.

[13:57]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Þegar grunnskólinn var fluttur til sveitarfélaganna var samið um það á milli ríkisins og sveitarfélaganna hvernig að fjárhagslegum málefnum yrði staðið. Það hefur verið staðið í einu og öllu við þá samninga og af hálfu sveitarfélaganna hefur komið fram að tekjur sveitarfélaganna af þeim tekjustofnum sem ríkið afhenti þeim við flutninginn eru einum milljarði króna hærri en gert var ráð fyrir í þessum samningum á milli ríkisins og sveitarfélaganna. Því er ekki hægt að standa hér og telja að þessir samningar, sem gerðir voru á milli ríkisins og sveitarfélaganna, hafi leitt til þess að tekjuöflun sveitarfélaganna hafi minnkað. Þvert á móti hefur hún verið mun meiri en samningarnir gerðu ráð fyrir.