Byggðavandi og staða fiskverkafólks

Mánudaginn 14. júní 1999, kl. 14:12:36 (169)

1999-06-14 14:12:36# 124. lþ. 4.92 fundur 44#B byggðavandi og staða fiskverkafólks# (umræður utan dagskrár), Flm. KVM (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 124. lþ.

[14:12]

Karl V. Matthíasson:

Herra forseti. Ég vil hefja mál mitt með árnaðaróskum forseta Alþingis til handa í vandasömu starfi. Megi honum farnast sem best í þessu embætti svo að það verði honum og þingi til sóma.

Vert er að vekja athygli á þeirri stöðu sem margt fiskverkafólk er í hér á landi. Þær fréttir sem okkur berast úr fiskvinnslunni eru margar hverjar ekki góðar og skemmst er að minnast sviptinga í tengslum við Vinnslustöðina í Vestmannaeyjum sem hafði þær afleiðingar að fjölda fiskverkafólks í Þorlákshöfn var sagt upp störfum þrátt fyrir heilög og fögur loforð um að kvótinn yrði ekki tekinn í burtu af fólkinu í Þorlákshöfn.

Þá koma einnig fréttir frá Vestfjörðum þar sem skýrt er frá lokun fyrirtækis sem starfar í Bolungarvík, Þingeyri og Bíldudal. Þetta fyrirtæki hefur sérhæft sig í vinnslu á fiski sem keyptur er af rússneskum aðilum og er það nánast einasti fiskurinn sem unninn hefur verið í fiskvinnslu á Þingeyri og Bíldudal undanfarið. Sem stendur er fjöldi fiskverkafólks í þeirri stöðu að vera heima hjá sér, fullfrískt í biðstöðu og með áhyggjur, í stað þess að vera í vinnunni til að efla hag sinn og þjóðarinnar.

Skondið má það reyndar teljast að uppistaða hráefnis í fiskvinnslu þessara staða skuli sótt í haf fjarlægra landa þar sem fiskurinn syndir nánast í fjöruborði staðanna. Hvaða möguleika á þetta fólk sem flest man þá stund að togarinn og bátarnir komu oft í mánuði að bryggju með afla til vinnslu? En svona er þetta ekki lengur. Litlar sem engar fiskveiðiheimildir eru fyrir hendi hjá sumum plássum sem mega muna fífil sinn fegurri. Einnig er það svo að þeir sem búa á þessum stöðum og vildu stofna til smábátaútgerðar geta það ekki fyrir nokkurn mun því það kostar tugi milljóna að verða sér úti um trillu eða aflaheimild.

Þá hefur vinnslan færst á haf út í stórauknum mæli og afleiðingarnar eru þær að hún hefur minnkað í landi. Ljóst er að samkeppnisaðstaða landvinnslu og vinnslu verksmiðjuskipa er ójöfn fyrir margra hluta sakir.

Þegar þessi mál koma til umræðu verður ekki hjá því vikist að spyrja: Er ekki tími til þess kominn að fiskverkafólkið taki þátt í stjórn og stefnumótun fyrirtækjanna sem það vinnur hjá? Ég er sannfærður um að fiskvinnslan á Íslandi væri mun öflugri í fullvinnslu hráefnis ef fólkið við færibandið og á gólfinu hefði haft eitthvað um framleiðsluna og þróun hennar að segja síðustu áratugina.

Þegar grannt er skoðað er réttur fiskverkafólks á Íslandi mjög lítill, launin lág og atvinnuöryggi fer þverrandi. Samt er þetta sú stétt fólks sem hefur ásamt sjómönnum skapað hvað mestan auð og velsæld fyrir íslenska þjóð og ríki. Í stefnuyfirlýsingu hæstv. forsrh. Davíðs Oddssonar segir, með leyfi hæstv. forseta:

,,Stjórnarflokkarnir leggja áherslu á samheldni og eindrægni þjóðarinnar, samvinnu vinnuveitenda og launþega, dreifbýlis og þéttbýlis.``

Ég bendi á í þessu sambandi að samvinna vinnuveitenda og launþega getur aukist til muna við það að verkafólk komi í auknum mæli að stjórn fyrirtækjanna, meira en nú er. Aukið lýðræði hvar sem er í landinu, hvort heldur það er á vinnustöðum eða annars staðar er til blessunar og gleði.

Herra forseti. Í Morgunblaðinu í gær er viðtal við hæstv. sjútvrh. undir stríðsletursfyrirsögn: ,,Víðtækari sátt er markmiðið.`` Hjörtur Gíslason innti hæstv. ráðherra eftir því hvort mikilla breytinga væri að vænta á skipan mála. Ráðherrann telur það ólíklegt samkvæmt Morgunblaðinu. Því er full ástæða til að spyrja hæstv. sjútvrh. eftirfarandi spurninga:

Hvaða nýjar leiðir leita helst á huga hæstv. ráðherra til að styrkja byggðirnar?

Hvernig telur hæstv. ráðherra að beri að velja þá sem skulu fá úthlutun úr þeim 1.500 tonna kvóta sem tekinn var frá til að leysa bráðan vanda?

Mun hæstv. ráðherra beita sér fyrir því að meiri aflaheimildir verði til ráðstöfunar í þessu skyni á næsta fiskveiðaári?

Hæstv. ríkisstjórn þarf að gera sér grein fyrir því að styrkja þarf atvinnulífið í landinu með aukinni sókn í sjávarútvegi.