Byggðavandi og staða fiskverkafólks

Mánudaginn 14. júní 1999, kl. 14:34:01 (176)

1999-06-14 14:34:01# 124. lþ. 4.92 fundur 44#B byggðavandi og staða fiskverkafólks# (umræður utan dagskrár), SJS
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 124. lþ.

[14:34]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég þakka hv. málshefjanda, hv. þm. Karli Matthíassyni, fyrir að taka þetta mál hér upp. Það er tilefni til. Ef litið er fram hjá þeim einstöku stöðum sem í hlut eiga hverju sinni, hvort sem það eru Þorlákshöfn eða Þingeyri í dag eða Breiðsdalsvík og Bíldudalur í gær, þá erum við að ræða almennt um það öryggisleysi sem fiskverkafólk og íbúar sjávarútvegsbyggðarlaganna hafa lengi búið við. Það er mjög alvarlegt. Sennilega er fátt jafnhættulegt byggðaþróun í landinu við sjávarsíðuna og einmitt þetta nefnda öryggisleysi sem veldur óvissu og vantrú á framtíð viðkomandi byggðarlaga.

Í öðru lagi tel ég einnig að menn þurfi að horfast í augu við alvarlega þróun í landvinnslu á sjávarafurðum almennt. Það hefur gengið umtalsvert á hlut landvinnslunnar. Því veldur m.a. skortur á hráefni, svo ótrúlegt sem það nú er, og slök samkeppnisstaða landvinnslunnar gagnvart annars konar ráðstöfun á hráefninu, vinnslu þess á sjó eða útflutningi á því óunnu.

Úthlutun á 1.500 tonna byggðakvóta hjá Byggðastofnun er svo sem góðra gjalda verð en getur aldrei orðið annað en plástur á sárin. Í mínum huga þarf að móta heildstæða sjávarútvegsstefnu þar sem tekið væri tillit til stöðu fiskvinnslunnar ekki síður en veiðanna og hagsmunir allra, þar með talið fiskvinnslufólks og sjávarútvegsbyggðanna, væru einnig látnir ráða ferð.

Ég held að efling bátaútgerðar, smábátaútgerðar og grunnslóðaútgerðar með einhverri byggðatengingu þeirra réttinda sé ein vænlegasta leiðin til að vinna sig út úr þeirri stöðu sem uppi er. Með því vinnst margt í senn, meira öryggi fyrir sjávarútvegsbyggðarlögin. Meira hráefni ætti að koma til vinnslu í land, það er atvinnuskapandi og jákvætt í umhverfislegu tilliti.

Ég hvet því hæstv. sjútvrh. til að hafa þessa hluti að leiðarljósi þegar hann setur í gang þá endurskoðun á sjávarútvegsstefnunni sem fyrir dyrum stendur og að vanda það verk.