Byggðavandi og staða fiskverkafólks

Mánudaginn 14. júní 1999, kl. 14:36:27 (177)

1999-06-14 14:36:27# 124. lþ. 4.92 fundur 44#B byggðavandi og staða fiskverkafólks# (umræður utan dagskrár), ÁGunn
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 124. lþ.

[14:36]

Árni Gunnarsson:

Virðulegur forseti. Við endurskoðun á lögum um sjávarútveginn þarf að hafa í huga að sjávarútvegurinn er atvinnugrein sem er í samkeppni á alþjóðlegum markaði. Við gerum þá kröfu til sjávarútvegsins að hann beri sig.

Afkoma landvinnslunnar er mjög mismunandi um þessar mundir og ég get nefnt sem dæmi að í Norðurl. v., þar sem ég þekki ágætlega til, er rekin landvinnsla á vegum fiskiðjunnar Skagfirðings á Sauðárkróki sem skilar mjög góðri framlegð. Það er reyndar undarlega misjöfn afkoma hjá fiskvinnslufyrirtækjunum í dag.

Ég vil einnig nefna að ég tel það mjög jákvætt skref að tekinn var upp byggðakvóti og hvet til þess að áfram verði nýtt það svigrúm sem kann að skapast innan kvótakerfisins til að styrkja byggð með úthlutun byggðakvóta.

Það sem hér er til umræðu er hluti af stærra máli sem mig langar að koma inn á, herra forseti. Það er þróun atvinnuveganna og hlutur hins opinbera og stjórnvalda í þeirri þróun með tilliti til byggðamála. Þetta hefur verið þannig að vinnuþátturinn í framleiðslugreinunum hefur sífellt verið að minnka, vél- og tæknivæðing að aukast, en ný störf hafa myndast annars staðar. Þetta ætti hið háa Alþingi að taka til gaumgæfilegrar skoðunar.

Hvar verða nýju störfin til? Hvar verða nýju störfin til á móti þeim sem detta út við vélvæðinguna? Ég vil nefna einn þátt og það er hinn svokallaði eftirlitsiðnaður. Við höfum Fiskistofu, Vinnueftirlit ríkisins, löggildingareftilit, brunavarnaeftirlit og rafmagnseftirlit. Við erum með stórar ríkisstofnanir sem veita þjónustu á landsbyggðinni og ég tel eðlilegt að þjónustu við atvinnuvegina úti á landi sé stýrt úr heimabyggð og hún rekin þar. Þetta vildi ég leggja til umræðunnar, virðulegi forseti.