Byggðavandi og staða fiskverkafólks

Mánudaginn 14. júní 1999, kl. 14:50:59 (183)

1999-06-14 14:50:59# 124. lþ. 4.92 fundur 44#B byggðavandi og staða fiskverkafólks# (umræður utan dagskrár), sjútvrh.
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 124. lþ.

[14:50]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen):

Herra forseti. Ég vil þakka ágæta umræðu. Mér þykir leiðinlegt ef hv. málshefjanda finnst svör mín ekki nógu skýr og nógu einörð, en ég held að það sé eðli málsins samkvæmt þar sem verið er að hefja endurskoðun á fiskveiðistjórnarlöggjöfinni að ekki sé skynsamlegt fyrir mig að kveða of sterkt að orði.

Hann hefur eðlilega eins og ég áhyggjur af því fólki sem býr við óvissu. Ég lét athuga stöðuna á Vinnumálastofnun í dag og þar hafa þeim ekki borist neinar tilkynningar um uppsagnir eða aðvaranir um hópuppsagnir nýlega. Ég vonast því til þess að staðan sé sú að úr muni rætast og ef ekki rætist úr hjá þessum fyrirtækjum, þá verði um störf að ræða í nágrenninu.

Ég vil gjarnan reyna að svara þeim fyrirspurnum sem hér komu fram. Í fyrsta lagi er fyrirspurn frá hv. þm. Guðjóni A. Kristjánssyni um hvort til greina komi að veiðar verði leyfðar frjálsar innan ákveðinnar línu frá byggðunum. Mér finnst frekar ólíklegt að það verði gert. Mér finnst frekar ólíklegt að við finnum annað jafngott kerfi sem er í grundvallaratriðum ólíkt því sem við búum við í dag. En þó vil ég ekkert útiloka fullkomlega úr umræðunni, eins og ég hef sagt áður.

Hv. þm. Jóhann Ársælsson kom með þrjár spurningar, annars vegar þar sem hann talaði um nauðsynlega hagræðingu og eðlilegar breytingar eða lagði mér þau orð í munn. Ég tel mjög mikilvægt að atvinnugreinin fái að þróast og ekki sé verið að leggja hömlur við þá þróun. Hvort þróunin er jákvæð eða neikvæð meta menn síðan út frá sínum eigin útgangspunkti en ég vona að í heildina verði hún jákvæð.

Seinni tvær spurningar hv. þm. Jóhanns Ársælssonar eru efnislega svipaðar og kom fram hjá hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni og hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni varðandi landvinnsluna eða vinnslu frystiskipa og verksmiðjuskipa og síðan varðandi hlut samkeppnisráðs. Ég tel miðað við það sem fram hefur komið eðlilegt að skoða samkeppnisstöðu vinnslunnar í landi og í vinnsluskipunum og sjá hvort þar er eitthvað sem verður að laga til að staðan verði ekki ójöfn. Og varðandi samkeppnisráð, hæstv. forseti, þá veit ég til þess að þar inni liggur mál þar sem beðið er um umfjöllun ráðsins. Ég ætla ekki að blanda mér í það hvort eða hvernig samkeppnisráð vinnur það mál en þeir hljóta að gera það eftir þeim lögum sem um ráðið fjalla.