Verkaskipting hins opinbera og einkaaðila

Mánudaginn 14. júní 1999, kl. 14:54:29 (184)

1999-06-14 14:54:29# 124. lþ. 4.3 fundur 5. mál: #A verkaskipting hins opinbera og einkaaðila# þál., Flm. ÖJ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 124. lþ.

[14:54]

Flm. (Ögmundur Jónasson):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um að skipuð verði nefnd um verkaskiptingu hins opinbera og einkaaðila. Að þessari þáltill. standa auk mín aðrir hv. þm. sem skipa þingflokk Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs en tillagan er svohljóðandi:

Alþingi ályktar að komið verði á fót nefnd með fulltrúum allra þingflokka sem taki til skoðunar hlutverk og verkaskiptingu ríkis, sveitarfélaga og einkaaðila. Þar til nefndin hefur skilað álitsgerð verði öllum frekari áformum ríkisstjórnarinnar um einkavæðingu og einkaframkvæmd slegið á frest.

Þannig hljóðar þáltill. Í greinargerð með tillögunni eru færð rök fyrir henni og þar segir m.a., með leyfi forseta:

,,Á undanförnum árum hefur nokkrum opinberum stofnunum verið breytt í hlutafélög með það fyrir augum að markaðsvæða starfsemi þeirra og í sumum tilvikum hafa þau verið seld. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er boðað framhald á þessari stefnu auk þess sem gert er ráð fyrir svokallaðri einkaframkvæmd á ýmsum sviðum almannaþjónustunnar, svo sem í skólum og á sviði öldrunar- og heilbrigðisþjónustu.

Af hálfu ríkisstjórnarinnar hefur verið unnið að breytingum af þessu tagi á vegum einkavæðingarnefndar en þar hafa fulltrúar beggja stjórnarflokkanna komið að málum en ekki fulltrúar stjórnarandstöðuflokka.

Mjög brýnt er að um allar grundvallarbreytingar sem gerðar eru á samfélagsþjónustunni fari fram vönduð og lýðræðisleg umræða til að tryggja tvennt: Í fyrsta lagi séu breytingar gaumgæfðar frá öllum sjónarhornum áður en í þær er ráðist. Vönduð vinnubrögð eru forsenda þess að vel takist til um þær breytingar sem gerðar eru. Í öðru lagi er eðlilegt að freista þess að breytingar séu þannig úr garði gerðar að um þær sé tryggð víðtæk þjóðfélagssátt.``

Þetta segir m.a. í greinargerð með þáltill. um skipan fyrrgreindrar nefndar.

Ef við lítum ögn á þau atriði sem hér eru tíunduð, þ.e. að breytingar séu gaumgæfðar frá öllum sjónarhornum og reynt að tryggja vönduð vinnubrögð, enda séu þau forsenda þess að vel takist til um þær breytingar sem gerðar eru, þá held ég að fáir deili um það að ekki hefur tekist vel til á liðnum árum þegar ráðist hefur verið í einkavæðingu, hvort sem um er að ræða að breyta stofnunum á vegum hins opinbera í hlutafélög, hvað þá þegar um sölu var að ræða. Við höfum mörg dæmi þess á liðnum árum að um það hafa risið miklar deilur og mikil gagnrýni í kjölfarið. Þekktustu dæmin eru að sjálfsögðu SR-mjöl þar sem fáir geta á móti því mælt að það stóra fyrirtæki hafi nánast verið fært nýjum eigendum á silfurfati, en söluverð SR-mjöls á sínum tíma var árið 1993 725 millj. Síðar kom fram að framlag ríkisins bæði fyrir og eftir þessa sölu slagaði hátt upp í þessa upphæð og nam 632 millj. kr. 632 millj. var framlag hins opinbera en söluverðið 725 millj. Markaðsverð þessa fyrirtækis núna eru tæpir 4 milljarðar kr. Þarna var hagsmunagæslu ekki sinnt sem skyldi fyrir almenning.

Annað nýlegra dæmi er Áburðarverksmiðjan sem var seld á 1.257 millj. Það var upplýst fyrr á þessu ári. Síðar kom í ljós að lager fyrirtækisins var metinn á 750 millj. og peningar í sjóði 19 millj. kr. Í stað þess að raunverulegt söluverð væri 1.257 millj., þá erum við komin langt undir hálfan milljarð. Ekki hefur því tekist vel til að þessu leyti.

Það hefur einnig tekist illa til gagnvart starfsfólki. Það hefur sannast í tilviki Áburðarverksmiðjunnar. Nú er það að gerast sem margir óttuðust að starfsfólki er sagt upp. Það er þegar búið að segja upp fjórum starfsmönnum og ekki lofar það góðu um framhaldið eða er góður vitnisburður um afstöðu nýrra eigenda á hvern hátt þeir tóku beiðni eða kröfu stéttarfélagsins um að haldinn yrði fundur um þetta alvarlega mál sem upp var komið, uppsagnir í fyrirtækinu. Þar var stéttarfélaginu vísað á dyr og er það núna á leiðinni fyrir Félagsdóm. Ég hafði samband við talsmenn Dagsbrúnar um það mál og þeir sögðust ekki eiga slíku að venjast. Það er svolítið merkilegt að þau fyrirtæki eða stofnanir sem eru gerð að hlutafélögum og síðan seld í kjölfarið, þar virðist jafnvel enn meiri harka en tíðkast víða á markaði gagnvart starfsfólkinu. Það á t.d. við um póst og síma. Þar er rekin stefna sem því miður er ekki vinsamleg starfsfólki nema síður sé og má geta þess að gefnar hafa verið út sérstakar siðareglur hjá Landssímanum, þar sem segir m.a., með leyfi forseta:

[15:00]

,,Þegar starfsmenn taka mikinn þátt í félags- eða stjórnmálum...``, --- hlustið: ,,...skulu þeir hafa samráð við framkvæmdastjóra sinn ef búast má við að til árekstra geti komið vegna starfa í fyrirtækinu.``

Hér erum við að tala um stofnun sem enn er í eigu okkar, íslenska ríkisins. Við erum fulltrúar þess hér í þessum sal. Hér er varað við því að starfsfólkið taki mikinn þátt í stjórnmálum og það skuli gjöra svo vel að hafa samband við yfirmann sinn geti það orðið til þess að hagsmunir fyrirtækisins og starfsmanna sköruðust.

Þetta finnst mér mjög alvarlegt mál. Mér finnst alvarlegt fyrir lýðræðið í landinu þegar þessi afstaða er orðin ríkjandi í stofnunum og fyrirtækjum.

Á þessu vildi ég vekja athygli í upphafi. Við teljum mjög mikilvægt að breytingarnar séu gaumgæfðar frá öllum sjónarhornum, viljum að starfsmenn séu hafðir með í ráðum og reynt að tryggja vönduð vinnubrögð til að koma í veg fyrir að þróunin verði á þann veg sem ég hef lýst hér, varðandi söluna, starfsöryggi starfsmanna og allan aðbúnað þeirra.

Ég nefndi annað atriði sem reyndar er tengt hinu fyrra, að mikilvægt væri að tryggja að um þessar breytingar ríkti sem víðtækust þjóðfélagssátt og leitað yrði leiða til að kanna hvort hægt væri að búa svo um hnútana.

Nú kemur fram í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar að það á að halda áfram á sömu braut og þarf ekki að koma nokkrum á óvart. Það sem verra er er að nú ætla menn að halda inn á ný svið. Reyndar var það boðað á síðasta kjörtímabili að ríkisstjórnin hygðist fara út í svokallaða einkaframkvæmd á heilbrigðissviði með öldrunarstofnanir t.d., elliheimilin og í skólakerfinu. Við höfum eitt slíkt dæmi, Iðnskólann í Hafnarfirði, þar sem menn eru reyna fyrir sér með einkaframkvæmd, enda segir í ályktun um skóla- og fræðslumál frá Sjálfstfl. á síðasta landsþingi hans:

,,Nauðsynlegt er að nýta kosti einkaframtaksins í þeirri hröðu þróun sem á sér stað.``

Þetta er úr ályktun um skóla- og fræðslumál, að menn ætli að fara inn á þessa braut einnig þar.

Ég hef undir höndum ítarlegar skýrslur sem gerðar hafa verið í Bretlandi um reynsluna þar í landi af einkavæðingu og svokallaðri einkaframkvæmd. Það er mjög fróðleg lesning. Hér kemur fram að reynslan er sú að einkaframkvæmdin er dýr fyrir skattborgarann. Hún hefur verið slæm fyrir starfsfólkið og hefur leitt til lakari þjónustu. Það sem kannski er alvarlegast er að þegar fram líða stundir þá verðum við komin með ávísun á félagslega mismunun í hendur.

Hvers vegna segi ég þetta? Hvernig stendur þá á því að menn halda þá áfram á þeirri braut, ef niðurstöðurnar eru þessar? Jú, þetta er mjög freistandi fyrir stjórnmálamenn. Einkaframkvæmdin gengur út á að fela fyrirtæki að reisa stofnun og reka hana, hvort sem um er að ræða fangelsi, sjúkrahús eða skóla. Engar skuldir falla á hinn opinbera aðila, hvort sem er ríki eða sveitarfélag, fyrirtækið tekur fé að láni. Einu skuldbindingar opinberra aðila eru að sjá stofnuninni fyrir viðskiptavinum, hvort sem það eru skólanemar, fangar eða sjúklingar. Þetta eru skuldbindingarnar. Engu að síður kostar þetta mikla peninga og dýrara fjármagn en ef ríki eða sveitarfélög taka fé að láni. Heildarpakkinn er dýrari en ella hefði orðið. Freistingin er þessi fyrir stjórnmálamann, sem getur fengið opnaðan skólann sinn, fangelsið, sjúkrahúsið, án þess að sýna skuldir.

Hvað gerist síðan þegar fram líða stundir, þegar kemur að skuldadögunum, því að þeim kemur að sjálfsögðu? Jú, þá láta menn notendur borga í formi skólagjalda eða sjúklingagjalda, svo dæmi séu nefnd. Skyldi sama hugsun vera uppi á teningnum hér? Er þetta úthugsað á þennan hátt einnig hér á landi? Já.

Í fyrra gaf fjmrn. út þennan bækling sem heitir ,,Einkaframkvæmd, skýrsla nefndar fjármálaráðherra``. Skýrslunni fylgir hæstv. fjmrh. Geir H. Haarde úr hlaði með undirskrift sinni og formála. Hér segir, með leyfi forseta:

,,Leggja ber áherslu á að sem stærstur hluti tekna rekstraraðila sé fenginn með notendagjöldum sem aftur er háð frammistöðu þess sem veitir þjónustuna með tilliti til gæða og verðs.``

Hér er verið að boða þá stefnu að þegar fram líði stundir skuli menn standa straum af þessum kostnaði með notendagjöldum, með skólagjöldum og sjúklingagjöldum. Þess vegna segi ég að þetta fyrirkomulag sé ávísun á félagslegt misrétti þegar fram líða stundir. Þess vegna vörum við við svona þróun.

Annað hafa menn átt í erfiðleikum með, að finna leiðir til að hafa eftirlit fyrir hönd notandans. Þar er um tvær leiðir að ræða í grófum dráttum. Fram til þessa hefur starfsfólkið sjálft sinnt þessu eftirliti. Kennararnir hafa reynt að sjá til þess að bekkjardeildir séu ekki of fjölmennar. Starfsfólk á heilbrigðisstofnunum hefur reynt að sjá fyrir því að vel fari um sjúklinga þeirra og þeirra hags sé gætt í hvívetna. Hér erum við hins vegar að fara inn á allt aðrar brautir. Við erum að virkja markaðslögmálin án þess að gera það þó í reynd. Ef markaðslögmálin eiga að virka þá þarf það að gerast á grundvelli samkeppninnar. Þá verður fólk að geta valið á milli stofnana. Ætlum við að fara inn á þá braut? Ég held ekki.

Hvernig sem á málið er litið er verið að stíga óheillaspor. Þetta er dýrara, hefur í för með sér lakari þjónustu og er ávísun á félagslegt misrétti. Þess vegna leggjum við þessa tillögu fram, svo farið verði í saumana á þessum málum, þau skoðuð frá öllum hliðum, menn rökræði og tefli fram röksemdum og upplýsingum. Ef menn óttast ekki eigin gjörðir þá ættu þeir að fallast á þessa þáltill. og sjá til þess að skipuð verði nefnd til að fara í saumana á þessum málum.

Að lokum legg ég til, hæstv. forseti, að þáltill. verði vísað til efh.- og viðskn. Alþingis.