Verkaskipting hins opinbera og einkaaðila

Mánudaginn 14. júní 1999, kl. 15:13:57 (186)

1999-06-14 15:13:57# 124. lþ. 4.3 fundur 5. mál: #A verkaskipting hins opinbera og einkaaðila# þál., fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 124. lþ.

[15:13]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Mér finnst eðlilegt að segja nokkur orð um þessa tillögu vegna þess að hún lýtur að málefnum sem eru á mínu verksviði, í það minnsta að hluta.

Ég tel reyndar að þessi tillaga sé óþörf og að nefnd eins og sú sem hér er lögð til sé líka óþörf. Málið er í ákveðnum farvegi á vettvangi ríkisstjórnarinnar eins og eðlilegt er. Að sjálfsögðu verður leitað atbeina Alþingis þegar samþykkis Alþingis er þörf og að því kemur að selja eignir ríkisins eða einkavæða starfsemi á vegum þess.

[15:15]

Þessi atburðarás er vel þekkt hér í þinginu og allir vita hvernig það gengur fyrir sig. Það þarf lagaheimildir til þess að selja eignir ríkisins eða breyta stofnunum í fyrirtæki, hlutafélagavæða stofnanir o.s.frv. Þingið kemur því að þessum málum með fullkomlega eðlilegum hætti í gegnum það ferli. Ég held að það væri ekki til góðs að setja á laggirnar nýja nefnd eins og hér er lagt til þar sem menn gætu skipst á skoðunum um sinn pólitíska ágreining í þessu máli sem vissulega er fyrir hendi og ég geri ekki lítið úr.

Ég hef ekki hugsað mér að karpa við menn í dag um árangur einstakra einkavæðingarverkefna. Ég er ósammála því sem fram kom í ræðu frsm. að reynslan af þeim væri yfirleitt slæm. Ég tel þvert á móti að hún sé yfirleitt góð. Ég get hins vegar ekki látið hjá líða að andmæla skoðunum þingmannsins á svokallaðri einkaframkvæmd sem hann finnur allt til foráttu. Ég held einmitt þvert á móti að það fyrirbæri gæti verið okkur mjög gagnlegt eins og þegar hefur komið á daginn. Einkaframkvæmd er angi af stefnu sem gengur út á það að ríkið fari frekar út á þá braut að skilgreina umfang og gæði þjónustu fremur en að standa sjálft í öllum rekstri, þar á meðal þeim sem einstaklingar og frjáls félög geta sem hægast annast. Það sem felst í einkaframkvæmd er það að hið opinbera gerir samning við tiltekinn aðila um að veita ákveðna þjónustu sem ríkið er búið að skilgreina fyrir fram hver eigi að vera. Þetta getur gengið þegar um er að ræða verkefni sem krefjast umtalsverðrar fjárfestingar og langs samningstíma. Einkaaðilum er þannig falið að fullnægja skyldum hins opinbera hvað varðar það að útvega þá þjónustu sem um ræðir fyrir borgarana.

Skýrasta dæmið um þetta fyrirbæri eru kannski Hvalfjarðargöngin. Það má kenna þau við ákveðið afbrigði einkaframkvæmdar. Ég vænti þess að allir í þessum sal séu býsna ánægðir með hvernig til hefur tekist í því dæmi. Þar var um að ræða mjög vel skilgreint og afmarkað verkefni sem stofnað var félag um, bæði með atbeina ríkis og ýmissa annarra aðila, og árangurinn er eins og allir vita afburða góður, hefur skilað sér og mun skila sér í heilmiklum ávinningi þjóðhagslega séð að maður tali nú ekki um þau svæði sem njóta mest góðs af þessari gríðarlegu samgöngubót.

Framsögumaður nefndi einkaframkvæmdarverkefni sem búið er að semja um og þar er átt við samning ríkisins og Hafnarfjarðarbæjar við einkaaðila um byggingu og umsjón með rekstri Iðnskólans í Hafnarfirði. Þar var um að ræða algjöra nýjung á vettvangi sem þessum og niðurstaðan úr því útboði sem þar fór fram sýndi að mínum dómi fram á ótvíræða kosti þessa fyrirbæris.

Við höfum reiknað það út að hreinn sparnaður ríkisins við það að leita til einkamarkaðarins í þessu tilfelli í stað þess að ráðast sjálft í verkefnið muni nema hvorki meira né minna en 300 millj. kr. á samningstímanum, 25 árum. Þar fyrir utan tel ég að heilmikill ávinningur sé í því að ábyrgð á rekstri flyst á hendur einkaaðilans og minnkar almenna umsýslu hins opinbera. Ríkið verður í þeirri aðstöðu núna að hafa eftirlit með þessari þjónustu, þeirri þjónustu sem kveður á um í samningnum, en þarf ekki sjálft að standa í því að veita hana. Borgurunum er sem sagt tryggð sú þjónusta sem þarna er um að ræða samkvæmt fyrir fram skilgreindum skilmálum.

Það kom líka mjög glöggt í ljós í þessu verkefni hvernig samspil aðila úti á einkamarkaðnum varð til þess að leitað var frumlegra leiða til að leysa ýmis mál. Þarna komu saman í hóp aðilar sem voru sérhæfðir á ýmsum sviðum, fjármálastofnun, verktakar, ráðgjafar og rekstraraðilar. Hver kom með sína sérþekkingu inn í málið og þegar þeir lögðu saman komu þeir með lausnir á þessum úrlausnarefnum sem voru bæði nýstárlegar og ódýrar og áreiðanlega þess eðlis að ríkið hefði ekki sjálft látið sér detta þær í hug eða starfsmenn þess. Það var t.d. gert ráð fyrir því að eldra húsnæði skólans yrði allt betrumbætt og stækkað með viðbyggingum og sú leið hefði áreiðanlega verið farin ef ríkið hefði sjálft staðið að þessu. En vegna þess að hér er um að ræða samning til langs tíma þá gátu menn leyft sér að hugsa langt fram í tímann og það kom á daginn að þeir aðilar sem gerðu tilboðið og fengu þetta verk töldu óhagkvæmt að nota gömlu byggingarnar þegar til langs tíma væri litið. Allir þeir sem tóku þátt í útboðinu gerðu ráð fyrir því að gömlu húsin yrðu ekki lengur notuð á þennan hátt heldur yrðu byggð ný og það var tekið fullt tillit til kostnaðar og alls reksturs húsnæðisins, ræstingu, viðhalds o.s.frv. Það væri hægt að byggja nýtt, hagkvæmara og sérhannað húsnæði í stað þess að lappa upp á eldra húsnæði sem ekki var sérhannað.

Ég tel því að þessi reynsla sýni að það er vel hægt að gera þetta með góðum árangri á Íslandi eins og annars staðar. Það er mikilvægt að vanda vel til verka. Ég tek undir það með hv. þm. Það er rétt að vanda vel til verka allt frá fyrstu gerð útboðslýsingar til samninga og eftirlits. Ég hef greint frá því opinberlega að ég muni beita mér fyrir því að settar verði sérstakar vinnureglur til að styðjast við í þeim verkefnum sem fram undan eru á þessu sviði þar sem kvaddir verði til þeir sem þekkingu hafa og reynslu við að undirbúa svona reglur og með þeim þarf að taka á öllum atriðum sem þarna skipta máli, undirbúningi verkefna, vali ráðgjafa, útboðsaðferðum, samskiptum við markaðinn, vali á samstarfsaðilum, samningsgerð og eftirliti með samningum. Auðvitað verða að vera um þetta ákveðnar og skýrar leikreglur. En í eðli sínu held ég að það þyki mjög gott mál og horfi til hagsýni og sparnaðar í ríkisrekstrinum.