Verkaskipting hins opinbera og einkaaðila

Mánudaginn 14. júní 1999, kl. 15:22:42 (187)

1999-06-14 15:22:42# 124. lþ. 4.3 fundur 5. mál: #A verkaskipting hins opinbera og einkaaðila# þál., RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 124. lþ.

[15:22]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að bregðast við þeim orðum ráðherrans að með einkavæðingu sé því létt af hinu opinbera að standa fyrir þjónustu og að eftir einkavæðingu hafi ríkisvaldið eingöngu eftirlit með henni og eigi þar með að tryggja að góð þjónusta sé veitt.

Ég tel að það eigi alls ekki að vera markmið að opinberi geirinn sé af einhverri sérstakri stærð eða að eitthvað eigi algjörlega að vera á hendi hins opinbera né heldur að það eigi að vera markmið í sjálfu sér að einkavæða. Þarna á að vera ákveðið jafnvægi sem ég er sannfærð um að deilt er um í þessum sal. Mörgum okkar finnst að þetta ferli og sú skoðun hvað eigi að vera á hendi ríkisins og hvað eigi að vera á hendi einkaaðila sé umræða sem ekki hefur verið tekin. Ég hefði viljað að við hefðum farið meira í gegnum þessa umræðu á liðnum árum heldur en raun ber vitni vegna þess að það er eins og einkavæðingaráform detti stundum niður úr himinhvolfinu og atburðarás eins og sú sem hófst fyrir örfáum dögum varðandi Samkeppnisstofnun og Landssímann herði á einhvers konar varnarstöðu ríkisvaldsins, þ.e. ákvörðun um að nú gerist þetta og nú á bara að einkavæða sem fyrst. Ef þetta er hugsunin þá er ég andvíg henni.

Ég kem hér upp vegna orða ráðherrans um Hvalfjarðargöng og hversu vel útfært verkefni þau hafi verið. Af því að ég man það ekki þá langar mig að spyrja ráðherrann hver þáttur ríkisins sé, hver sé eignarhlutur ríkisins og Vegagerðarinnar, sem sagt ríkisfyrirtækja í fyrirtækinu sem gróf og rekur Hvalfjarðargöngin. Hver er raunverulegur hlutur einkaaðila og hver er hinn raunverulegi hlutur ríkisins? Ég spyr vegna þess að ég man ekki alveg þessar tölur.