Verkaskipting hins opinbera og einkaaðila

Mánudaginn 14. júní 1999, kl. 15:27:24 (189)

1999-06-14 15:27:24# 124. lþ. 4.3 fundur 5. mál: #A verkaskipting hins opinbera og einkaaðila# þál., RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 124. lþ.

[15:27]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Vissulega geri ég mér grein fyrir því að það skiptir máli hvort við erum að tala um fyrirtæki á markaði og í samkeppni. Það er líka alveg óþarfi, ef ríkið á fyrirtæki sem getur staðið sig í samkeppni á heilbrigðan hátt, að selja gæsina sem verpir gulleggjum ef um hana er að ræða. En ég ætla að halda mig við Hvalfjarðargöngin.

Við erum kannski að tala um það hvaðan peningar koma til verks, hvort sem það á við um göng eða eitthvað annað, hverjir sjá um framkvæmdina, hverjir sjá um rekstur og hvert afraksturinn renni. Mér finnst miður að fjmrh. skuli ekki hafa neitt handbært um það hvernig eignaraðildin er. Ég hélt að svo mikið væri fjallað um þetta fyrirtæki að þeir sem hafa verið, eins og maður segir, inn í því mundu kannski hafa þetta nokkuð á reiðum höndum. Mig minnir nefnilega að ég hafi lesið það einhvern tíma í fyrra að eignaraðild hafi þróast þannig að ríkið eigi miklu stærri hlut í fyrirtækinu sem hefur staðið fyrir þessu verkefni heldur en stóð til í upphafi. Í upphafi ætlaði ríkið að taka mjög lítinn þátt í þessu verkefni en það þróaðist þó þannig að ríkið veitti einhverjar ábyrgðir. Síðan kom það einhvern tíma fram að beinn eða óbeinn hlutur ríkisins í gegnum undirfyrirtæki --- ég lít á Vegagerðina og þátt Vegagerðarinnar í þessu verkefni sem þátt ríkisins --- hafi orðið miklu meiri.

Ég er ekkert að tala með eða móti Hvalfjarðargöngunum eða um það hvort þau séu gott eða vont verkefni. Ég er bara að reyna að átta mig á því hver sé þáttur ríkisins í því sem ráðherrann kallar gott dæmi um einkaframkvæmd og mér finnst mjög miður að það skuli ekki koma fram í þessari umræðu.