Verkaskipting hins opinbera og einkaaðila

Mánudaginn 14. júní 1999, kl. 15:49:19 (196)

1999-06-14 15:49:19# 124. lþ. 4.3 fundur 5. mál: #A verkaskipting hins opinbera og einkaaðila# þál., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 124. lþ.

[15:49]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla í sjálfu sér ekki að gera neina athugasemd við ræðu hv. þm. en þetta er í raun og veru umræða um grundvallaratriði og mér fannst örla á nýjum skilningi og nýrri hugsun hjá hv. þm. sem er þá í stíl við það sem hv. þm. Ögmundur Jónasson hefur verið að segja. Menn eiga ekki að binda sig í kreppu, menn eiga að leyfa sér að hugsa þessa hluti upp á nýtt. Mér finnst nú ekki örla á því hjá hv. þm. Ögmundi Jónassyni oft og tíðum en mér fannst það hjá hv. þm. sem hér talaði síðast.

Ég er þeirrar skoðunar að menn eigi að leyfa sér þann munað að hugsa einkavæðinguna alveg í botn og afstaða mín er í grófum dráttum eftirfarandi. Ég tel að allt í lagi sé að velta því fyrir sér að einkavæða fyrirtæki sem eru í samkeppnisrekstri. Dæmi: Ég tel að það sé allt í lagi að einkavæða þann hluta Landssímans sem er í samkeppnisrekstri en ég er ekki reiðubúinn til þess að segja slíkt hið sama um t.d. dreifikerfi símans sem býður upp á einokun. Ég er algerlega andvígur því að menn ráðist í að einkavæða fyrirtæki sem búa við einokun. Dæmi um það eru auðvitað bresku vatnssölufyrirtækin og er alveg rétt hjá hv. síðasta þingmanni að það tókst hörmulega til þar og er besta dæmið um það hvernig á ekki að einkavæða.

Ég dreg hins vegar algerlega línuna við menntakerfið og heilbrigðiskerfið. Þegar kemur að því er ég ekki reiðubúinn til þess að ræða um einkavæðingu og einkaframkvæmd og hún hefur verið reifuð af hálfu hæstv. ráðherra, þá finnst mér vera ógurlega lítill munur á því fyrirbæri og hreinni einkavæðingu.

Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sagði: Það er víst þörf á svona nefnd og menn skulu þá t.d. komast að þeirri niðurstöðu hvort eigi að draga línuna við þau fyrirtæki sem eru í einokun eða þær stofnanir sem sinna heilbrigðisþjónustu og skólakerfi. Hann sagðist hins vegar að velta því fyrir sér að einkavæða fyrirtæki eins og þau sem sinna fjármálaþjónustu og ýmsum tilteknum ríkisfyrirtækjum. Ég er algerlega sammála því. Var það þetta sem hv. þm. átti við? Er hann t.d. reiðubúinn að segja það hér að það komi alveg til greina að einkavæða það sem eftir er af ríkisbönkunum svo framarlega sem það sé gert skaplegar en í síðustu hrinu.