Verkaskipting hins opinbera og einkaaðila

Mánudaginn 14. júní 1999, kl. 16:23:25 (204)

1999-06-14 16:23:25# 124. lþ. 4.3 fundur 5. mál: #A verkaskipting hins opinbera og einkaaðila# þál., Flm. ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 124. lþ.

[16:23]

Flm. (Ögmundur Jónasson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég efast stórlega um að síðasta staðhæfing hv. þm. standist en þó skal ég ekki fullyrða um það.

Aðeins varðandi tvö atriði sem hann nefndi. Það er byggðastefnan. Ég er honum hjartanlega sammála um að umræðan um einkavæðingu tengist byggðastefnu. Einkavæðingarstefnan er byggðafjandsamleg þegar á heildina er litið. Og varðandi orkugeirann, sem hv. þm. vék sérstaklega að, þá hef ég oft tekið það mál upp. Ég harmaði það mjög á sínum tíma fyrir fáeinum missirum að Reykjavíkurborg skyldi hafa forgöngu um að ríða á vaðið í þeim efnum að reyna að markaðsvæða raforkuframleiðsluna í landinu.

Hitt atriðið sem hv. þm. kom inn á og reyndar hóf mál sitt á, um umræðuna almennt eða þá fullyrðingu mína um að hún væri vanþroskuð og vanþróuð, þá finnst mér hún því miður vera það. Mér finnst sú umræða sem hér hefur farið fram síður en svo vera það, mér finnst hún hafa verið góð en ég sakna þess t.d. að í þessari umræðu tekur enginn framsóknarmaður til máls. Við erum að fjalla um mál sem snertir stjórnmálin. Þetta eru grundvallaratriði stjórnmálanna. Enginn framsóknarmaður er í salnum eða tekur til máls um þetta efni. Og þegar ég segi að ástæða sé til að hafa áhyggjur af framvindunni, þá er það staðreynd að í stjórnarsáttmálanum er það sett fram og staðhæft að ríkisstjórnin ætli að beita lögmálum markaðarins og einkavæða í skólum landsins og látið að því liggja að það verði gert líka í heilbrigðisþjónustunni og reyndar byrjað að gera það. Það eru ein þrjú elliheimili sem hafa verið sett í útboð. Ég veit ekki hvort Ístak á að reisa þau og reka en það var eitt þeirra fyrirtækja sem bauð í þá starfsemi. Það er því full ástæða til að hafa áhyggjur af þessu og ég hef sérstakar áhyggjur af Framsfl., að hann láti teyma sig á asnaeyrunum í þessu máli eins og svo mörgum öðrum, því miður.