Mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar

Mánudaginn 14. júní 1999, kl. 16:28:26 (206)

1999-06-14 16:28:26# 124. lþ. 4.4 fundur 3. mál: #A mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar# þál., Flm. KolH (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 124. lþ.

[16:28]

Flm. (Kolbrún Halldórsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir þáltill. þar sem skorað er á ríkisstjórnina að láta fara fram mat samkvæmt lögum nr. 63/1993 á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar, þrátt fyrir að virkjunarleyfi hafi verið veitt.

Þáltill. sama efnis hefur tvisvar áður verið flutt á Alþingi en ekki hlotið samþykki. Flutningsmenn hennar nú telja þó fyllstu ástæðu til að flytja hana einu sinni enn, enda er Fljótsdalsvirkjun mjög í brennidepli umræðnanna nú vegna álvers sem hæstv. ríkisstjórn leggur kapp á að reist verði á Reyðarfirði og mikið er fjallað um þessa daga.

Hæstv. ríkisstjórn hefur sett nokkur orð um náttúruvernd inn í stefnuyfirlýsingu sína sem birt var 28. maí sl. Það er fróðlegt í þessu sambandi að líta á það sem þar stendur um helstu markmið hæstv. ríkisstjórnar í þeim málaflokki. Þar segir, með leyfi forseta.

,,Að efla náttúruvernd, stuðla að öflugum mengunarvörnum og vernd lífríkisins. Nauðsynlegt er að skapa sátt milli skynsamlegrar nýtingar auðlinda og náttúruverndarsjónarmiða á grundvelli sjálfbærrar þróunar með hliðsjón af hagsmunum komandi kynslóða. Ljúka þarf gerð rammaáætlunar til langs tíma um nýtingu vatnsafls og jarðhita sem tekur tillit til verndargildis einstakra landsvæða. Hvetja þarf einstaklinga til aukinnar ábyrgðar gagnvart umhverfi sínu. Fyrirtæki marki sér umhverfisstefnu til að draga úr sóun og auka verðmætasköpun.``

Þessi tilvitnun ætti að gefa þeim sem aðhyllast náttúruvernd tilefni til bjartsýni því þótt hún sé ekki beint afgerandi, þá virðist hún þrátt fyrir allt vera að tala fyrir verndarsjónarmiðum, að efla náttúruvernd og vernd lífríkisins. En mergurinn málsins er sá að yfirlýsing þessi virðist ekki ná til stefnu hæstv. ríkisstjórnar í málefnum Fljótsdalsvirkjunar. Enn einu sinni virðist eiga að halda því til streitu að Fljótsdalsvirkjun verði reist og Eyjabökkum þar með sökkt undir uppistöðulón. Þessi stefna hæstv. ríkisstjórnar hefur verið gagnrýnd hástöfum í samfélaginu árum saman. Menn hafa sent athugasemdir til skipulagsyfirvalda, bæði varðandi tilhögun virkjunarinnar og umhverfisáhrif hennar en í krafti valds síns og þeirrar einföldu staðreyndar að virkjunarleyfi hefur verið veitt áður en lögin um umhverfismat voru samþykkt virðist hæstv. ríkisstjórn ætla að hunsa allar röksemdafærslur þeirra sem hafa andmælt. Jafnframt má benda á að ríkisstjórnin hefur látið hjá líða að sinna lagaskyldu er varðar endurskoðun laga um mat á umhverfisáhrifum.

[16:30]

En stöldrum nú aðeins við. Lítum á verndargildi Eyjabakkasvæðisins, þessarar flæðisléttu sem liggur í grunnu og víðu dalverpi austan Snæfells. Þetta svæði er almennt talið önnur merkasta hálendisvin á Íslandi og gengur næst Þjórsárverum. Greinargerð þáltill., sem hér hefur verið lögð fram, fylgir grein eftir þá Helga Hallgrímsson og Skarphéðin G. Þórisson, sem birt var í Morgunblaðinu þann 9. júlí á síðasta ári. Í þeirri grein segir, með leyfi forseta:

Um Eyjabakkana kvíslast Jökulsá í Fljótsdal milli gróinna eyja og hólma, með óteljandi pollum og tjörnum. Þessi mósaík gróðurvana aura, iðgrænna hólma, grárra og blárra árkvísla og alla vega litra tjarna í grennd við hvítan jökul og litskrúðugar hlíðar Snæfells er listaverk náttúrunnar.

Fyrirhugað lónstæði þekur nánast allt undirlendi austan og suðaustan Snæfells alls um 45 km2 og um 80% þess lands er gróðurlendi. Lóninu er ætlað að spanna svæði frá Eyjabakkafossi að norðan inn að Eyjabakkajökli. Vestan Jökulsár færu Snæfellsnes, undirhlíð Snæfellsháls og Þjófagilsflói undir vatn. Að austan færu Eyjabakkar (í þrengri merkingu) og Bergkvíslanes undir vatn, og milli kvíslanna Eyjafellsflói og Þóriseyjar allar.

Þetta land sem ég nú hef talið er hið minnsta sem færi undir vatn. Ef hugmyndir um Hraunavirkjun verða að veruleika er verið að tala um enn stærra landsvæði og þar er líka að langmestu leyti um gróið land að ræða.

Herra forseti. Landslag hálendis Íslands hentar ekki sérlega vel fyrir uppistöðulón. Hálendið er í raun frekar flatt og hrjóstrugt nema í dalverpum á votlendissvæðum. Þar er ævinlega að finna fagran gróður, sjaldséða litadýrð og dýralíf. Þetta eru svæðin sem verið er að tala um að sökkva undir lón, ekki bara á Eyjabökkum heldur miklu víðar. Málið horfði kannski öðruvísi við ef við ættum djúpa dali girta háum fjöllum líkt og þeir eiga víða í Noregi. Við slíkar aðstæður mætti a.m.k. hugsa sér lón með sáralitlu yfirborði miðað við það sem verið er að ræða í því landslagi sem okkar hálendi býður upp á.

Um þriðjungur þess lands sem færi undir vatn við fyrirhugaða Fljótsdalsvirkjun er skilgreindur sem votlendi. Hvergi á Íslandi er samsvarandi votlendi að finna í svo mikilli hæði yfir sjó eða svo nálægt jökli. Dýralíf á Eyjabakkasvæðinu er mikið og fjölskrúðugt. Þar koma m.a. við sögu hreindýr, álftir og heiðagæsir í þúsundatali, jafnvel svo að fyllir tug þúsunda.

Samkvæmt Ramsar-sáttmálanum um verndun votlendis, sem Íslendingar eru aðilar að, og skilgreiningu alþjóðlega fuglaverndarráðsins eru svæði talin hafa alþjóðlegt verndargildi ef 1% eða meira af einhverjum stofni vatnafugla nýtir þau í lengri eða skemmri tíma. Eyjabakkasvæðið uppfyllir þessi skilyrði svo um munar og hefur því ótvírætt verndargildi samkvæmt öllum skilgreiningum.

Á svæðinu er líka að finna jarðfræðiminjar sem mér virðast verndarskyldar samkvæmt náttúruverndarlögum, a.m.k. er það háð umsögn Náttúruverndar ríkisins ef það á að hrófla við þeim. Þarna eru líka söguminjar og ein vinsælasta gönguleið landsins liggur um svæðið. Við virkjanaáformin mundu tapast ótal fossar því af jökulsám er einungis Jökulsá á Fjöllum talin hafa meira fossaval en Jökulsá í Fljótsdal. Á bilinu frá Kleif í Fljótsdal upp að Eyjabökkum eru um 15 fossar og fossasyrpur. Nokkrir þeirra eru meira að segja í tölu hinna stærstu og veglegustu hér á landi.

Lón á Eyjabökkum yrði, eins og fyrr segir, grunnt og mundi trúlega tæmast alveg í flestum árum seinni hluta vetrar. Þannig má gera ráð fyrir umtalsverðu áfoki af jökulleir úr lónbotninum. Einnig má gera ráð fyrir landbroti af völdum vatns og íss og jafnvel uppblæstri út frá bökkum þess.

Ég hef ekki nefnt það rask sem yrði af efnistöku og ekki heldur sjónmengun sem yrði af línulögnum þvers og kruss um fjöll og firnindi. Ekki hef ég heldur nefnt það hversu mjög allt útsýni frá Snæfelli mundi breytast frá þessu hæsta fjalli landsins utan jökla, fjalli sem er heilagt í augum margra Austfirðinga og er auk þess útivistarparadís göngugarpa af ýmsu þjóðerni.

Er ekki hægt að opna augu hæstv. ríkisstjórnar fyrir því að sáttin sem stefnuyfirlýsing stjórnarflokkanna kveður á um að þurfi að nást milli skynsamlegrar nýtingar auðlinda og náttúverndarsjónarmiða geti aldrei falið það í sér að annar aðilinn nái fram öllum sínum markmiðum á kostnað hins, á kostnað landsins, á kostnað náttúrunnar, á kostnað komandi kynslóða og á kostnað móður jarðar?

Hálendið er ein af okkar sameiginlegu auðlindum. Þar er að finna dýrmætar náttúruperlur sem komandi kynslóðir munu geta nýtt sér bæði til andlegrar og veraldlegrar hagsældar. Þessar perlur hefur okkur verið falið að varðveita fyrir börnin okkar.

Eftirfarandi málsháttur er til meðal íbúa í Kenýa og sama hugsun reyndar höfð eftir indjánahöfðingjanum Sitting Bull, með leyfi forseta: ,,Við höfum ekki fengið landið í arf frá forfeðrunum. Við höfum fengið það að láni frá börnunum okkar.``

Hvernig viljum við skila því sem okkur hefur verið trúað fyrir og okkur verið falið að varðveita? Helst í betra ástandi en það var þegar við tókum við því, ekki satt? Getum við þá ekki heimfært þennan vilja líka upp á landið okkar, upp á náttúruna og gert allt sem í okkar valdi stendur til að vernda hana?

Norðan Vatnajökuls erum við að tala um stærsta ósnortna víðerni Evrópu. Ábyrgð okkar snýr því ekki einungis að þeim kynslóðum sem koma á eftir okkur hér í okkar eigin landi heldur nær hún til annarra landa, til allrar heimsálfunnar og reyndar þegar öllu er á botninn hvolft til jarðarinnar eins og hún leggur sig. Svo mikil er okkar ábyrgð.

Herra forseti. Ég skora á alþingismenn að leggja þjóð sinni lið við að axla þá ábyrgð með því að viðurkenna breytt sjónarmið frá því sem var fyrir 18 árum þegar virkjanaleyfi Fljótsdalsvirkjunar var gefið út og samþykkja það að virkjunin fari í lögformlegt umhverfismat hið allra fyrsta. Að svo mæltu óska ég þess að tillögunni verði vísað til umhvn.