Mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar

Mánudaginn 14. júní 1999, kl. 16:38:20 (207)

1999-06-14 16:38:20# 124. lþ. 4.4 fundur 3. mál: #A mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar# þál., RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 124. lþ.

[16:38]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég kýs að koma í andsvar við flm. þessarar tillögu vegna þess að ég get því miður ekki tekið þátt í umræðunni hér á eftir. Þetta er afskaplega mikilvæg tillaga og ég lýsi því yfir að ég styð hana. Það er löngu tímabært að Alþingi taki á þessu máli. Það eru gjörbreytt viðhorf í landinu eins og kom hér fram. Almenningur hefur vaknað til vitundar um svæði sem það hugsaði lítið um áður. Fólk ferðast meira um hálendið og upplifir dýrð þess. Aðrir sem ekki hafa átt tök á því hafa kynnst þessum svæðum gegnum frábæra sjónvarpsþætti sem okkar fremstu menn í því að færa okkur óþekkta staði heim í stofu hafa unnið.

Á Alþingi eru viðhorfin líka breytt, gjörbreytt. Árið 1991 veitti iðnrh. Landsvirkjun virkjunarleyfi fyrir Fljótsdalsvirkjun og tveimur árum seinna voru sett lög um mat á umhverfisáhrifum. Eins og kemur fram í grg. með þessari tillögu þarf ekki að setja Fljótsdalsvirkjun í umhverfismat samkvæmt þessum lögum. En það þarf samkvæmt viðhorfi fólks í landinu og það þarf miðað við þá umræðu sem hefur farið hér fram á liðnum árum.

Það er óviturlegt að hamla gegn því að svo mikilvægt svæði fari í umhverfismat vegna þess að það á að vera þannig að umhverfismatið ráði því hvernig við förum með náttúru landsins, ekki dagsetning í ákvörðunum. Hún á að vera aukaatriði.

Herra forseti. Ég vil taka það sérstaklega fram að hin fallega lýsing flm. tillögunnar á Eyjabakkasvæðinu er sönn og hún á að ýta við okkur alþingismönnum. Þingflokkur Samfylkingarinnar styður þetta mál og aðrir úr þingflokknum munu taka þátt í þessari umræðu. Ég vona að sú umræða verði heiðarleg og góð og að hún verði öflug og leiði til þess að Alþingi taki á þessu máli.