Mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar

Mánudaginn 14. júní 1999, kl. 16:41:14 (208)

1999-06-14 16:41:14# 124. lþ. 4.4 fundur 3. mál: #A mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar# þál., ArnbS
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 124. lþ.

[16:41]

Arnbjörg Sveinsdóttir:

Hæstv. forseti. Það liggur fyrir að virkjunarleyfi hefur verið gefið út vegna Fljótsdalsvirkjunar og framkvæmdir hafa verið hafnar. Nú þegar er búið að framkvæma fyrir 3 milljarða á svæðinu.

Það er alveg ljóst að ef framkvæma á umhverfismat, eins og þessi tillaga gerir ráð fyrir, samkvæmt lögum nr. 63/1993, þá munu framkvæmdir frestast. Slíkt mundi einnig geta sett í uppnám samningaferlið sem er í gangi um sölu á raforku sem verður framleidd í Fljótsdalsvirkjun.

Þegar slíkt samningaferli er í gangi er mjög mikil nauðsyn á því að óvissuþættir séu sem fæstir. Samþykkt á þáltill. sem hér liggur fyrir mundi auka við þá óvissu mjög verulega vegna þess að afhendingartími raforkunnar sem framleidd yrði í virkjuninni mundi verða allt annar en nú er gert ráð fyrir. Og þá er auðvitað ónefnd sú skaðabótaskylda sem íslenska ríkið yrði væntanlega fyrir ef framkvæmdir yrðu stöðvaðar með þessum hætti.

Mat á umhverfisáhrifum er framkvæmt samkvæmt alþjóðlegri aðferðafræði og það er ferli sem metur umhverfisáhrif kerfisbundið, þ.e. hvaða áhrif framkvæmd kann að hafa á umhverfið. Markmiðið með matinu er m.a. að tryggja að tekið sé tillit til umhverfisins við hönnun, við undirbúning og við ákvarðanatöku, m.a. með rannsóknum og fyrirbyggjandi aðgerðum þannig að umhverfið hljóti ekki óbætanlegan skaða af. Þetta er ástæða þess að menn fara í umhverfismat.

Eins og ég nefndi áðan eru framkvæmdir nú þegar hafnar en í ljósi þeirrar umfjöllunar sem Fljótsdalsvirkjun hefur hlotið þá hefur stjórn Landsvirkjunar ákveðið og þegar byrjað að vinna skýrslu um mat á umhverfisáhrifum virkjunarinnar. Hins vegar er óvefengjanlegt, eins og hér hefur komið fram, að fyrirtækinu ber ekki skylda til þess lögum samkvæmt að láta framkvæma þetta umhverfismat og ekki er gert ráð fyrir að skýrsla um mat á umhverfisáhrifum þessarar virkjunartilhögunar verði lögð fram eins og um lögformlegt mat væri að ræða. Vinnu við rannsóknir og gerð matsskýrslunnar hefur hins vegar verið háttað eins og um væri að ræða venjulegt mat og hugsanlega mætti þá leggja hana fram síðar til þess að ræða hana ef mönnum þykir ástæða til þess seinna meir. En einnig ber að hafa í huga að augu almennings hafa ýmissa hluta vegna beinst að þessu svæði, ekki síst vegna umfjöllunarinnar sem hefur orðið mjög mikil að undanförnu. Þarna er um að ræða náttúruperlur sem nauðsynlegt er að rannsaka sem best og Landsvirkjun er með opin augun fyrir því. Þess vegna er nauðsynlegt að sem gleggstar upplýsingar liggi fyrir, m.a. um náttúrufar og verndargildi svæðisins og svo einnig um hvaða þýðingu þessi virkjun hefur fyrir þjóðarheill.

[16:45]

Auðvitað er eftirsjá í öllum miklum náttúruperlum okkar Íslendinga, þar á meðal Eyjabakkasvæðinu. Einnig er ljóst að virkjun fallvatna krefst óhjákvæmilega röskunar og fórna á nánasta umhverfi sínu. Eins og framsögumaður leiddi áðan rök að í máli sínu mátti heyra að hún var algjörlega á móti virkjunum á hálendi Íslands. Í greinargerð kemur fram að tillagan hafi verið flutt nákvæmlega eins á 122. og 123. löggjafarþingi og þá væntanlega af einhverjum öðrum en hún endurflytur nú tillöguna. Miðað við málflutning hv. þm. velti ég því fyrir mér af hverju hún flutti ekki tillögu um bann við virkjunum á hálendi Íslands. Á málflutningi hennar mátti heyra að það er skoðun hennar að alls ekki eigi að virkja neitt á hálendi Íslands.

Ég held að það sé almennt mat Íslendinga, eins og fram hefur komið í skoðanakönnunum, að við eigum að huga að okkar mestu náttúruperlum. Við viljum gæta að þeim, m.a. af tilfinningalegum ástæðum. En við viljum líka að landsbyggðin geti nýtt orkulindir sínar og þau landsgæði sem eru í næsta nágrenni hvers svæðis og geti styrkt sig og nýtt þau tækifæri sem þar gefast. Með virkjun í Fljótsdal gefast mikil tækifæri fyrir Austfirðinga að byggja upp atvinnulífið og á því er full nauðsyn. Við þurfum ekki annað en að horfa á tölur um fólksflutninga til þess að sjá að mikil nauðsyn er á því að bregðast við atvinnumálum í kjördæminu.

Það er líka rétt að fram komi í umræðunni að nú er hætt að tala um að flytja raforkuna úr Fljótsdalsvirkjun suður á Keilisnes eins og átti að gera þegar virkjunarleyfi var samþykkt. Þá var verið að virkja fyrir álbræðslu suður á Reykjanesi. Þetta eru hlutir sem hafa breyst með þeirri umhverfisumræðu sem hefur átt sér stað í landinu og er af hinu góða. Af því að það kom fram hjá framsögumanni að við vildum ekki leggja línur um hálendið þvers og kruss þá gerist það einmitt ekki með því að orkan verði nýtt í þeim landsfjórðungi þar sem hún er framleidd.