Mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar

Mánudaginn 14. júní 1999, kl. 16:53:29 (211)

1999-06-14 16:53:29# 124. lþ. 4.4 fundur 3. mál: #A mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar# þál., Flm. KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 124. lþ.

[16:53]

Flm. (Kolbrún Halldórsdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Í ljós kemur hjá hv. þm. að fari Fljótsdalsvirkjun í lögformlegt mat á umhverfisáhrifum verði frestun á framkvæmdum. Ég vil segja: Maður, flýttu þér hægt. Við höfum allt of oft orðið þess áskynja að ákvarðanir sem teknar eru í flýti og að óyfirveguðu ráði eru ekki góðar ákvarðanir. Þær koma í bakið á okkur þótt síðar verði og ég er hrædd um að tekin hafi verið ákvörðun sem kemur í bakið á okkur og tel reyndar að hún sé þegar farin að gera það.

Það er ekki bara frestunargildi sem hægt er að segja að lögformlegt mat á umhverfisáhrifum komi til með að hafa, það er ekki bara það að sú aðgerð fresti virkjunarframkvæmdum í Fljótsdal. Sú lagalega aðgerð hefur þau áhrif að almenningur og umhverfisverndarsinnar fá tækifæri til að tjá sig. Það er hluti af lýðræðinu sem við búum við í þessu landi að gefa fólki, gefa þjóðinni tilefni og tækifæri til að tjá sig um gerðir stjórnvalda. Það er þessi sjálfsagða skylda stjórnvalda að sjá til þess að fólk fái að tjá sig sem verið er að taka af þjóðinni með því að neita því að virkjunin fari í lögformlegt mat.

Mig langar til að nefna eitt atriði úr ræðu hv. þm. Arnbjargar Sveinsdóttur áðan þegar hún talaði um að við gætum endað á því að vera skaðabótaskyld, þ.e. ríkið gæti orðið skaðabótaskylt ef um tímafrestun yrði að ræða. Þá spyr ég: Hvernig getur það átt sér stað að ríkið verði skaðabótaskylt gagnvart sjálfu sér? Ríkið, þjóðin á Landsvirkjun. Við getum ekki orðið skaðabótaskyld gagnvart sjálfum okkur.

Við verðum að staldra við og gefa það ráðrúm sem þarf til að þessi aðgerð fái þá umfjöllun í samfélaginu sem hún á skilið samkvæmt lögum.