Mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar

Mánudaginn 14. júní 1999, kl. 16:55:40 (212)

1999-06-14 16:55:40# 124. lþ. 4.4 fundur 3. mál: #A mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar# þál., ArnbS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 124. lþ.

[16:55]

Arnbjörg Sveinsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Engan veginn er hægt að segja að varðandi Fljótsdalsvirkjun hafi menn flýtt sér óskaplega mikið. Lög voru samþykkt um Fljótsdalsvirkjun 1981 og það er nú dágóð stund síðan.

Ég hef ekki séð að mönnum hafi þótt ástæða til að tala um miklar flýtiframkvæmdir á suðvesturhorninu þegar menn hafa verið að stækka virkjanir og bæta við nýjum á Þjórsár- og Tungnaársvæðinu. Enginn hefur talað um að þar væru einhverjar flýtiframkvæmdir í gangi. Virkjunin var samþykkt 1981 og byrjað var að framkvæma 1991 og eins og raun bert vitni er þessi virkjunarframkvæmd ekki komin lengra en svo að eingöngu hefur verið framkvæmt þar fyrir þessa 3 milljarða sem þó eru dágóðir peningar.

Varðandi skaðabótaskylduna og eignarhaldið er það þannig að Landsvirkjun er í helmingseigu íslenska ríkisins, að öðrum hlutum í eigu Reykjavíkurborgar og Akureyrar. Þetta er því sjálfstætt fyrirtæki sem við getum ekki ráðslagað með nákvæmlega eins og okkur dettur í hug.