Mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar

Mánudaginn 14. júní 1999, kl. 17:07:11 (216)

1999-06-14 17:07:11# 124. lþ. 4.4 fundur 3. mál: #A mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar# þál., ArnbS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 124. lþ.

[17:07]

Arnbjörg Sveinsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Ótti minn snýst ekki um umhverfismatið. Ótti minn snýst um byggðaþróun á Austurlandi. Ég held að full ástæða sé til að við förum að framkvæma á Austurlandi, við förum að gera eitthvað, þar á meðal að virkja þær orkulindir sem við eigum.

Varðandi athugasemdirnar sem komu fram 1991, eftir þeim upplýsingum sem ég hef, voru engar athugasemdir um Eyjabakkalónið sjálft. Fram komu athugasemdir varðandi tilhögun virkjunarinnar sjálfrar og önnur umhverfisáhrif en ekki um Eyjabakkalón.

Varðandi það sem kom fram í ræðu hv. þm. um ferðaþjónustu þá liggur fyrir að ferðaþjónusta á Þjórsár- og Tungnársvæðinu hefur aukist mjög mikið eftir að virkjanaframkvæmdir hófust og aðgengi að svæðinu var bætt. Ég held að Austfirðingar geti horft til þess að aðgengi að hálendi Austurlands muni batna og nú sýnir sig að þar hafa opnast svæði sem ekki voru aðgengileg áður. Þannig geta Austfirðingar haft atvinnu af ferðaþjónustu og ferðamenn ferðast um þetta svæði. Það er einn af þeim þáttum sem ég sé að verði okkur til hagsbóta þegar af þessum virkjunarframkvæmdum verður.