Mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar

Mánudaginn 14. júní 1999, kl. 17:20:18 (224)

1999-06-14 17:20:18# 124. lþ. 4.4 fundur 3. mál: #A mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar# þál., ÖS
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 124. lþ.

[17:20]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Afstaða mín og samfylkingarsinna liggur fyrir í þessum umræðum. Hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir, formaður þingflokksins, gerði grein fyrir því fyrr í umræðunni. Við erum þeirrar skoðunar að það eigi að fara fram lögformlegt umhverfismat og þá liggur það tvímælalaust fyrir.

Í okkar hreyfingu, eins og reyndar öllum flokkum sem eiga sæti á Alþingi Íslendinga nema að ég hygg vinstri grænum, eru skiptar skoðanir. Það eru líka menn inna okkar flokks, innan okkar hreyfingar sem eru þeirrar skoðunar að sú aðferð sem hér er verið að leggja til sé ekki rétt. Það liggur hins vegar fyrir að mikill meiri hluti er þessarar skoðunar.

Ég fagna því að það hefur komið fram í þessari umræðu að veður hafa skipast þannig að hæstv. iðnrh. er búinn að bíða enn einn ósigurinn í þessu máli. Vilji almennings er að brjótast fram hérna á Alþingi Íslendinga. Það liggur fyrir að meiri hluti umhvn. er fylgjandi því að gert verði lögformlegt umhverfismat áður en ráðist verður í þessa virkjun. Hv. þm. Katrín Fjeldsted gerði kannski hvað besta grein fyrir því hvers vegna ætti að gera það. Það er nauðsynlegt að ná sátt um mál af þessu tagi.

Þetta er eitt af því sem rýfur einingu þjóðarinnar. Mjög stórum hluta þjóðarinnar finnst sem verið sé að svipta hann ákveðnum möguleikum á að hafa áhrif á umhverfi sitt ef ekki verður ráðist í þetta mat. Ástæðan er mjög einföld. Matið, ef það er lögformlegt, opnar okkur lýðræðislegan möguleika á því að gera athugasemdir við þessa framkvæmd. Ef við erum ekki samþykk því sem lagt er til þá höfum við þann möguleika að geta lagt fram kæru og að lokum verður það fulltrúi okkar, hæstv. umhvrh., sem þarf að standa frammi fyrir því hvort það eigi að hleypa þessu fram eða ekki. Það er það sem skiptir máli.

Það þarf að nást sátt um þetta en það þarf líka að undirstrika hinn lýðræðislega rétt fólksins í landinu til þess að geta haft áhrif á þessa framkvæmd. Það skiptir mjög miklu máli að það nái fram að ganga til þess að einhvern veginn sé hægt að leggja grunn sáttar í málinu.

Nú er ljóst, herra forseti, að nýr ráðherra fer með þennan málaflokk. Hæstv. umhvrh. Siv Friðleifsdóttir hefur oft og tíðum getið sér gott orð í þessum sölum fyrir vasklega og sjálfstæða framgöngu einmitt í umhverfismálum. Ég minni á að hæstv. ráðherra ásamt hv. þm. Ólafi Erni Haraldssyni hafði hér mjög sérstaka afstöðu til mjög umdeilds hálendismál og átti virðingu og þökk skilda fyrir það.

Ég vek líka athygli þingheims á því, herra forseti, að forvera hæstv. ráðherra hlekktist illa á einmitt sökum þessa máls. Þá var það þannig að fyrrv. ráðherra stóð ekki nægilega vel í fæturna þegar hann sætti árásum og tangarsókn frá félögum sínum, annars vegar hæstv. utanrrh. og hins vegar iðnrh. Það held ég að hafi orðið þeim ágæta manni sem allir þekktu að góðu einu héðan úr þessum sölum að pólitísku fjörtjóni. Það var þetta mál sem gerði það að verkum, herra forseti, að Guðmundur Bjarnason, fyrrv. umhvrh., náði ekki því flugi sem öll efni stóðu til að hann næði. Það lá alveg ljóst fyrir af umræðum í þessum sölum að samúð þáv. umhvrh. lá öll með því að lögformlegt umhverfismat færi fram og einnig virtist sá ágæti ráðherra vera sömu skoðunar og stjórnarandstaðan varðandi t.d. Kyoto-ferlið. Ég gæti nefnt fleiri mál. En það var ógæfa þáv. ráðherra að hann var ofurliði borinn í tangarsókn tveggja félaga hans í ríkisstjórninni.

Ég dreg þetta hér fram, herra forseti, vegna þess að hæstv. umhvrh. er að stíga sín fyrstu spor í nýju embætti. Þetta er fyrsta málið sem kemur til hennar kasta og það skiptir mjög miklu máli fyrir hana að málflutningur hennar í þessu sé trúverðugur.

Hæstv. ráðherra hefur á undanförnum dögum talað af nokkurri fegurð í fjölmiðlum um nauðsyn þess að efla umhverfisvernd, nauðsyn þess að fara með gát um miðhálendið og fara mjúkum höndum um móður náttúru. Hvaða afstöðu hefur hæstv. ráðherra í þessu efni? Það er mjög nauðsynlegt að hæstv. umhvrh. geri grein fyrir afstöðu sinni hérna. Hún tilheyrir nýrri kynslóð stjórnmálamanna sem hafa uppi önnur viðhorf.

Ég hef stundum sagt það í umræðum um umhverfismál að þau tengist ekki stjórnmálahreyfingum eða pólitískum flokkum heldur séu þau kynslóðabundin. Og þegar ég lít yfir farinn veg síðustu árin þá eru það með nokkrum undantekningum einkum hinir yngri í hópi þingmanna sem láta þessi mál til sín taka af þeirri nærgætni sem þarf. Það skiptir miklu máli að hæstv. umhvrh. sem er meðal yngstu þingmanna í þessum sölum og er yngsti ráðherrann, sýni sömu djörfung og hæstv. ráðherra hefur áður sýnt og lýsi því skýrt og skorinort yfir hver hennar afstaða er.

Ætlar hún að taka undir kröfu fólksins í landinu sem er að stórum meiri hluta í þá veru að gert verði lögformlegt umhverfismat eða ætlar hún að kikna í hnjánum í sínum fyrstu skrefum? Ætlar hún að byrja á því að láta undan fyrir ofurefli hæstv. iðnrh. eða ætlar hún að vera trú málstaðnum, trú sannfæringu sinni og trú kjósendum sínum? Það var nefnilega ekki síst þetta fólk sem hefur staðið fyrir mótmælaaðgerðum gagnvart ríkisstjórninni sem þrátt fyrir allt skirrtist við að yfirgefa Framsfl. og hélt tryggð við hann vegna málflutnings manna eins og hv. þm. Ólafs Arnar Haraldssonar og á köflum hæstv. ráðherra Sivjar Friðleifsdóttur. Það er kannski nokkur frekja af mér að segja, herra forseti: Þau skulda kjósendum sínum. Og kannski er það ekki tilhlýðilegt. En það skiptir a.m.k. miklu máli að fyrir liggi hver afstaða hæstv. ráðherra er.

Mér er annt um að ungur ráðherra stígi sín fyrstu skref af gát og ég skil vel að erfitt sé fyrir nýjan ráðherra að gefa tímamótayfirlýsingar um efni eins og þetta. En ég segi það, herra forseti, að afstaða hæstv. ráðherra og sá kjarkur sem hún þarf e.t.v. til þess að halda því sjálfstæði sem hefur einkennt hana mun að öllum líkindum ráða farsæld hæstv. ráðherra í sínu nýja embætti.

Herra forseti. Það hefur verið gæfa okkar að verða aðilar að ýmsum alþjóðlegum sáttmálum eins og t.d. Ramsar-sáttmálanum. Mig fýsir sérstaklega að vita um afstöðu ráðherrans til hans. Ef það verður farið í þær framkvæmdir sem hæstv. iðnrh. leggur til með þeim afleiðingum að Eyjabakkar verða að meira eða minna leyti eyðilagðir, er þá ekki alveg ljóst að samkvæmt því er verið að brjóta í bága við ákvæði Ramsar-sáttmálans? Telur ekki hæstv. ráðherra að svo sé? Er ekki alveg ljóst, herra forseti, að hæstv. ráðherra hefur í hyggjur að standa við þann sáttmála?