Mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar

Mánudaginn 14. júní 1999, kl. 17:31:06 (228)

1999-06-14 17:31:06# 124. lþ. 4.4 fundur 3. mál: #A mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar# þál., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 124. lþ.

[17:31]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Það er afar sjaldgæft að menn hér vísi í tveggja manna tal, jafnvel þó úr þingsölum sé. Ég gat þess fyrr í dag í upphafi ræðu minnar að skiptar skoðanir væru í öllum flokkum nema einum, þar á meðal mínum flokki. Og sá hv. þm. sem hv. þm. Arnbjörg Sveinsdóttir vísaði til hefur með mjög skeleggum hætti gert grein fyrir afstöðu sinni. Hann hefur gert það, ég veit ekki hversu oft, opinberlega og sennilega á hverjum einasta fundi sem hv. þm. Arnbjörg Sveinsdóttir var með honum í kosningabaráttunni. Það liggur því allt ljóst fyrir í þeim efnum.

Ef hv. þm. er hins vegar þeirrar skoðunar að formaður þingflokksins tali ekki fyrir hönd hans þá verður hann að eiga um það við æðri máttarvöld en mín.

Hv. þm. Arnbjörg Sveinsdóttir hefur komið hér og haldið flestar ræður í dag og hún á eina ræðu eftir. Ég velti fyrir mér út af þessum umræðum, herra forseti, því sem kom fram í ræðu sem hv. þm. sem hún flutti skömmu fyrir kosningar gagnvart hæstv. iðnrh., sem er hér í afhýsi og heyrir væntanlega mál okkar. Þá kom hv. þm. og spurði hæstv. ráðherra hvort það gæti verið að Norsk Hydro væri hætt við að taka þátt í framkvæmdinni og hv. þm. staðhæfði héðan úr þessum ræðustól að það væru öll teikn á lofti sem bentu til þess, og þess vegna hvatti hún hæstv. ráðherra til að leita annarra fanga.

Ég spyr þess vegna, herra forseti, er ekki kominn tími til þess að hv. þm. Arnbjörg Sveinsdóttir flytji þessa ræðu aftur og spyrji hæstv. iðnrh. áður en hann laumast úr húsi hvernig staða þessa máls er í dag og hvernig stóð á því að hann upplýsti þingið ekki um að breyttar forsendur voru af hálfu Norsk Hydro löngu fyrir kosningar eins og Morgunblaðið gat um. (Gripið fram í.) Þetta skiptir máli hér vegna þess, eins og bent var á, að menn ráðast ekki í virkjun nema til að nota rafmagnið í einhverja tiltekna framkvæmd.