Mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar

Mánudaginn 14. júní 1999, kl. 17:33:19 (229)

1999-06-14 17:33:19# 124. lþ. 4.4 fundur 3. mál: #A mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar# þál., umhvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 124. lþ.

[17:33]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það kom fram í máli síðasta ræðumanns að hann taldi að sérstaklega erfitt yrði fyrir mig að gefa hér út einhverjar yfirlýsingar en svo er ekki. Ég lýsti einmitt viðhorfi mínu í Ríkisútvarpinu fyrir mjög skömmu síðan og var það spilað í fréttatíma en það hefur farið fram hjá hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni.

Það er ljóst að árið 1983 gaf Hjörleifur Guttormsson, þáv. iðnrh., út leyfi til að virkja á Fljótsdal. Árið 1991 gaf Jón Sigurðsson, þáv. iðnrh. Alþfl., út framkvæmdaleyfi fyrir þessa virkjun og 1993 lagði Eiður Guðnason, þáv. umhvrh. Alþfl., fram frv. um umhverfismat. Þá voru í ríkisstjórn Sjálfstfl. og Alþfl. og var sett inn sérstakt ákvæði, bráðabirgðaákvæði frá umhvn. sem í sat m.a. Hjörleifur Guttormsson þáv. þm. Það er sem sagt ítrekuð stefna stjórnvalda og Alþingis að virkja á Fljótsdal. Það er einnig stefna núv. ríkisstjórnar og ég styð þá stefnu. Þetta hefur skýrt komið fram í fjölmiðlum. Þetta er því engin tímamótayfirlýsing.