Stjórnarskipunarlög

Þriðjudaginn 15. júní 1999, kl. 10:33:30 (236)

1999-06-15 10:33:30# 124. lþ. 5.3 fundur 1. mál: #A stjórnarskipunarlög# frv., Frsm. meiri hluta SAÞ
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 124. lþ.

[10:33]

Frsm. meiri hluta stjórnarskrárn. (Sigríður A. Þórðardóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frv. til stjórnarskipunarlaga um breytingu á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, með síðari breytingum, frá meiri hluta stjórnarskrárnefndar.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið til fundar við sig Kristján Andra Stefánsson og Helga Bernódusson sem unnu með nefnd þeirri sem undirbjó málið. Frumvarpið er samhljóða frumvarpi sem samþykkt var á seinasta þingi en er nú flutt að nýju, sbr. 79. gr. stjórnarskrárinnar.

Frumvarpið er byggt á tillögum nefndar sem forsætisráðherra skipaði 8. september 1997 til að endurskoða kjördæmaskipan og tilhögun kosninga til Alþingis. Nefndin var skipuð samkvæmt tilnefningum allra þingflokka er þá voru á Alþingi. Nefndin skilaði forsætisráðherra skýrslu 6. október 1998 sem hann lagði fyrir Alþingi.

Fyrirmæli stjórnarskrárinnar um kjördæmaskipan og kosningafyrirkomulag voru almenns eðlis fram til 1934 er tekin voru upp í hana ítarlegri ákvæði. Af þeim sökum hefur þurft að breyta stjórnarskránni í hvert sinn sem tilefni hefur þótt til að breyta kosningareglum að einhverju marki. Í frumvarpinu er lagt til að í stað rækilegra ákvæða um kjördæmamörk og úthlutun þingsæta geymi stjórnarskráin aðeins fá og almenn ákvæði um megindrætti í kjördæmaskipan landsins og tilhögun kosninga til Alþingis. Nánari útfærsla verður svo ákveðin með almennum lögum, stundum með tilstyrk aukins meiri hluta á Alþingi. Frumvarpið leggur því grunninn að breytingum sem þarf að gera á lögum um kosningar til Alþingis.

Í stjórnarskipunarlagafrumvarpinu felst að fjöldi þingsæta verður stjórnarskrárbundinn, svo og kjörtími, fjöldi kjördæma og tilhögun kosninga í megindráttum, þ.e. að þær skuli vera leynilegar og hlutbundnar. Almenna löggjafanum er hins vegar falið að ákveða fjölda þingsæta í hverju kjördæmi, þó þannig að minnst sex kjördæmissæti séu í hverju þeirra. Þá verða sett í kosningalög nánari fyrirmæli um kjördæmaskipan og fyrirkomulag kosninga, þar á meðal verða reglur um kjördæmamörk og reglur um úthlutun þingsæta. Breyting á kjördæmamörkum og tilhögun á úthlutun þingsæta verður þó aðeins gerð með tilstyrk 2/3 atkvæða á Alþingi eftir að hún hefur verið ákveðin fyrsta sinni, sbr. 2. gr. frumvarpsins. Þá felst í stjórnarskipunarlagafrumvarpinu það nýmæli að stjórnmálasamtök þurfa að fá minnst fimm af hundraði atkvæða á landsvísu til að eiga rétt á jöfnunarsætum. Að lokum er gert ráð fyrir að misvægi atkvæða á milli einstakra kjördæma verði aldrei meira en 1:2.

Í fylgiskjali með frumvarpinu sem lagt var fram á síðasta þingi fylgdu drög að breytingum á kosningalögum. Meiri hlutinn telur mikilvægt að lögum um kosningar til Alþingis verði breytt þegar á næsta þingi til samræmis við framangreindar breytingar á stjórnarskrá.

Meiri hlutinn mælir með samþykkt frumvarpsins.

Undir meirihlutaálitið skrifa Sigríður Anna Þórðardóttir, Vilhjálmur Egilsson, Valgerður Sverrisdóttir, Guðmundur Hallvarðsson, Drífa Hjartardóttir, Jón Kristjánsson og Guðmundur Árni Stefánsson. Jóhann Ársælsson skrifar undir nefndarálitið með fyrirvara.

Nokkrar umræður urðu í stjórnarskrárnefnd um samspil 3. og 5. mgr. 1. gr. frv. Af því tilefni skal áréttað að meiri hluti nefndarinnar telur fullljóst að í hverju kjördæmi skuli vera minnst sex kjördæmissæti. Því verður ekki breytt nema með breytingu á stjórnarskrá. Ákvæði 5. mgr. og það svigrúm sem þar er mælt fyrir um til breytinga nær því eingöngu til þeirra þingsæta í kjördæmi sem eru umfram stjórnarskrárbundið lágmark.

Herra forseti. Það er ekki ástæða til að fjölyrða frekar um hið veigamikla mál sem hér er á dagskrá. Það hefur fengið mjög vandaða meðferð hér á Alþingi. Ég lýsi sérstakri ánægju með samstarf þingflokkanna við umfjöllun þess. Hér er um stórt framfaramál að ræða fyrir íslenska þjóð sem ánægjulegt er að sjá nú fyrir endann á.