Stjórnarskipunarlög

Þriðjudaginn 15. júní 1999, kl. 10:38:47 (237)

1999-06-15 10:38:47# 124. lþ. 5.3 fundur 1. mál: #A stjórnarskipunarlög# frv., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 124. lþ.

[10:38]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Ég átti sæti í þeirri sérnefnd um stjórnarskrárbreytinguna sem kosin var fyrir fáeinum dögum en skrifa ekki undir nál. það sem hér er til umræðu. Ástæðan er sú að ég er andvígur þessum breytingum. Ég hef áður lýst sjónarmiðum mínum. Ég tel að núverandi kosningafyrirkomulag hafi ýmsa ótvíræða kosti. Það byggir á mörgum tiltölulega smáum kjördæmum á landsbyggðinni og stuðlar að tengslum viðkomandi þingmanna við eigið kjördæmi. Með þeim breytingum sem lagt er til að gerðar verði á stjórnarskrá og í kjölfarið á kosningalögum mun kjördæmunum fækka og þannig draga úr þeim kostum sem núverandi kerfi hefur.

Á móti er bent á að með þessum breytingum muni draga úr misvægi atkvæða en það hefur verið gagnrýnt af sívaxandi þunga á undanförnum árum ef ekki áratugum, enda er misvægið talsvert, 1:4 þar sem mest er. Ég vil fara leið sem tryggir hvort tveggja í senn, dregur úr misvægi atkvæða en um leið og það er forsenda þess að ráðist yrði í slíkar breytingar, yrðu gerðar aðrar breytingar á stjórnsýslunni. Með nýju stjórnsýslustigi yrðu tryggð aukin völd í héraði og einstökum landshlutum. Þetta eru breytingar sem ég tel að gera ætti samtímis. Ég óttast að verði ráðist í þær breytingar sem hér er lagt til muni róttækari og skynsamlegri breytingar frestast.

Einnig tel ég 5% þröskuldinn vera of háan. Það eru rúmlega 200 þúsund kjósendur í landinu, 5% þeirra eru 10 þúsund einstaklingar sem verða að vísu ekki sviptir kosningarrétti en atkvæði þeirra gætu fallið dauð niður ef þessar breytingar ná fram að ganga.

Hæstv. forseti. Ég tel margt mæla gegn þessum breytingum og mun greiða atkvæði mitt gegn þeim.

Nú er það svo að okkur sem þingmönnum ber að fara að samvisku okkar og bestu dómgreind í hverju máli. Það á að sjálfsögðu við um öll mál. Stundum skipa menn sér hins vegar í fylkingar og reyna að gera málamiðlanir í afstöðu sinni, það gera menn í ýmsum málum. Mér finnst að í þessu máli eigi hver og einn að vera á sínum báti. Það er alvarlegur hlutur að ráðast í breytingar á stjórnarskrá landsins, enda er búið svo um hnúta að tvö þing skuli skuli koma til sögunnar til að ákveða stjórnarskrárbreytingar. Það er til að koma í veg fyrir að flokkamyndanir, skammtímalausnir eða skammtímahagsmunir ráði för. Þannig finnst mér að þingmenn eigi að hugsa í þessu máli. Enginn þingmanna er bundinn af fyrra samkomulagi. Við eigum að beita samvisku okkar og dómgreind í þessu máli. Mér segir svo hugur að flestir í þessum sal eða alla vega mjög margir í þessum sal, það er kannski heldur djúpt í árinni tekið að segja flestir, séu óánægðir með þær breytingar sem hér er lagt til að gera. Ég tel að menn eigi að láta þá afstöðu ráða við atkvæðagreiðsluna.