Stjórnarskipunarlög

Þriðjudaginn 15. júní 1999, kl. 10:50:12 (244)

1999-06-15 10:50:12# 124. lþ. 5.3 fundur 1. mál: #A stjórnarskipunarlög# frv., JÁ
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 124. lþ.

[10:50]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Ég ákvað að skrifa undir nefndarálit það sem hér er til umræðu ásamt frv., með fyrirvara. Ég get engan veginn sagt að ég sé fullkomlega sammála málinu eins og það liggur fyrir. En eðli máls eins og þessa, þ.e. breytinga á stjórnarskránni, er að þeir sem koma að því í seinna skiptið sem það er tekið fyrir eiga ekki um neitt að velja. Annaðhvort verða þeir að styðja málið óbreytt eða taka afstöðu gegn því með því að sitja hjá eða greiða atkvæði á móti því. Við sem ekki höfum komið að málinu eigum því úr vöndu að ráða og erum á valdi nauðhyggjunnar þegar við erum að velta því fyrir okkur hvernig taka skuli afstöðu.

Ég hef sagt það áður og endurtek það að meiri hlutinn á að ráða. Þegar kemur að grundvallarmáli eins og þessu þá getur maður ekki barist gegn þeim vilja sem sannanlega liggur fyrir. Ég held að það fari ekki fram hjá neinum að mikill meiri hluti landsmanna er á þeirri skoðun að jafna eigi atkvæðisrétt. Alþingi hefur komist að þeirri niðurstöðu sem hér liggur fyrir, að þetta sé úrræðið í þetta skiptið til að jafna atkvæðisréttinn. Atkvæðavægið er hins vegar langt frá því að vera jafnað með frv. sem hér er til umræðu. Það er eitt af því sem ég tel vera mikinn galla á þessu máli, að ekki skuli hafa verið hægt að komast lengra, og helst alla leið, til að jafna atkvæðisréttinn.

Ég endurtek að ég tel að sá möguleiki að breyta landinu í eitt kjördæmi hefði átt að vera til skoðunar og umræðu. Það hefði átt að fara vel yfir það mál. Svo var ekki gert. Að einhverju leyti var það skoðað en sú umræða fór alla vega lítið út í þjóðfélagsumræðuna. Málið var ekki til umræðu að neinu marki í þeim kosningum sem nýliðnar eru en að mínu viti hefði átt að taka þann möguleika til skoðunar. Það eru miklir gallar á þeim stóru kjördæmum sem hér er verið að koma á og það verður ekki auðvelt fyrir þingmenn þeirra að sinna fólkinu, fyrirtækjunum og þeim svæðum sem þarna eru lögð undir.

Ég tek ekki undir það að koma þurfi á einhvers konar fylkjafyrirkomulagi með því að gera landið að einu kjördæmi. Það er ekki endilega ástæða til að gera aðrar breytingar í tengslum við það að gera landið að einu kjördæmi en bara það. Það að búa til nýtt fylkjafyrirkomulag getur verið skoðun manna en mér finnst það ekki þurfa að tengjast þessu máli.

Eitt er þó sem ég get ekki sætt mig við og vil gera grein fyrir. Það er að þetta mál skuli vera slitið í sundur. Þegar það var til umræðu á þinginu í vetur voru menn að ræða um kosningalögin samhliða. Nú er hins vegar talað um að breyta stjórnarskránni og láta hitt bíða. Ég er þeirrar skoðunar að þetta sé ekki boðlegt. Það er ekki boðlegt að Alþingi Íslendinga fari heim og skilji hið lýðræðislega kosningakerfi eftir óvirkt. Það er ekki boðlegt. Ég held að við förum ekki rétt að málinu.

Ég er ekki aðili að því samkomulagi sem varð milli flokkanna um þetta mál í vetur. Mér finnst að það sé margt sem maður þarf að velta fyrir sér þegar maður tekur afstöðu en þetta mál er svo einkennilegt að maður hefur ekki neina möguleika. Þess vegna ákvað ég að skrifa undir nefndarálitið en ég hef verið að velta því fyrir mér hvernig maður á að taka afstöðu. Mín skoðun er hins vegar að meiri hlutinn eigi að fá að ráða. Hann hefur ákveðið að taka, að mér finnst, afskaplega óheppileg skref í þá átt að jafna kosningarréttinn. Það er þó skref í þá átt og ég veit að það er þjóðarvilji fyrir því. Þess vegna hef ég ákveðið að styðja þetta mál þrátt fyrir allt.

Það er ekki um marga kosti að velja, hæstv. forseti. Ég verð að viðurkenna að ég var á valdi nauðhyggjunnar þegar ég tók þessa afstöðu.

Ég vil samt taka fram að við framhald málsins tel ég mig ekki á nokkurn hátt bundinn því samkomulagi sem menn tala um að hafi verið gert um þetta mál í heild sinni. Málið hefur einfaldlega verið slitið í sundur og ég lít þannig á að hv. þm. séu ekki bara óbundnir heldur hljóti þeir að vera óbundnir af öðru en samvisku sinni við framhaldið. Það er margt sem eftir á að taka afstöðu til. Ég tel að við eigum að koma að því með opnum hug og reyna að lagfæra þá ágalla sem fram hafa komið í máli hv. þm., bæði í sambandi við kjördæmamörk og önnur atriði sem um hefur verið rætt. Ég mun taka þátt í þeirri umræðu og tel mig þar óbundinn af því hvort menn hafi rætt um þetta mál í ákveðnu samhengi í vetur. Hæstv. forsrh. lýsti því í ræðu sinni að fjölmörg atriði væru ófrágengin. Hann taldi ýmis af þeim upp. Hann hefur kannski ekki talið upp öll þau mál upp sem eru ófrágengin en það er greinilegt að ýmislegt er eftir sem hv. alþm. eiga eftir að takast á við í þessu máli.

Ég endurtek að ég ætla að ganga að því með óbundnar hendur. Ég lýsi því yfir að mér finnst að vanda hefði átt undirbúning þessa máls mun betur en hér hefur verið gert. Ég býst við að þeir sem vilja að sú umræða sem þarf að fara fram um að gera landið að einu kjördæmi fari fram, muni í framhaldinu taka það mál upp með einhverjum hætti. Hvort það er raunhæft að gera sér vonir um að sú umræða geti skilað einhverju á næstunni er erfitt að sjá. Þetta er nú einu sinni afar stór ákvörðun að breyta kosningalögum, kosningafyrirkomulagi og stjórnarskrá með þeim hætti sem hér er fyrirhugað að gera. Ýmsir spá því nú og hafa gert að það verði ekki hlaupið í að gera aðra breytingu alveg á næstunni. Þess vegna harma ég að menn skyldu ekki ganga betur að þessu máli, taka það allt saman til umræðu og að sú umræða skyldi ekki skila sér betur út í þjóðfélagið en hún gerði.