Stjórnarskipunarlög

Þriðjudaginn 15. júní 1999, kl. 11:52:16 (256)

1999-06-15 11:52:16# 124. lþ. 5.3 fundur 1. mál: #A stjórnarskipunarlög# frv., KHG
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 124. lþ.

[11:52]

Kristinn H. Gunnarsson:

Herra forseti. Ég átti sæti á þingi þegar mál þetta var til umræðu í fyrra sinnið á vorþinginu síðasta og greiddi atkvæði gegn því af þeim ástæðum að mér fannst það ekki vera skref í þá átt sem færði íslenska þjóð fram á við heldur einvörðungu togstreita um völd þar sem menn færðu til úr höndum þeirra sem eru fámennir og standa heldur veikt til hinna sem eru fjölmennir og standa vel. Það samrýmist ekki skoðunum mínum að þannig eigi menn að standa að máli.

Ég vil þó fyrst segja um málið í ljósi þeirrar reynslu sem við höfum upplifað núna að ég hef orðið verulegar efasemdir um það ákvæði stjórnarskrárinnar hvernig standa eigi að því að breyta stjórnarskránni. Eins og menn þekkja verður stjórnarskrárbreyting að fá samþykki á tveimur þingum og kosningar ganga í milli. Hugsunin var sú að að afloknu samþykki málsins á fyrra þingi yrði því skotið til þjóðarinnar þar sem það yrði rætt í aðdraganda kosninga og síðan greidd atkvæði út frá málinu.

Reynslan af þessu máli færir mér heim sanninn um að þetta ákvæði er algerlega orðið óvirkt og ekki við það búandi áfram. Stjórnmálaflokkarnir hafa í raun séð við þjóðinni í þessu máli ef svo má að orði komast. Þeir hafa allir bundist samtökum um að standa að flutningi þess. Flutningsmenn málsins voru forustumenn allra stjórnmálaflokkanna þannig að hvað áttu kjósendur að velja þegar kom til kosninga? Allir stóðu að málinu og allir flokkar sammæltust um það eða a.m.k., skulum við segja, höfðu allir flokkar önnur mál en þetta í fyrirrúmi í kosningabaráttu sinni. Ég minnist þess varla að hafa heyrt minnst á þetta mál í kosningabaráttunni.

Þegar svona gerist er ákvæði stjórnarskrárinnar algerlega óvirkt. Alþingiskosningarnar snerust ekkert um þetta mál sem átti að vera samkvæmt gömlum skilningi málsins aðalumfjöllunarefni kosninganna. Þetta þýðir að við getum ekki búið við þetta kerfi áfram. Ég tel að við þurfum að breyta þessu. Ýmsir kostir koma til álita í þeim efnum. Ég vil nefna tvo. Fyrri kosturinn er einfaldlega sá að stjórnarskrárbreyting sé ekki borin undir í almennum alþingiskosningum heldur skotið til kjósenda í beinum kosningum þannig að kosið verði um breytinguna sjálfa. Það finnst mér koma vel til álita. Það hefur a.m.k. þann kost að tiltekið mál er borið undir kjósendur og menn fá svar þeirra við því hvað þeim finnst um þessa breytingu.

Hinn kosturinn er einfaldlega að hverfa frá gildandi fyrirkomulagi og láta Alþingi halda áfram að sjá um breytingar á stjórnarskránni ef menn vilja ekki hafa beinar kosningar um breytingarnar en vera ekki að flækja málið með alþingiskosningum á milli heldur einfaldlega veita Alþingi heimild til að afgreiða stjórnarskrárbreytingar með auknum meiri hluta atkvæða eins og stundum tíðkast á erlendum þingum þar sem 2/3 hlutar atkvæða á þingi duga til að breyta stjórnarskránni. Þá þarf ekki að bera málið undir annað þing að afloknum kosningum. Ég held að það sé miklu hreinlegra að velja aðra hvora af þessum leiðum en viðhalda gildandi fyrirkomulagi því það er ekki boðlegt þegar menn ætla sér augljóslega ekki að gera málið að kosningamáli.

Ég fullyrði að við vitum raunar ekkert voðalega mikið um afstöðu kjósenda í þessu máli. Ég fullyrði það og það er mjög eðlilegt því að kjósendur fengu enga umræðu um málið. Þeir fengu ekki rökin. Þeir fengu ekki mótrökin. Það var einfaldlega þagað í hel. Ég hef ekki hitt nokkurn einasta mann í kjördæmi mínu sem styður þetta mál, ekki nokkurn einasta mann. En menn yppta bara öxlum og segja: ,,Það er búið að ákveða þetta og við fáum engu um þetta ráðið.`` Fyrirkomulag sem er svona er ekki nógu gott. Við verðum að breyta því. Þessi ákvörðun stjórnmálaforingjanna að sammælast um breytingu gerir því gildandi fyrirkomulag um stjórnarskrárbreytinguna óvirkt. Þess vegna verðum við að gera breytingar að þessu leyti að mínu viti. Ég hef a.m.k. misst alla trú á því að stjórnarskráin virki eins og hún á að gera hvað þetta varðar.

Í öðru lagi. Grundvöllur málsins, það sem drífur málið áfram, hvað er það? Það stendur hér upp úr hverjum manninum á fætur öðrum: ,,Það eru mannréttindi.`` Hér var að ganga úr ræðustól á undan mér þingmaður sem sagði: ,,Ég vil að hver maður fái eitt atkvæði.`` Og ég hugsaði með sjálfum mér: Veit þingmaðurinn nokkurt dæmi þess að nokkur kjósandi hafi fengið nokkuð annað en eitt atkvæði? Við búum í lýðræðisríki við almennar leynilegar kosningar þar sem hver maður er á kjörskrá og fær eitt atkvæði og getur kosið. Um það snýst nákvæmlega kosningarrétturinn og það er algerlega uppfyllt.

Ég er algerlega ósammála því að svokallað vægi atkvæða sé eitthvert mannréttindamál. Ég bið menn að hugsa sig um tvisvar og þrisvar áður en þeir slá fram slíkri firru að það sé eitthvert mannréttindamál, hvort útreiknað vægi atkvæða er meira eða minna. Við skulum aðeins fara í gegnum þá röksemdafærslu. Byrjum á því að bera okkur saman við erlend ríki sem við köllum lýðræðisríki, (Gripið fram í.) hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson. Af því að þingmaðurinn kallar fram í þá skulum við byrja á Bretlandi hjá Tony Blair. (GÁS: Er þingmaðurinn að tala fyrir hönd þingflokksins?) Hvernig er kosningakerfið í Bretlandi? Þar eru einmenningskjördæmi. Það leiðir af sér að þar er ekki jafnt vægi atkvæða. Það er heldur ekki jafnt vægi atkvæða milli flokka. Það er algerlega misjafnt vægi atkvæða hvort heldur er litið til búsetu eða stjórnmálaskoðunar.

Síðustu þingkosningar í Bretlandi fóru þannig að Verkamannaflokkurinn sigraði með liðlega 40% atkvæða en fékk yfir 60% þingsæta. Vægi atkvæða í einmenningskjördæmi er þannig að þeir sem kjósa þann sem sigrar hafa allt vægið en allir hinir kjósendurnir hafa ekkert vægi. Við köllum Bretland lýðræðisríki og ég vænti þess að menn væni ekki breska Verkamannaflokkinn um að vera ekki lýðræðislegur flokkur.

[12:00]

Kjördæmin í Bretlandi hafa misjafnt vægi atkvæða. Það er einn þingmaður í hverju kjördæmi en fjöldi kjósenda er mjög breytilegur eftir kjördæmum. Hlutföllin eru allt niður í að vera 1:4. Í dreifbýlum kjördæmum í Skotlandi eru kjósendur fjórðungur af kjósendum í kjördæmi í London. Þetta finnst þeim sjálfsagt og eðlilegt. Ég vænti þess að menn álíti ekki, þó að Bretar hafi þetta kerfi og vilji hafa það áfram, að það skorti eitthvað upp á að þar sé um lýðræðislegt ríki að ræða.

Við getum líka nefnt Bandaríkin. Þar er nú aldeilis ekki jafnt vægi atkvæða þegar kosið er til Bandaríkjaþings. Þegar kosið er í efri deild Bandaríkjaþings þá hefur hvert fylki tvo þingmenn sem kosnir eru óháð íbúafjölda í fylkjunum. Fámennasta fylkið kýs tvo öldungardeildarþingmenn, jafnmarga og fjölmennasta fylkið kýs í öldungadeildina. Þeir eru því ekkert að hugsa um vægi atkvæða. Þeir líta ekki á það sem mannréttindabrot þó að þetta sé svona. Við lítum heldur ekki svo á að þetta séu mannréttindabrot hjá Bandaríkjamönnum.

Við lítum heldur ekki á það sem mannréttindabrot að Washington, höfuðborg Bandaríkjanna, hafi engan þingmann. Þeir hafa ákveðið það í sínum lögum og stjórnarskrá, Bandaríkjamenn, að höfuðborgin skuli ekki hafa neinn þingmann. Engum dettur í hug að halda því fram að eitthvað skorti upp á mannréttindaákvæði í Bandaríkjunum af þeim ástæðum.

Svona getum við tekið fyrir hvert ríkið á fætur öðru og komist að þeirri niðurstöðu að þeir sem halda því fram að misjafnt vægi atkvæða sé mannréttindabrot eru að vaða reyk. Það eru ekki rökin í málinu. Á meðan menn uppfylla það að hafa almennar kosningar þar sem hver maður getur neytt síns atkvæðisréttar og haft áhrif á niðurstöðuna þá er það nægjanlegt til þess að menn séu með almennilegt, lýðræðislegt ríki.

Þegar menn tala um vægi atkvæða þá hafna menn því að skipta megi ríkjum í kjördæmi. Hins vegar er meginreglan í heiminum að búa við lýðræðisskipulag með kjördæmaskiptingu, þar sem löndum er skipt í kjördæmi. Þegar menn skipta landi í kjördæmi þá leiðir það óhjákvæmilega til þess að misjafnt vægi verður milli kjördæma. Örfá ríki í heiminum búa við það kerfi að allt landið er eitt kjördæmi. Nánast öll önnur ríki í heiminum búa við það fyrirkomulag að skipta landi sínu í kjördæmi.

Ég vil segja við þá sem hafa haft þennan málflutning uppi sem drifkraftinn á bak við breytinguna, að þetta eru engin rök. Þessi mannréttindarök eru tóm vitleysa og mönnum ekki til sóma að reka þetta mál á þeim forsendum. Ég hafna þessum rökum sem ástæðu fyrir því að nauðynlegt sé að gera þá breytingu sem menn hafa hugsað sér að framkvæma núna.

Þar með er ekki sagt að ég telji að kerfið eigi að vera óbreytt. Það þýðir ekkert endilega að ég telji að kerfið sé fullkomið eins og það er eða gallalaust. Svo er ekki. Ég er á þeirri skoðun að það þurfi að breyta kerfinu og á því séu gallar, en ég fellst ekki á þessi mannréttindarök. Ég tel þau fráleit.

Meðan menn eru í umræðunni á þeim forsendum þá miðar okkur ekkert áfram. Þá erum við bara í byggðaátökum. Þá eru menn að reka þetta mál sem byggðamál, pólitískt byggðamál, þar sem menn eru að draga þingsæti af landsbyggðinni inn á höfuðborgarsvæðið, draga völd og áhrif af landsbyggðinni inn á höfuðborgarsvæðið. Þá eiga menn að segja að þetta sé byggðamál, að þetta sé byggðastefna. Menn eiga ekki að tala um þetta sem mannréttindamál.

Það má alveg skilja þau rök að menn telji sig þurfa meiri áhrif, að tiltekinn fjöldi landsmanna telji sig þurfa að hafa meiri völd og áhrif. Það eru rök sem vel má skilja og eru að mörgu leyti eðlileg. En mannréttindarökin eru fullkomlega út í loftið. Menn rugla umræðuna með því að vera að nota mannréttindarökin sem dulargervi fyrir hitt. Ég tel að menn eigi að leggja það til hliðar og tala fyrir málinu á réttum forsendum.

Áður en við víkjum frá mannréttindarökunum vil ég taka undir það sem kom fram hjá hv. þm. Kristjáni Möller að það er fleira mannréttindi en atkvæðavægi, séu það mannréttindi. Ég vona að allir geti verið sammála um að það séu mannréttindi að eiga kost á læknisþjónustu eða menntun og að búa við svipaðan framfærslukostnað, án tillits til búsetu. En allir þingmenn í þessum sal þekkja að þar skortir nokkuð á. Það er stundum harðsótt að sækja á um úrbætur í þessum efnum, m.a. frá þeim þingmönnum sem ákafast tala fyrir nauðsyn breytinga í þessu máli. Ég lít því þannig á rök hv. þm. Kristjáns Möllers að þau hafi verið á réttum stað í þessari umræðu.

Í þriðja lagi vil ég nefna að gallinn á þeirri niðurstöðu sem menn hafa lagt hér fram er að henni er ekki ætlað að vera varanleg. Hún er í mótsögn við þann rökstuðning sem borinn er fram fyrir málinu. Þegar svo háttar til er hætt við að menn séu ekki að setja niður deilur heldur að stíga skref til viðvarandi ófriðar um málið áfram. Hver er þá ávinningurinn af breytingunni?

Lítum á þetta átriði nánar. Menn segja: Það er óréttlátt að vægi atkvæða sé misjafnt. Þeir leggja af stað með þann málflutning. Síðan komast menn að niðurstöðu og segja: Ja, við ætlum nú að hafa hvergi meira misvægi en 1:2. Með öðrum orðum er ætlunin að hafa misvægið áfram. Hvernig geta menn lokið málinu með þessari niðurstöðu þegar gengið var út frá því að misvægið væri óviðunandi og ekki væri við það búandi enda væri það mannréttindabrot? Það er ekki heil brú í þessu.

Enda munu þeir sem tala fyrir málinu á mannréttindaforsendum ekki una þessari niðurstöðu. Það hefur m.a. komið fram hjá formanni Alþfl., sem er einn af flutningsmönnum málsins, að hann lítur ekki á þessa niðurstöðu sem frið heldur skref sem færi hann í átt að því sem hann vill. Þegar menn hafa stigið það skref er ætlunin að halda ófriðnum áfram því hann vill ganga lengra. Þannig eru menn að gera ,,komprómís`` án þess að tryggja sér frið um niðurstöðuna. Fleiri þingmenn hafa lýst því yfir að þeir muni ekki sætta sig við þessa niðurstöðu heldur líta á hana sem áfanga á leið og þeir muni þegar halda áfram að berjast fyrir því að ganga lengra, þangað sem þeir vilja. Þannig er galli á niðurstöðu málsins. Það leiðir ekki til þess að sátt sé um málið í bráð og lengd.

Í fjórða lagi vil ég nefna að lausnin felur í sér mótsögn. Hún felur í sér misvægi. Í fyrsta lagi felur hún í sér það að menn ætla að búa við misvægi. Í öðru lagi hefur hún innbyggðar ákvarðanir sem líka leiða af sér nýtt misvægi. Þar er í fyrsta lagi 5% atkvæðaþröskuldurinn, sem þýðir að kjósendur þess framboðs sem eru rétt neðan við þröskuldinn munu búa við verulegt atkvæðamisvægi. Ég spyr: Er það ekkert mannréttindabrot? Þurfa menn þá ekkert að hafa áhyggjur af mannréttindaákvæðum málsins, þegar það lýtur að jöfnunarþingsætum? Er allt í lagi að setja 5% þröskuld? Er það ekki brot á neinum mannréttindum? Þar á ofan búa menn til ákvæði í kosningalögum, eins og það hefur verið kynnt þó að það sé ekki til afgreiðslu hér, um að menn geti breytt lista með 20% atkvæða. Að 20% þeirra sem kjósa lista geti breytt lista, breytt röð manna á listanum. Hvað eru menn að segja með því? Menn eru að segja: Þessi 20% sem gera tiltekna breytingu á lista, hafa meira atkvæðavægi en hin 80% sem gera það ekki. Menn eru að búa til misvægi upp á 4:1.

Hvað varð þá um mannréttindin, herra forseti? Ég bara spyr. Hvað varð þá um mannréttindin? Hugsuðu þeir sem sömdu þetta mál ekkert um þetta? Fannst þeim allt í lagi að hafa fjórfalt atkvæðamisvægi að þessu leyti?

Að lokum vil ég svo segja, herra forseti, að slík vinnubrögð eru ekki heppileg í máli sem þessu. Málið er stórpólitískt og lýtur að því að skapa í þjóðfélaginu leikreglur sem eiga að sætta menn við að búa við þær, óháð búsetu, af því að þeir telja hagsmunum sínum bærilega sinnt með því að fara eftir þeim. Það er vandasamt að setja svoleiðis reglur að allir uni þeim. Það er ekki góð niðurstaða þegar menn gefast upp við að búa til reglur sem allir geta unað við og ákveða að hafa að engu vilja hluta kjósenda. Það sem gerst hefur í þessu máli er að ekki verið tekið tillit til sjónarmiða og vilja manna á norðvesturhluta landsins. Það er stóra villan í þessu máli, að þeir sem standa að málinu ákváðu að semja ekki við þennan hóp þingmanna.

Breytingin sem gerð er felst í að færa sex þingsæti af landsbyggðinni á höfuðborgarsvæðið. Fimm af þessum sex þingsætum eru tekin af Vesturl., Vestf. og Norðurl. v. og færð á höfuðborgarsvæðið. Eitt þingsæti er tekið af Austurl. og fært suður. Suðurl., Suðurnes og Norðurl. e. eru á pari. Þau geta alveg búið við þessa breytingu því hún breytir engu fyrir þau. Meira að segja er Norðurl. e. betur sett að því leyti að áhrifasvæði þess er orðið stærstur hluti Austurl. Í því nýja kjördæmi hefur Norðurl. e. yfirburðastöðu og mun auðvitað ráða miklu um uppröðun þingsæta þar. Þannig má segja að Norðurl. e. hafi styrkt stöðu sína.

Þetta endurspeglar dálítið það hverjir sátu í nefndinni sem samdi frv. Það voru sex þingmenn sem sátu í nefndinni sem samdi frv. Fimm þeirra voru þingmenn af höfuðborgarsvæðinu, frá Reykjavík og Reykjanesi og einn var þingmaður á Norðurl. e. Þar var enginn þingmaður af Austurl., Suðurl. eða Norðvesturlandi. Enda kom upp mikil óánægja á Austurl. með þessar tillögur. Þá var samið við Austfirðingana og þeir standa að málinu. En það var ekki gengið til móts við sjónarmið Vestf., þingmanna Norðurl. v. eða Vesturl. Það endurspeglast í umræðunum hér í dag, herra forseti. Það eru þingmenn af þessu landsvæði sem eru ósáttir við breytingarnar en hinir una þeim að mestu leyti.

[12:15]

Þetta er óheppileg niðurstaða í svona stóru máli að skilja eftir fulltrúa svo stórs hluta landsins.

Ég stóð ekki að þessu máli á síðasta þingi og sú afstaða mín hefur ekki breyst. Ég mun ekki styðja þetta þingmál eins og það er lagt fram en vil þó láta í ljósi þær óskir eða vonir í lokin að menn beri gæfu til þess á komandi árum að muna eftir því að heppilegra er í stóru máli sem þessu að sætta alla við niðurstöðuna.