Stjórnarskipunarlög

Þriðjudaginn 15. júní 1999, kl. 12:43:41 (258)

1999-06-15 12:43:41# 124. lþ. 5.3 fundur 1. mál: #A stjórnarskipunarlög# frv., ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 124. lþ.

[12:43]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Um stjórnarskrárbreytinguna og nýja kjördæmaskipun var ekki kosið 8. maí sl. Því er ekki hægt að vísa til úrslita kosninganna með vilja þjóðarinnar í þessu máli. Misvægi atkvæða er til staðar og þykir mörgum það misvægi vera orðið fullmikið og þær raddir heyrast þá helst héðan af höfuðborgarsvæðinu. Markmiðið með stjórnarskrárbreytingunni er það eitt að jafna atkvæði og nálgast má það markmið á mismunandi hátt.

Tillögur og hugmyndir manna mótast frekar út frá búsetu en pólitík. Ég er ekki viðkvæm fyrir misvægi atkvæða. Ég hef alla tíð frekar litið á það sem byggðasjónarmið heldur en viðkvæm réttindi einstaklinganna því misvægi kemur einnig fram í þjónustu hins opinbera og stjórnsýslu ríkisins. Því þarf að hafa hvort tveggja í huga þegar breytingar eru gerðar á stjórnarskránni og lögum um kosningar. Ef jafna á algerlega vægi atkvæða er hægt að ganga miklu lengra en kemur fram í þessum tillögum til stjórnarskipunarlaga og ætti þá að gera landið að einu kjördæmi. Þar með og einungis með því móti er algerlega búið að jafna vægi atkvæða.

[12:45]

Ég get talað fyrir því að sú leið verði farin, sérstaklega ef kjördæmin verða eins stór og tillögur hafa komið fram um að varla sé vinnandi fyrir þingmenn innan þessara kjördæma, hvað þá fyrir sveitirnar og þau kjördæmi að vera sem ein heild.

En ef farið verður út í þá breytingu að gera landið að einu kjördæmi verður jafnframt að setja á millistjórnarstig, þ.e. fylkja- eða héraðsstjórnir, eftir því hvað menn vilja kalla það, og jafna með því aðgengi fólks að stjórnsýslunni og opinberri þjónustu. Með auknum verkefnum sveitarfélaga er enn frekar þörf á styrkingu þeirra félagslegu eininga sem myndast hafa í núverandi kjördæmum.

Samkvæmt þeim hugmyndum sem komið hafa fram um væntanlega kjördæmabreytingu lýsi ég andstöðu við stærð sumra kjördæma og þá sérstaklega við svokallað Norðausturkjördæmi sem á að ná allt frá Skagafirði og í Skaftafellssýslu. Að mínu mati væri betra að halda núverandi kjördæmum á Norðausturlandi og Austurlandi og ef menn vilja nálgast og jafna frekar vægi atkvæða en er í dag og sé ekki sátt um annað hefði ég talið heppilegra að fækka frekar þingmönnum í þessum kjördæmum en að slá þeim saman og stækka. Ég get þess vegna ekki fallist á þá setningu eða þá tölu sem er í frv. um að þingmenn skuli eigi vera færri en sex því að þetta er leið sem ég hefði frekar viljað fara.

Þá felst í stjórnarskipunarfrv. það nýmæli að stjórnmálasamtök þurfi að fá minnst fimm af hundraði atkvæða á landsvísu til að eiga rétt á jöfnunarsætum. Þessi prósenta er of há til að standa ein og því er hætt við að of mörg atkvæði geti fallið niður ónýtt ef hún ræður ein. Með 5% reglunni þyrfti að vera sama ákvæði og er í dag, þ.e. að stjórnmálaflokkur þurfi að ná a.m.k. að einum kjördæmakjörnum manni til að fá inn þingmann, til að atkvæði nýtist --- jöfnunarsæti. Mér sýnist að með því að hafa prósentuna svona háa og láta hana standa eina sér sé hætta á ferðum. Þetta er það há tala og margir einstaklingar sem eru þarna að baki, og séu menn að tala um að jafna atkvæði þá finnst mér þetta nokkuð vogað að hafa prósentutöluna svona háa ef hún á að standa ein sér. Ég geri ráð fyrir að hún verði látin standa en þarna hefði ég viljað hafa einn kjördæmakjörinn mann.

Það er jákvætt að hafa ákvæði stjórnarskrárinnar um kosningar það opið að ekki þurfi að breyta stjórnarskránni í hvert skipti sem lögum um kosningar er breytt.

En í Austurlandskjördæmi hef ég ekki hitt einn einasta mann sem hefur lýst sig ánægðan með þessar væntanlegu breytingar. Menn eru mjög óánægðir, ekki bara hvað stærðina snertir, heldur er verið að brjóta upp margs konar samstarf sem skapast hefur á undanförnum árum og þá kannski sérstaklega allra síðustu ár því að með auknum verkefnum sveitarstjórna hefur samstarfið aukist og styrkst og ýmislegt í uppbyggingu yrði brotið niður og skorið á ef þessi breyting verður. Þegar við horfum svo til þess að fá Akureyri sem helsta þjónustukjarna byggðarlagsins í þessu landfræðilega ójafnvægi lýsi ég mig mjög andsnúna fyrirhuguðum kjördæmabreytingum. Þótt það sé ekki hluti af því sem við erum að afgreiða núna fylgir þetta í kjölfarið. Því treysti ég mér ekki til að greiða þessu frv. atkvæði mitt.