Stjórnarskipunarlög

Þriðjudaginn 15. júní 1999, kl. 12:53:00 (260)

1999-06-15 12:53:00# 124. lþ. 5.3 fundur 1. mál: #A stjórnarskipunarlög# frv., ÞSveinb
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 124. lþ.

[12:53]

Þórunn Sveinbjarnardóttir:

Hæstv. forseti. Hugtakaruglingurinn og rökleysan sem fram hefur komið í máli hv. þingmanna í morgun rekur mig í rogastans. Fyrir síðustu kosningar var gert heiðursmannasamkomulag, samkomulag sem allir flokkarnir stóðu að um að breyta stjórnarskipunarlögum. Nú segjast menn ekki vera bundnir því samkomulagi. Eru þetta þau vinnubrögð sem tíðkast á hinu háa Alþingi? Ég spyr.

Ég tek undir hvert einasta orð sem hv. þm. Þorgerður K. Gunnarsdóttir sagði hér áðan. Frv. er mikið framfaraskref. Vissulega væri betra ef misvægi atkvæða yrði útrýmt. Það hefur ekki tekist en það er m.a. vegna þess að hér er um málamiðlun að ræða og aðeins með henni getum við komist fram á veginn í þessu máli.

Það er arfleifð þessara mála í íslenskum stjórnmálum að um þau hefur alltaf verið fjallað, um misvægi atkvæða, um kjördæmaskipan, um kosningalög, út frá forsendum flokkanna. Við erum enn þá að einhverju leyti föst í þeim viðjum þó búið sé að útrýma misvægi flokka sem var mikið áður fyrr.

Annað atriði í arfleifðinni er byggðatengingin, sú er hv. þingmenn hafa talað hvað mest um í morgun. Þetta mál fjallar ekki um kjör landsmanna, þetta mál fjallar um mannréttindi, um kosningarrétt, hinn helga rétt og í hann verður ekki deilt með neinu. Ekki þýðir að fjalla um kjördæmabreytingu út frá kjörum byggðanna, hvort heldur er þau kjör sem fólk býr við í þéttbýli eða í dreifbýli.

Ég verð að láta þess getið hér, herra forseti, að sá málflutningur manna er nokkuð furðulegur að á suðvesturhorninu sé lífið eintómur dans á rósum. Hafa menn aldrei labbað hér um byggðir, hafa menn aldrei komið hér út í hverfi, út í hin ýmsu bæjarfélög? Hafa menn aldrei gert sér grein fyrir því að lífsbaraáttan á höfuðborgarsvæðinu getur verið erfið? Ég verð að minnast á þetta eftir að hafa hlustað á hv. þingmenn í morgun þó svo að þetta sé í raun og veru ekki það efni sem er til umræðu.