Stjórnarskipunarlög

Þriðjudaginn 15. júní 1999, kl. 13:00:17 (265)

1999-06-15 13:00:17# 124. lþ. 5.3 fundur 1. mál: #A stjórnarskipunarlög# frv., ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 124. lþ.

[13:00]

Árni Steinar Jóhannsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil aðeins í sambandi við ræðu hv. þm. Þórunnar Sveinbjarnardóttur koma inn á það sem hún talar um, helgan rétt, jöfnun á vægi atkvæða. Það er nú svo að menn vinna út um allan heim og ekki bara út frá atkvæðavægi. Ég nefni sem dæmi að við, þessar 270 þúsund sálir, eigum fullgilt sæti hjá Sameinuðu þjóðunum alveg eins og allir aðrir. Ég nefni sem dæmi vinnuna í Evrópusambandinu þar sem lítil þjóðfélög eða litlar þjóðir eins og Lúxemborg hafa mjög aukið vægi miðað við fólksfjölda. Þeir eru ekki nema að því er ég best veit kringum 300 þúsund. Ég vil gjarnan að hún svari því hvort þessi helgi réttur sem talað er um sé e.t.v. svo helgur þegar menn eru að tala í svona samhengi. Það er mikil ábyrgð að hafa yfirráð og umsýslu yfir stórum landsvæðum og það er viðurkennt í margs konar alþjóðlegu samstarfi og það er viðurkennt víða um lönd. Það er ekki jafnt vægi atkvæða nándar nærri alls staðar. Það er mismunandi vægi og ég vil að hún svari því hvort henni finnist þessi helgi réttur vera mjög brýnn hvað varðar stjórnsýsluna á Íslandi og þá í því samhengi að við höfum víða mjög aukið vægi miðað við fólksfjölda okkar.