Rekstrarvandi sjúkrahúsanna og sumarlokanir

Þriðjudaginn 15. júní 1999, kl. 13:34:03 (270)

1999-06-15 13:34:03# 124. lþ. 5.92 fundur 55#B rekstrarvandi sjúkrahúsanna og sumarlokanir# (umræður utan dagskrár), heilbrrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 124. lþ.

[13:34]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Fyrst almennt um lokanir vegna sumarleyfa. Mig langar að benda á að bara á Landspítalanum eru 1.200 sem sinna hjúkrun og umönnun og þá eru ekki taldir með læknar eða ýmist annað starfsfólk. Samkvæmt kjarasamningum ber Ríkisspítölum að veita starfsmönnum sumarleyfi og það yfirleitt á 3--4 mánaða tímabili yfir hásumarið. Þetta reyna menn að gera eftir fremsta megni en hvað þýðir þetta í raun og veru? Þetta þýðir að Landspítalinn þyrfti að ráða 400--500 manns í hjúkrun og umönnun til að geta veitt öllu þessu fólki sumarleyfi ef ætti að vera hægt að reka spítalann með óbreyttum hætti. Þetta vita allir að er ekki hægt.

Hjúkrunarforstjóri Landspítalans sem þekkir vandamálið út og inn orðaði þetta vel þegar hún sagði og ég vitna beint til hennar: ,,Við erum bara ekki það mannmörg þjóð að við eigum ekki fagmenntað fólk til, við eigum það ekki til, og ég held að við munum lifa við þetta í framtíðinni og ég veit ekki hvort það er neitt athugavert við það.``

Þetta eru orð Önnu Stefánsdóttur hjúkrunarforstjóra sem þekkir vandamálið flestum betur eins og ég sagði. Hún hefur mikla reynslu og ber mikla faglega ábyrgð eins og aðrir stjórnendur spítalanna. Hún bætti við að í Noregi væri til að mynda sama vandamálið uppi og hér einfaldlega vegna þess að þar vilja líka allir fara í sumarfrí á sama tíma.

Þetta er ekkert öðruvísi úti á landi. Fjármálastjórinn á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri segir í samtali við fjölmiðla 2. júní sl. að skortur á starfsfólki sé mesti vandinn og að lokunartíminn fyrir norðan sé frá 15. maí til septemberloka á hverju ári. Þetta tímabil heitir í kjarasamningum sumarorlofstímabil. Þetta er vandinn en ekki fjárskortur eða niðurskurður eins og vinsælt er að kasta fram í þingsölum. Ef menn vilja breyta þessu ástandi yfir sumartímann verður það ekki gert nema í samráði við stéttarfélögin og þá í næstu kjarasamningum, sem er í rauninni ekki á forræði heilbrrn. eins og menn vita.

Menn spyrja: Eru sumarlokanir í ár meiri en undanfarin ár? Í stórum dráttum má segja að lokanir séu mjög svipaðar og verið hefur undanfarin ár eins og fram kom í viðtali við hjúkrunarforstjóra Landspítalans 1. júní sl. Þessu er verið að mæta eins og undanfarin ár með sama hætti, þ.e. minna er tekið af biðlistum en öllum bráðatilvikum er sinnt eins og venjulega. Þá hljóta menn að spyrja: Munu biðlistar ekki lengjast? Það er gaman að segja frá því að sem betur fer hafa biðlistar t.d. í hjartaaðgerðir aldrei verið styttri frá upphafi hjartaaðgerða á Íslandi en einmitt nú og sem betur fer er styttri biðlisti í bæklunaraðgerðir nú en við höfum séð um langt árabil.

Til hvaða aðgerða verður gripið? er að sjálfsögðu spurt. Það sem vekur athygli við hefðbundnar umræður um sumarlokanir nú er að nú hefur framkvæmdastjórn sjúkrahúsanna sett saman starfshóp sem fær víðtækt umboð til að grípa til aðgerða sem draga eiga úr lokunum sem mest hann má í framtíðinni og hafa þegar verið ræddir möguleikar á samstarfi spítalanna og heilsugæslunnar í Reykjavík til að reyna að gera hugsanleg óþægindi fólks vegna lokana sem minnst.

En e.t.v. er alvarlegust sú staðreynd þegar rætt er um starfsmannahald sjúkrahúsanna í landinu og heilbrigðisstofnana í heild að okkur vantar fleira fagfólk. Það er ein hlið á vanda sjúkrahúsanna.

Virðulegi forseti. Ég er alveg að ljúka máli mínu. Ég þarf að koma aðeins að fjármálunum.

Virðulegi forseti. Eins og kom fram í umræðum í gær, þá er það rétt að kjarasamningar urðu dýrari en gert var ráð fyrir. Sjúkrahúsin fara um 5--7% umfram á fjárlögum þessa árs, en eins og menn vita eru laun um 70% af heildarveltu sjúkrahúsanna. Áður en menn gagnrýna kjarasamninga verður að svara því hvort þeir telji að þeir sem í hlut eiga hafi fengið of ríflegar launahækkanir. Ég vil taka fram að gefnu tilefni að það gildir einu um hvort heilbrigðisstarfsmenn hafa fengið launahækkanir sem ákvarðaðar voru af kjaradómi eða kjaranefnd eða hvort samninganefnd ríkisins eða stjórnir heilbrigðisstofnana kom þar að máli. Þetta verða menn að hafa í huga.