Rekstrarvandi sjúkrahúsanna og sumarlokanir

Þriðjudaginn 15. júní 1999, kl. 13:39:55 (271)

1999-06-15 13:39:55# 124. lþ. 5.92 fundur 55#B rekstrarvandi sjúkrahúsanna og sumarlokanir# (umræður utan dagskrár), ÁMöl
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 124. lþ.

[13:39]

Ásta Möller:

Virðulegi forseti. Það er mér bæði ljúft og skylt að taka þátt í umræðu á hinu háa Alþingi um fjárhagsvanda sjúkrahúsanna en umræða um hann er orðin árviss atburður hér í þinginu. Heilbrigðis- og tryggingamálin eru stór og fjárfrekur málaflokkur. Hann er engan veginn undanskilinn fjárhagslegu aðhaldi fremur en önnur samfélagsleg starfsemi sem fjármögnuð er af opinberu fé. Ég vil þó benda á að útgjöld Íslendinga til heilbrigðismála sem hluti af vergri þjóðarframleiðslu eru í meðallagi í samanburði við OECD-lönd og af Norðurlandaþjóðum verja einungis Danir minna til heilbrigðismála en við.

Þá langar mig að benda á það mat Þjóðhagsstofnunar sem birtist í skýrslu stofnunarinnar frá október 1998 um fjármögnunarleiðir í heilbrigðisþjónustu að ástæða fjárskorts í íslenska heilbrigðiskerfinu felist fremur í lágum fjárframlögum ríkisins en óeðlilega háum útgjöldum.

Vandi sjúkrahúsanna í Reykjavík á yfirstandandi fjárhagsári er í meginatriðum af fernum toga, þ.e. vegna 2000-vanda, vegna vinnutímatilskipunar ESB, í þriðja lagi vegna þess að 15% þátttaka Reykjavíkurborgar til viðhalds stofnkostnaðar og tækjakaupa féll niður við flutning Sjúkrahúss Reykjavíkur yfir til ríkisins um síðustu áramót og í fjórða lagi vegna hækkunar á launum heilbrigðisstarfsmanna á síðasta ári í kjölfar upptöku nýs launakerfis á sjúkrahúsunum. Ýmis þessara atriða eiga einnig við um aðrar heilbrigðisstofnanir hér á landi.

Á undanförnum árum hefur atgervisflótti heilbrigðisstarfsmanna frá heilbrigðisstofnunum af völdum lágra launa verið talið eitt meginvandamál heilbrigðiskerfisins. Á síðasta ári var gerð nokkur bragarbót þar á og hafa launakjör ýmissa heilbrigðishópa, ekki síst kvennahópa, batnað nokkuð þannig að þær eru sáttar við þó að seint verði nóg að gert. Þessar launahækkanir eru skref í átt til aukins launajafnréttis kynjanna og var hárrétt ákvörðun að taka á þeim málum.

Niðurstaða mín er því sú að veita þarf meira fé til heilbrigðismála en um leið þarf að halda áfram endurskoðun og endurskilgreiningu á hlutverki einstakra heilbrigðisstofnana og að lögð verði áhersla á að skoða möguleika á breyttu rekstrarformi einstakra heilbrigðisstofnana eða eininga innan stofnana.