Rekstrarvandi sjúkrahúsanna og sumarlokanir

Þriðjudaginn 15. júní 1999, kl. 13:44:40 (273)

1999-06-15 13:44:40# 124. lþ. 5.92 fundur 55#B rekstrarvandi sjúkrahúsanna og sumarlokanir# (umræður utan dagskrár), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 124. lþ.

[13:44]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Fyrir flest okkar er sumartíminn gleðilegur tími. Fólk reynir að slaka á eins og kostur er og það slaknar á þöndum taugum þjóðarlíkamans. En til eru þeir sem kvíða sumrinu. Það eru þeir sem eiga allt sitt undir sjúkrastofnunum og velferðarþjónustunni komið því að þar sem annars staðar fer fólk í sumarleyfi með tilheyrandi lokunum. En það er ekki einvörðungu vegna sumarleyfa sem dregið er úr starfseminni heldur einnig og ekki síður vegna fjárskorts. Manneklan er af völdum peningaleysis, eins og fram kom í máli hv. þm. Árna Steinars Jóhannssonar. Við verjum ekki nægilegum fjármunum til heilbrigðisþjónustunnar til að manna hana og mennta fólk til hennar.

Það sem ég vil leggja áherslu á á þeim stutta tíma sem ég hef er að á vissum sviðum heilbrigðisþjónustunnar verður að manna og skipuleggja hana þannig að hún starfi allan ársins hring og þá vísa ég sérstaklega til geðheilbrigðisgeirans. Á undanförnum fimm árum hefur sjúkrarúmum fyrir geðsjúka verið fækkað á sjúkrahúsum landsins. Fólki sem þyrfti á sambýlum að halda eða vera í sólarhringsvistun er gert að leita aðstoðar á göngudeildum sem í sumum tilvikum er ófullnægjandi. Þegar nú í ár bætist ofan á þessa fækkun rúma á geðheilbrigðissviði á liðnum árum meiri sumarlokanir en dæmi er um áður, þá er illa komið.

Fyrir viðkomandi einstaklinga veldur það óvissu og sálarkvölum að eiga ekki í hús að venda hjá heilbrigðisstofnunum yfir sumartímann og hjá fjölskyldum og aðstandendum veldur þetta að sama skapi óvissu og miklu álagi. Þótt varlega þurfi að fara í slíkar fullyrðingar þá getur það valdið hættuástandi í öllu umhverfinu þegar geðveikt fólk, einstaklingar sem ekki hafa stjórn á gerðum sínum fá ekki þá aðhlynningu á sjúkrahúsum sem þeir þyrftu á að halda. Ég vil hvetja heilbrigðisyfirvöld og fjárveitingavaldið til að taka á þessum málum af festu og alvöru og til slíkra verka hafa þau minn stuðning.