Rekstrarvandi sjúkrahúsanna og sumarlokanir

Þriðjudaginn 15. júní 1999, kl. 13:47:07 (274)

1999-06-15 13:47:07# 124. lþ. 5.92 fundur 55#B rekstrarvandi sjúkrahúsanna og sumarlokanir# (umræður utan dagskrár), JónK
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 124. lþ.

[13:47]

Jón Kristjánsson:

Herra forseti. Málefni sjúkrahúsanna eru komin á dagskrá í hv. Alþingi og það er ekki í fyrsta sinn. Það er regla að þau eru rædd utan dagskrár enda þurfa þessi mál auðvitað að vera í stöðugri skoðun og þau eru það. Mikil útgjaldaþörf er í sjúkrahúsunum. Margt hefur verið gert til þess að reyna að stemma stigu við henni og nýta þá fjármuni betur sem settir eru í heilbrigðismálin. Þeirri vinnu þarf að halda áfram. Í því eru engar töfralausnir. Við höfum sérstök verkefni að vinna núna sem er launaþróunin. Verulega miklir fjármunir hafa farið í að bæta kjör heilbrigðisstarfsmanna.

Það er rétt og lagðir voru til þess peningar á fjárlögum að hluta en það er ekki alveg rétt að öll kurl séu komin þar til grafar. Við þetta þarf að vinna í tengslum við fjárlagagerð og í tengslum við gerð fjáraukalaga og það verður gert eins og áður.

Ég geri ekki lítið úr þeim vandræðum sem stafa af lokunum deilda yfir sumarið, það er fjarri mér að gera lítið úr því. En ég held að bjartsýni sé að áætla að peningar muni laga allt í því efni og lokanir heyri sögunni til eða truflanir á starfsemi. Ég get alveg tekið undir með síðasta ræðumanni að auðvitað er ekki sama hvaða deildum er lokað án þess að ég vilji fara nánar út í þá hluti. Ég held að þessi mál verði ekki leyst í umræðum utan dagskrár þó að ég sé ekki að hafa á móti því að vakin sé athygli á þessum vanda, síður en svo. En þessi mál eru í stöðugri skoðun og verða það áfram og ég mun beita mér fyrir því sem formaður fjárln. að þau verði tekin til rækilegrar skoðunar enda hafa þau alltaf verið það. En ég er ekki bjartsýnn á að þessi vandi leysist í eitt skipti fyrir öll einn góðan veðurdag.