Rekstrarvandi sjúkrahúsanna og sumarlokanir

Þriðjudaginn 15. júní 1999, kl. 13:59:33 (279)

1999-06-15 13:59:33# 124. lþ. 5.92 fundur 55#B rekstrarvandi sjúkrahúsanna og sumarlokanir# (umræður utan dagskrár), SJóh
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 124. lþ.

[13:59]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Nú er enn á ný að ríða yfir okkur þessi árvissa landplága sem við þurfum við að glíma hér á landi og kannski víða annars staðar sem eru sumarlokanir sjúkrahúsa. Ég skal taka undir að eðlilegt sé að reyna að draga úr starfsemi vissra deilda yfir sumarmánuðina þar sem það er hægt. En því miður hafa lokanirnar gengið út yfir deildir þar sem ég tel að ekki sé hægt að draga úr starfsemi. Ég tel að ekki sé forsvaranlegt t.d. eins og ég þekki dæmi um að geðsjúklingar séu sendir heim á aðstandendur vegna sumarlokana sjúkrahúsa. Það tel ég ekki forsvaranlega aðgerð og ég tel að þarna hljóti fyrst og fremst að þurfa skipulagsbreytingar til þess að reyna að koma í veg fyrir svona nokkuð. En ég skal ekki mæla á móti því að dregið sé úr starfsemi deilda þar sem það er hægt og þar sem það er forsvaranlegt.

Þessi fjárhagsvandi sjúkrahúsanna hefur verið nokkuð til umræðu og mér finnst eins og sumum sé að koma nokkuð á óvart núna að það sé mikill fjárhagsvandi vegna kjarasamninga sem voru gerðir á liðnu ári. Ég er nokkuð hissa á því hve fólk rekur upp stór augu yfir þessu því að þetta lá allt saman fyrir þegar við vorum að afgreiða fjárlög í vetur og þetta var mikill höfuðverkur fyrir fjárln. Því miður var ekki unnt að koma til móts við þessar hækkanir og það var vitað mál að það mundi auðvitað ríða yfir sem hver önnur óvænt holskefla síðar á árinu eins og það er að gera núna. Auðvitað er þetta mikill vandi en hann var fyrirséður og það átti að gera ráð fyrir honum í fjárlögum. Það þarf ekki að gera ráðstafanir á aukafjárlögum út af svona nokkru.