Rekstrarvandi sjúkrahúsanna og sumarlokanir

Þriðjudaginn 15. júní 1999, kl. 14:01:51 (280)

1999-06-15 14:01:51# 124. lþ. 5.92 fundur 55#B rekstrarvandi sjúkrahúsanna og sumarlokanir# (umræður utan dagskrár), Flm. ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 124. lþ.

[14:01]

Árni Steinar Jóhannsson:

Herra forseti. Það kom fram í máli hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar að mikil aukning hefði verið í framlögum til heilbrigðismála á Íslandi og miklu meiri aukning en í öðrum OECD-löndum. Ég held að við gerum okkur öll grein fyrir því að það stafar náttúrlega fyrst og fremst af því að núna á allra síðustu missirum hafa menn verið að leiðrétta t.d. kjör lækna og hjúkrunarfólks til þess að freista þess að fá það til að koma heim til landsins o.s.frv. þannig að uppsafnaður vandi hefur valdið aukakostnaði á undanförnum 1--2 árum. Það held ég að sé ljóst.

Ég lýsi óánægju minni með svör hæstv. heilbrrh. varðandi sumarleyfi og rekstrarvanda. Mér fannst ekki koma fram neitt bitastætt í svörum hennar. Ég bað um svör við því hvenær tekið yrði á þeim rekstrarvanda sem augljóslega liggur fyrir og þau liggja greinilega ekki fyrir.

Varðandi sumarleyfi þá held ég að þjóðin sé mjög óánægð með það fyrirkomulag að deildum sé lokað í svo ríkum mæli sem raun ber vitni ár eftir ár. Það hlýtur að vera hægt að leysa rekstrarmál sjúkrahúsanna öðruvísi og ég held að menn eigi að freista þess að fara í þá vinnu.

Í mörgum starfsgreinum hagar þannig til að menn geta hreinlega ekki farið í sumarfrí og það verður að gera kröfu um að samfella sé í rekstri þarna eins og á svo mörgum öðrum sviðum. Auðvitað er þetta spurning um samninga við viðkomandi starfsstéttir, lækna og hjúkrunarfólk, heilbrigðisstarfsmenn. Ég lýsi eftir því að farið verði í þá vinnu. Það er ekki endilega verið að tala um að ráða fleiri hundruð manns að kerfinu. Þetta er spurning um að fara í kerfisbreytingar og semja um breytt fyrirkomulag. Ég lýsi eftir svörum við því hvort hæstv. heilbrrh. hyggist fara í slíka vinnu með það að leiðarljósi að fá samfellu í starfsemina.