Umræða um frestun á hækkun bensíngjalds

Þriðjudaginn 15. júní 1999, kl. 14:14:33 (282)

1999-06-15 14:14:33# 124. lþ. 6.92 fundur 57#B umræða um frestun á hækkun bensíngjalds# (aths. um störf þingsins), ÖS
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 124. lþ.

[14:14]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Ég kveð mér hljóðs vegna þess að hér liggur fyrir til umræðu frv. af hálfu Samfylkingarinnar. Svo háttar til að efni þess frv. varðar m.a. tekjur ríkisins það sem af er þessu ári og þess vegna hefur Samfylkingin farið þess á leit við formann fjárln. að fundur verði haldinn í fjárln. til að ræða endurskoðaða tekjuáætlun ríkisins. Hv. þm. Jón Kristjánsson hefur tilkynnt okkur þingmönnum Samfylkingarinnar að sá fundur verði haldinn á morgun kl. 8:15. Það hefði verið miklu betra fyrir framvindu þessarar umræðu að sá fundur væri haldinn áður en umræðan fer fram þannig að þær upplýsingar sem við vorum að óska eftir lægju fyrir áður en umræðan hefst og a.m.k. áður en henni er lokið. Við viljum ekki leggjast gegn því að umræðan fari fram en, herra forseti, ég mælist til þess að umræðunni verði a.m.k. ekki lokið í dag og ekki fyrr en fundur í hv. fjárln. hefur verið haldinn þannig að hægt verði fyrir okkur þingmenn Samfylkingarinnar, sem munum heyja þessa umræðu fyrir hönd hennar, að nota þær upplýsingar sem e.t.v. kunna að koma fram um tekjur ríkisins fram til þessa áður en umræðunni lýkur.