Vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

Þriðjudaginn 15. júní 1999, kl. 14:18:08 (285)

1999-06-15 14:18:08# 124. lþ. 6.1 fundur 9. mál: #A vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.# frv., Flm. JóhS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 124. lþ.

[14:18]

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi máls míns sem 1. flm. þessa frv. sem hér er á dagskrá taka undir beiðni hv. 7. þm. Reykv. þar sem hann óskaði eftir því við hæstv. forseta að þessari umræðu lyki ekki fyrr en hv. fjárln. hefði gefist tækifæri til að fjalla um endurskoðaða tekjuáætlun. Ég segi þetta, virðulegi forseti, í upphafi máls míns vegna þess að óhjákvæmilega mun staða efnahagsmála almennt í þjóðfélaginu og staða ríkisfjármála almennt tengjast þeirri umræðu sem hér fer fram .

Frumvarp það sem ég mæli fyrir er um breytingu á lögum nr. 29/1993, um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., sem ég flyt ásamt hv. þingmönnum Össuri Skarphéðinssyni, Jóhanni Ársælssyni, Guðmundi Árna Stefánssyni og Lúðvíki Bergvinssyni.

Efni frv. er að ráðherra verði óheimilt að hækka bensíngjald á árinu 1999 en frv. er þáttur í aðgerðum sem þingflokkur Samfylkingarinnar beitir sér nú fyrir til að sporna við verðbólgu.

Við í þingflokki Samfylkingarinnar teljum afar mikilvægt að stjórnvöld og Alþingi beiti sér fyrir aðgerðum, viðnámsaðgerðum gegn verðbólgu. Í upphafi þessa þings gerði þingflokksformaður Samfylkingarinnar þinginu grein fyrir þeim aðgerðum sem við teljum mikilvægt að nái fram að ganga til að slá á þensluna í efnahagslífinu, koma í veg fyrir vísitöluhækkanir sem leiðir til hækkana á skuldum heimila og aukinnar verðbólgu.

Ástæða er til að geta þess í upphafi, herra forseti, að í nýafstaðinni kosningabaráttu hélt hæstv. forsrh. því fram að það eina sem gæti ógnað stöðugleikanum í þjóðfélaginu og komið af stað verðbólguhjólinu væri að Samfylkingin kæmist til valda. Kosningarnar voru ekki fyrr afstaðnar en verðbólguhjólið fór af stað og hækkanirnar að dynja yfir landsmenn. Nú er það hlutskipti Samfylkingarinnar í stjórnarandstöðu að tala fyrir því að gripið verði til nauðsynlegra aðgerða til þess að reyna eins og kostur er að sporna við því að verðbólgan fari af stað á nýjan leik.

Ég hef ekki orðið mikið vör við að meðan Alþingi hefur setið eða frá því að þessar hækkanir fóru að dynja yfir hafi verið tilburðir uppi í ríkisstjórninni eða á Alþingi til að kynna þinginu aðgerðir til viðnáms gegn verðbólgu. En vonandi kemur það í þessari umræðu sem nú á sér stað.

Ég vil í nokkrum orðum í upphafi máls míns, herra forseti, draga saman í stuttu máli þær aðgerðir sem þingflokkurinn telur nauðsynlegt að fara í, sem allar lúta að því að draga til baka eða fresta þeim hækkunum sem við höfum orðið vitni að á undanförnum vikum.

Það er í fyrsta lagi að draga til baka eða fresta boðaðri hækkun á bensíngjaldi, en það er það mál sem er hér á dagskrá. Í annan stað að draga til baka eða fresta gjaldskrárhækkun Landsvirkjunar. Og í þriðja lagi hefur þingflokkur Samfylkingarinnar mótmælt fráleitri hækkun tryggingafélaganna á iðgjaldi bifreiðatrygginga og hefur sett fram rök gegn henni. Í fskj. með frv. kemur fram að í krafti þeirra miklu og vaxandi bótasjóða sem tryggingafélögin hafa í vörslu sinni geti þau mætt þeim breytingum sem gerðar voru á skaðabótalögunum á síðasta þingi án óhóflegra hækkana á iðgjöldum. Við bendum líka jafnframt á að hagnaður tryggingafélaganna hefur verið gífurlega mikill á undanförnum tveim árum eða vel á þriðja milljarð króna.

Sú sem hér stendur beindi því til Fjármálaeftirlitsins 25. maí sl. að það hraðaði athugun sinni á forsendum iðgjaldahækkunar tryggingafélaganna þannig að Alþingi gæfist ráðrúm til að fjalla ítarlega um þær á yfirstandandi þingi. Jafnframt hefur þingflokkurinn með bréfi, sem undirritað var af formanni þingflokksins fyrir nokkrum dögum, óskað formlega eftir því við hæstv. viðskrh. að þegar í stað verði sett reglugerð sem heimilar Fjármálaeftirlitinu að grípa til aðgerða ef tryggingafélögin fara ekki að kröfum eða athugasemdum Fjármálaeftirlitsins um úrbætur, geri eftirlitið athugasemdir við ósanngjörn iðgjöld sem ekki eru í samræmi við áhættu sem í vátryggingunum felst.

Við minnum á að þótt ár sé liðið frá því að viðskrh. fékk slíka heimild hefur hann ekki sett reglugerð og á meðan teljum við óljóst hvort hið opinbera hafi tök á að knýja tryggingafélögin til að fylgja fyrirmælum Fjármálaeftirlitsins komi í ljós að Fjármálaeftirlitið geri athugasemdir við þessar iðgjaldahækkanir.

Ég vil nota tækifærið, virðulegi forseti, þar sem hæstv. viðskrh. er í salnum og hlýðir á þessa umræðu, þar sem honum hefur væntanlega borist þessi beiðni þingflokksins, að hann taki þá þátt í umræðunni, það er ósk mín, og geri þinginu grein fyrir skoðun sinni almennt á þeim hækkunum sem hafa verið að dynja yfir og sérstaklega þeim sem snúa að ráðuneyti hans, þ.e. hækkunum tryggingafélaganna og hvort hann verði við beiðni og ósk þingflokks Samfylkingarinnar um að setja þá reglugerð sem ég nefndi. (Viðskrh.: Hvað var það meira en reglugerðin?) Það var reglugerðin og almenn skoðun hæstv. viðskrh. á því sem er að gerast í þjóðfélaginu, þenslunni og þeim hækkunum sem hafa verið að dynja yfir. Það er undirliggjandi verðbólga og margir sem hafa miklar áhyggjur af þeim þenslueinkennum sem eru í þjóðfélaginu í dag. Ég vænti þess að hæstv. ráðherra hafi litið á það sem t.d. kemur fram í Morgunblaðinu í morgun. Þar er opna þar sem farið er yfir þær hættur sem eru á fjármagnsmarkaðnum almennt og beinist ekki síst að bönkunum og þeirri miklu útlánaaukningu sem þeir hafa staðið fyrir eða um 40% milli ára, sem menn telja að sé ekki síst stór þáttur í þeirri þenslu sem hér hefur orðið. Það er því full ástæða til að hæstv. ráðherra taki þátt í umræðunni.

Ég vil líka nefna það, sem snýr einnig að hæstv. viðskrh., að við teljum í þeirri ályktun sem þingflokkurinn gerði fullt tilefni til að kannað verði af hálfu Samkeppnisstofnunar hvort félögin hafi beitt ólögmætu samráði um þessa hækkun. Þingflokkurinn fól fulltrúum sínum í efh.- og viðskn. að taka málið upp þar og kalla til fulltrúa Samkeppnisstofnunar til að fara yfir þann þátt málsins. Það hefur þegar verið gert og haldinn fundur í efh.- og viðskn. Þar kom fram hjá tveim fulltrúum Samkeppnisstofnunar, sem mættu á þann fund, að Samkeppnisstofnun hefði þegar ákveðið að taka það mál upp, þ.e. Samkeppnisstofnun hefur þá sjálf álitið það nauðsynlegt að kanna hvort um verðsamráð milli tryggingafélaganna hafi verið að ræða. Sá þáttur málsins er því þegar kominn í farveg og athugun hjá Samkeppnisstofnun. Hún hefur upplýst efh.- og viðskn. um að niðurstaða hennar varðandi þann þátt málsins muni liggja fyrir að einum til tveim mánuðum liðnum.

Herra forseti. Áður en ég fer í efni frv. mun ég nota nokkuð af tíma mínum til að fara yfir stöðu efnahagsmála og ríkisfjármála almennt og benda á þær hættur sem ég tel að blasi við og hafi ekki fengið umræðu hér á þessu stutta þingi en full ástæða er til að gefa gaum, ekki síst fyrir hæstv. ríkisstjórn og hæstv. fjmrh.

Það var töluvert farið yfir efnahagsmálin í nýafstaðinni kosningabaráttu og það var viðurkennt af ýmsum stofnunum að hættu- og þenslueinkenni væru víða í þjóðafélaginu. Menn bentu á viðskiptahallann sem hefur verið gríðarlegur á síðasta kjörtímabili, sennilega einhvers staðar á milli 70--80 milljarða kr. En þegar ríkisstjórnin sem þá sat, sem er sú sama og nú situr, tók við hafði ekki verið halli á viðskiptunum heldur afgangur. Vissulega hefur dregið úr þeim viðskiptahalla, sem var 33 milljarðar í fyrra og áætlaður núna 27 milljarðar, en engu að síður er hann alveg gífurlega mikill.

Eins er ljóst, sem hlýtur að vera áhyggjuefni fyrir hæstv. ráðherra, að þó að tekist hafi nokkuð bærilega að greiða niður skuldir ríkissjóðs, þá hafa erlendar skuldir þjóðarbúsins, eins og þær voru síðast þegar ég skoðaði það, vaxið. Og vissulega er full ástæða til að hafa áhyggjur af því. Mig minnir að þær hafi vaxið frá 1997 um 47% en höfðu farið upp í nálægt 50% þegar ég skoðaði þessar stærðir síðast.

[14:30]

Síðan er það mál sem við hljótum að hafa verulegar áhyggjur af og það eru skuldir heimilanna. Það er ekki síst einmitt þess vegna sem við höfum flutt tillögur okkar um aðgerðir en aukningin á skuldum heimilanna hefur verið mjög mikil, 130 milljarðar á síðasta kjörtímabili. Við sjáum það á því súluriti sem birt var í Morgunblaðinu í morgun að á undanförnum árum hafa þær vaxið hrikalega og er full ástæða fyrir alla að hafa af því verulegar áhyggjur. Á því eru ýmsar skýringar sem ég vil aðeins koma inn á í máli mínu.

Sú 0,8% vísitöluhækkun, sem Hagstofan reiknaði út, hækkar verðtryggðar skuldir heimilanna um 3 milljarða kr. eða 30 þúsund að meðaltali á hverja fjölskyldu. Af því að ég sé hæstv. forsrh. í hliðarsal, ráðherra Hagstofu, þá leikur mér forvitni á að vita hvaða skoðun hæstv. forsrh. og ráðherra Hagstofu Íslands hafi á þeirri mælingu sem kom fram hjá Hagstofunni, sem ég tel að sé alveg ný, þar sem verið er að vega og meta inn aukna þjónustu eða í þessu tilviki aukna tryggingavernd þar sem vísitalan mældi þá miklu minna að því er varðar hækkun tryggingafélaganna.

Nú ber að fagna því að vísitöluhækkunin er minni en menn óttuðust. En maður veltir fyrir sér hvaða afleiðingar ný mæling hjá Hagstofunni muni hafa í framtíðinni og hvernig mælingin er raunverulega ef á að fara að mæla að hluta til inn í vísitöluna aukna þjónustu og síðan sérstaklega almennar verðlagshækkanir. Ég vil því spyrja hæstv. forsrh. hvort hann hafi eitthvað skoðað þennan þátt sérstaklega og hvort hann hafi myndað sér eitthvert álit á þeirri leið sem Hagstofan hefur tekið upp.

Í þessu sambandi vil ég líka nefna það sem ég tel að muni hafa veruleg áhrif á næstu mánuðum --- og þar höfum við heyrt viðvörunarbjöllurnar klingja --- en það er er afleiðingin af nýja húsnæðislánakerfinu sem tekið var upp um sl. áramót. Við höfum orðið vitni að því að stöðugleikinn sem verið hefur í verði á fasteignamarkaðnum mörg undanfarin ár er allt í einu ekki til staðar og á undanförnum mánuðum hefur verð á fasteignum á höfuðborgarsvæðinu hækkað um 10--25%.

Ég held að skýringin á þessu, þó að vissulega séu til fleiri en sú eina sem ég ætla að nefna, sé að það hefur verið farið mjög óvarlega af hálfu viðkomandi ráðherra í því nýja greiðslumati sem var tekið upp um sl. áramót. Í nýja greiðslumatinu er það tekið upp að 30--50% af brúttólaunum einstaklinga geta farið til þess að greiða niður lán af íbúðarhúsnæði. Áður var það 18% og sumir töldu það vera allt of hátt. Ég man að þegar húsbréfakerfið var tekið upp 1990 þá var um smátíma, í örfáar vikur, miðað við að 30% af launum gætu farið til þess að greiða lán en menn voru hræddir við það. Töldu að þarna væri verið að opna fyrir það að fólk væri að reisa sér hurðarás um öxl og opna þarna fyrir greiðsluerfiðleika og menn fóru með greiðslumatið niður. Nú er allt í einu búið að opna það þannig að 30--50% af launum geti farið í að greiða niður lán.

Ég hef spurst fyrir um það hjá Seðlabanka, Þjóðhagsstofnun og Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna hvaða afleiðingar þetta getur haft.

Þjóðhagsstofnun segir, með leyfi forseta: ,,að hætta sé á að rýmra greiðslumat muni leiða marga til þess að reisa sér hurðarás um öxl við íbúðarkaup.`` Og þeir segja enn fremur: ,,Þá er einnig hætta á að rýmkað greiðslumat verði notað til að fjármagna aðra neyslu.`` Og: ,,Rýmkun greiðslumats er ekki skynsamleg ráðstöfun við núverandi efnahagsskilyrði.`` Að lokum segir Þjóðhagsstofnun: ,,Leiði rýmkað greiðslumat til aukinnar eftirspurnar eftir húsbréfum er viðbúið að það muni setja aukinn þrýsting á vaxtastigið`` --- sem það þegar hefur gert, vextirnir hafa hækkað --- ,,og/eða hækkað verð á íbúðarhúsnæði verulega.`` --- Hvort tveggja hefur komið fram.

Seðlabankinn fer heldur vægar í sakirnar en segir þó: ,,Að öðru óbreyttu eykur breytingin líkur á greiðsluerfiðleikum síðar.`` --- Og segir að ekki sé heppilegt að rýmka viðmiðunarmörk greiðslumatsins um þessar mundir.

Það er mat Ráðgjafarstofu heimilanna í nýlegu svari sem ég hef fengið frá henni að hún varar við að þær tölur sem við er miðað í þessu greiðslumati séu lagðar til grundvallar mati til lántakenda lána Íbúðalánasjóðs.

Þetta vildi ég láta koma fram. Ég held að þar sem svo margir eiga nú kost á því að fara inn í húsbréfakerfið, sem út af fyrir sig væri gott ef fólkið gæti staðið undir þessu, eftirspurnin hefur verið það mikil eftir íbúðarhúsnæði, það eru það margir sem komast núna inn í húsbréfakerfið, þá hafi það leitt til þess að verð á húsnæði hefur stigið upp. Hætta er á því, eins og Þjóðhagsstofnun segir og reyndar Seðlabankinn líka, að þetta geti leitt til vaxandi greiðsluerfiðleika.

Ég vildi láta þetta koma fram vegna þess að full ástæða er til þess að vara við þeirri þróun sem hér er orðin.

Í því yfirliti sem kemur fram í dag í Morgunblaðinu almennt um þensluna í efnahagsmálum er einmitt verið að tala um þessa auknu lánsmöguleika sem komi með hlutafjáraukningu í bankanum, Búnaðarbankanum og Landsbankanum, sem hefur gert það að verkum að þeir hafa getað aukið verulega útlán sín sem hafa aukist um 40% milli ára. Í yfirlitinu kemur fram, haft eftir einum fjármálaspekingnum, Benedikt Jóhannessyni, að hann telji að tilkoma FBA hafi einnig haft sitt að segja um þensluna og segir orðrétt: ,,... ég var efins um að brýn þörf væri á banka eins og FBA, ...``

Ég vil líka vekja athygli á því að í þessari samantekt stendur að ,,Norðurlandaþjóðirnar lifðu sín fyrstu fjármagnsfrelsisár á síðasta áratug. Í kjölfarið fylgdi lánagleði og oflánun og þegar kreppti að var greiðslugetan ekki í samræmi við útlánin. Við tók gjaldþrot heimila og fyrirtækja og bankarnir urðu fyrir miklu tapi.``

Síðan segir orðrétt: ,,Nú má velta því fyrir sér, hvort of mikil fjármagnsþensla á Íslandi geti leitt til ferlis, er minnti á það sem gerðist á Norðurlöndum og í Asíu.``

Vonandi er það ekki en þetta eru viðvaranir sem eru settar fram í þessu sambandi.

Herra forseti. Ég vil þá víkja að frv. sem er ekki stórt í sniðum en hefur sitt að segja til þess að hægja á verðbólguhjólinu og við leggjum sem sagt til að sú bensínsgjaldshækkun sem varð núna 1. júní, ef ég man rétt, verði raunverulega dregin til baka. Eins og segir í grg. með þessu frv.:

,,Verði frumvarp þetta að lögum fellur lagastoð síðastnefndrar reglugerðar brott og verður því óheimilt að beita henni frá og með gildistökudegi laganna. Þar með verður að lækka bensíngjald til fyrra horfs eins og það var ákveðið með reglugerð nr. 339/1998.``

Við segjum líka í grg. að í gildandi vegáætlun sé gert ráð fyrir þessari hækkun og vissulega er gert ráð fyrir henni líka inni í fjárlögum og í tekjum fjárlaganna. Eftir því sem ég komst næst þegar við vorum að fara yfir þetta mál þá segir í grg. með fjárlögunum þar sem verið er að tala um sérstakt vörugjald af bensíni:

,,Á þessum forsendum eru áætlaðar tekjur af bensíngjaldi um 5,5 milljarðar króna á árinu 1999, eða um 400 millj. kr. hækkun frá árinu 1998.``

Við töldum því að af þessari tillögu okkar eða þessu frv. leiddi 400 millj. kr. tekjutap hjá ríkissjóði. En eftir því sem ég kemst næst núna, eftir að hafa rætt við fjmrn. er um að ræða 225 millj., þ.e. á seinni hluta þessa árs, eða er raunverulega vegna bensínsgjaldsins einungis um að ræða 180 milljónir en mismunurinn á 180 og 225 fæst vegna vegna virðisaukaskatts af bensíngjaldshækkuninni almennt. Við erum því að tala um 225 millj. kr.

Í vegáætlun kemur fram að í skiptingu útgjalda sem er áætlað á árinu 1999 8 milljarðar og 559 milljónir að um 420 milljónir af því eru vegna endurgreiðslu lána. Við teljum því að ef fallist yrði á þetta frv. okkar á hv. Alþingi væri hægt að fresta endurgreiðslum á þessum lánum og með því væri hægt að komast hjá því að draga úr framkvæmdum þrátt fyrir að hækkun bensíngjalds verði tekin til baka eða slegið á frest um einhvern tíma. Ég held að mjög mikilvægt sé að þetta komi fram.

Hækkun bensíngjalds hefur verið nokkuð mikil á umliðnum árum og það er alveg ljóst að ríkið hefur verulegar tekjur af bensíninu bæði í gegnum bensíngjaldið og virðisaukaskatt. Í því yfirliti sem ég hef fengið hefur bensíngjaldið hækkað um tæplega fjórar krónur á síðasta kjörtímabili, eða að meðaltali um eina krónu á ári og 1/3 af bensínverðinu eins og menn þekkja er bensíngjald og virðisaukaskattur.

Ég held að út af fyrir sig þurfi ekki að hafa fleiri orð um þetta sérstaka frv. sem ég mæli fyrir. Það er einlæg ósk okkar hjá Samfylkingunni að stjórnvöld og Alþingi geti tekið höndum saman til þess að slá á þá þenslu sem nú er í þjóðfélaginu. Ég geri mér fullkomlega grein fyrir því að það sem við höfum sett fram og fram kemur í ályktuninni frá Samfylkingunni er út af fyrir sig hvergi nærri nóg og sérstaklega sú undirliggjandi þensla sem ég var að draga fram sem birtist í skuldum heimilanna og minnkandi sparnaði.

Þetta er þó a.m.k. í rétta átt ef farið væri að þeim tillögum sem við höfum sett fram og vona ég að þó að stutt lifi af þessu þingi geti náðst um það samstaða, virðulegi forseti, að grípa til aðgerða vegna þeirra hækkana sem hafa verið að koma fram.

[14:45]

Ég fagna því mjög viðbrögðum hæstv. forsrh. sem komu fram í kjölfar hækkana tryggingafélaganna á iðgjöldum bifreiðatrygginga. Ég er hæstv. forsrh. hjartanlega sammála um að ekki er hægt að sjá í fljótu bragði neinar forsendur fyrir því að þessi hækkun eigi að ganga fram og fráleitt að halda því fram að þá hækkun megi rekja til skaðabótalaganna. Hagstofan hefur metið í vísitölunni hjá sér að 25% af hækkun tryggingafélaganna, sem voru upp undir 40%, sé vegna skaðabótalaganna en þar með er ekki öll sagan sögð. Það segir ekki að tryggingafélögin þurfi að hækka iðgjöld sín um 25% vegna þess að í þessu sambandi hljóti að koma til skoðunar staða hvers tryggingafélags fyrir sig og þessir margumtöluðu bótasjóðir.

Ég vil minna á að 1995, þegar átti að setja hér skaðabótalög, þá þurfti að fresta því í tvígang af því að tryggingafélögin gátu ekki gefið allshn. upp þær hækkanir eða hækkunartilefni sem leiddi af skaðabótalögunum. Vátryggingaeftirlitið og tryggingafélögin töluðu út og suður og enginn samhljómur var í því sem þau sögðu vegna þess að Fjármálaeftirlitið taldi að staða bótasjóðanna væri þá með þeim hætti að það mætti nota 3--4 milljarða af 11 milljarða bótasjóðnum til þess að mæta hækkun á iðgjöldum meðan tryggingafélögin sögðu sjálf að þetta væri vegna eldri tjóna.

Nú eru bótasjóðirnir sennilega orðnir 16--18 milljarðar. Engu að síður hafa tryggingafélögin frá 1996 lækkað iðgjöld sín og bótasjóðirnir eru orðnir um 16--18 milljarðar. Þeir hljóta því af hálfu Fjármálaeftirlitsins að koma til skoðunar þegar verið er að meta hvort iðgjaldahækkunin sé í samræmi við þá áhættu sem tekin er og þær breytingar sem urðu á skaðabótalögunum.

Þess vegna fagna ég viðbrögðum hæstv. forsrh. og geri mér líka vonir um að hæstv. viðskrh. hafi sömu afstöðu til málsins, að gaumgæfa þurfi þetta vel og fara ofan í allar þær forsendur sem liggja að baki.

Herra forseti. Það skulu vera lokaorð mín að ég vona að hægt verði að ná hér bærilegri samstöðu um að fara út í aðgerðir sem fellir niður eða dregur úr þeim hækkunum sem hafa verið að skella á á undanförnum vikum.